Færsluflokkur: Lífstíll

Þverártindsegg

Hvítasunnan er um næstu helgi. Þá ráðgerir hópur úr TKS (trimmklúbbi Seltjarnarness) að ganga á Þverártindsegg. Þessi ganga var ákveðin um miðjan vetur og mörg okkar hafa notað þetta takmark til að halda sér við æfingar. Ég verð að viðurkenna að ég hefði mátt vera duglegri. Líkamsræktin var ekki heimsótt eins oft og ég hefði viljað hafa. 

Hvað um það, ég hef náð að hlaupa nokkrum sinnum tæpa 10 km, varð að vísu aum í löppunum í aprílbyrjun og hvíldi hlaupaskóna aðeins. Fór á Skessuhorn á sumardaginn fyrsta og nú þrjár ferðir á Esjuna á einni viku. Seinast nú í kvöld og var ca 50 mín upp að steini. Það var takmarkið til að telja mig færa um að fara svo nú er ég útskrifuð og klár í slaginn.

Verst að veðurspáin fyrir helgina er ekki alveg að gera sig. Annars getur það nú breyst og okkar reynsla er sú að það þýðir ekkert að láta veðrið slá sig út af laginu. Hér að neðan er stolin mynd af netinu af Þverártindseggjum, ég veit ekkert hvar okkar gönguleið mun liggja, tek fram að þetta á ekki að vera klifur þannig að bláa línan upp þverhníptan hamarinn er klárlega ekki okkar leið.

Þverártindsegg


Norðanrok

Ég er í hlaupahóp sem kallar sig TKS (Trimmklúbbur Seltjarnarness). Þetta er mislitur hópur fólks sem hefur gaman af hlaupum, göngum og útiveru. Í hópnum eru maraþonhlauparar, miðlungsbrattir hlauparar og svo bara svona kerlingar eins og ég sem dingla sér með. Allt leyfilegt, líka að vera byrjandi og komast rétt svo á milli ljósastaura. Eins og einn félagi minn sagði: "Það er svo dásamlega ruglað fólk í þessum klúbbi að manni finnst maður vera normal þegar maður er með ykkur".

Við héldum árshátíð um helgina. Okkar samkomur eru yndislega sveitalegar enda líður mér afskaplega vel í þessum hópi. Við leigjum sal og svo koma bara allir með einhvern rétt á sameiginlegt borð. Svo er dansað út í eitt.

Ég er núna nýkominn inn úr rokinu og hálkunni. Oft förum við út á nesið, út fyrir Bakkatjörn og út að Gróttu köllum það að fara út fyrir steina. Í dag var það hins vegar Skólavörðuholtið, köllum það gullveginn, framhjá öllum gullverslununum í Bankastrætinu.

Textinn hér að neðan er reyndar um leiðina út fyrir nesið, þá blasa við heimaslóðir mínar. Þetta er svona árshátíðartexti:

Norðanrok

Lag: Þýtur í laufi

Norðan er rokið, brimið gnauðar,
vindur kallar hlauptu hratt.
Skokkum með kinnar okkar rauðar,
rokið það hressir, ekki satt?
Út fyrir steina hlaupum saman
blasir þar við Snæfellsnes.
Lífið er hlaupin, göngur, gaman,
gleðin hún býr í TKS.

Vertu til og komdu út að skokka,
vertu til að taka englahopp.
Komdu út því að félagarnir lokka,
armbeygjur og önnur asnaskopp.

Úr myndaalbúminu - Hrútfjallstindar

Hrútfjallstindar eru í sunnanverðum Vatnajökli, rétt ofan við Svínafell. Þetta eru 3 megin tindar og er sá hæsti tæpir 1900 m. Í apríllok á seinasta ári fór ég með nokkrum félögum mínum úr Trimmklúbbi Seltjarnarness í göngu á þessa tinda. Í svona ferðum rennir maður nokkuð blint í sjóinn með veður og skyggni. Þegar við lögðum af stað þennan morgun var þoka langt niður í miðjar hlíðar en síðan birti heldur betur upp og uppskárum við að þessu sinni ríkulega laun erfiðisins. Mig langar að deila uppskerunni með ykkur.

Þessi mynd er tekin úr Skaftafelli daginn eftir en þarna sjást tindarnir nokkuð vel. Fyrir miðri mynd aðeins til hægri sjást 2 gil en á milli þeirra er uppgönguleið á hrygginn sem tekur við þar fyrir ofan.

Þarna erum við komin upp á hrygginn, sólin farin að skína og lífið tóm hamingja. Nú tekur við erfiður partur af göngunni en það er að við þurftum að lækka okkur aftur töluvert og hækka síðan aftur. Það þýðir að heildarhækkun í göngunni varð mun meiri en þessir 1900m sem hæsti tindurinn er. Þess vegna er þessi ganga jafnvel erfiðari en Hvannadalshnjúkur.

null

Þetta er einn af tindunum, líklega sá næsthæsti. Ef vel er að gáð þá sjáið þið menn á toppnum. Það er Þorvaldur Þórsson sem vann það frækilega afrek á seinasta ári að ganga á alla íslenska tinda yfir 1400m, þeir reyndust vera í kringum 100. Þorvaldur var þarna á ferð sama dag og við. Til vinstri við tindinn sést sjálfur Hvannadalshnjúkur.

 

Hér sjást þeir kappar betur. Þorvaldur var þarna með 2 öðrum göngumönnum því í svona göngu á jökli er óðs manns æði að vera einn á ferð, menn verða að vera í línu því þarna eru sprungur. Við vorum að sjálfsögðu í línu og einn fór í tvígang ofan í sprungu.

Hér er kerlingin með frumburðinn á toppnum.

Nú erum við farin að huga að næstu ferð. Að þessu sinni stefnum við á Þverártindsegg í Kálfafellsdal í Suðursveit.

Til að komast það verð ég að stunda ræktina, enga leti. Ég skal alveg viðurkenna að ef ég hefði ekki eitthvað svona til að stefna að myndi ég ekki halda mér eins vel við efnið. Þetta er liður í peppinu, skoða myndir og láta sig langa aftur, nógu mikið til að puða.


Líkamsrækt

Mikilvægi hreyfingar er aldrei of oft brýnt fyrir okkur. Í því þjóðfélagi sem við búum í eru ýmsir lífsstílssjúkdómar í mikilli aukningu, tengjast margir ofnæringu (ofáti) og hreyfingarleysi.

Ég hef oft talið það eitt af mínum höppum í lífinu að ég var frekar þéttvaxinn unglingur. Einnig var ég með þráláta höfuðverki sem engin skýring fannst á. Ég forðaðist hreyfingu aðra en sem fylgdi sveitastörfum þeim sem ég ólst upp við. Vissulega fylgdi því hreyfing en hún var oft einhæf, bogra undir kýr við mjaltir og mokstur á votheyi á sumrin getur tæplega talist holl hreyfing til lengdar. Ég stundaði engar reglubundnar íþróttir, íþróttir voru tæplega á sundaskránni í skólanum okkar þar sem aðstaða til íþróttaiðkana var æði bágborin.

Við 16 ára aldur gerði ég mér grein fyrir að ég var of feit, tók mér tak og gekk vel, hef síðan verið meðvituð og ef kílóin læðast að mér gríp ég strax til minna ráða. Í menntaskóla fékk ég betri og meiri íþróttakennslu og sótti til viðbótar sundlaugar og aðra líkamsrækt.

Á háskólaárunum slakaði ég á í ræktinni. Næstu viðvörun fékk ég þegar háskólanámi lauk og ég fór að vinna. Ég hafði iðulega verið með hausverk í náminu en bara sleppt úr tíma eða dópað mig upp. Þetta gekk ekki í vinnu. Ég fór til sjúkraþjálfara sem sagði mér að gera svo vel að hugsa betur um skrokkinn, styrkja mig og teygja á hálsvöðvum.

Ég hef sinnt þessu síðan, samviskusamlega. Alltaf stundað einhverskonar hreyfingu. Lykilatriðið er að hafa eitthvað gaman af því, vera í góðum félagsskap hjálpar mikið. Einnig er gott að setja sér markmið, ég reyni að fara á vorin stranga göngu, síðast fór ég á Hrútfjallstinda í Vatnajökli. Til að geta það stundaði ég ræktina stíft seinasta vetur og fór reglulega út að hlaupa með félögum mínum í TKS (Trimmklúppi Seltjarnarness). Nú dreymir mig og göngufélaga mína um Þverártindsegg í Suðursveit næsta vor.

Af höfuðverk er það að frétta að ef ég stunda líkamsrækt eða hlaup og teygjur þá er ég laus við hann, ef ég skrópa í hlaupunum eða ræktinni þá læðist hann aftan að mér.

Ég var heppin, fékk viðvörunina snemma og gerði eitthvað í því. Það fylgja því mikil lífsgæði að vera líkamlega vel á sig komin, slíkt gerist ekki af sjálfu sér og það er nauðsynlegt að huga að því alla tíð.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband