Álfkona óskast

Seinustu daga hafa heyrst háværar raddir sem krefjast niðurfellingar skulda heimilanna. Slík krafa hljómar í mínum eyrum sem bón um að til okkar komi algóð álfkona og breyti ártalinu í 2007.

Einn stjórnmálaflokkur er duglegri en aðrir að kynda undir þessari óskhyggju en það er Framsóknarflokkurinn. 

Í kosningum fyrir 6 árum var kosningaloforð Framsóknarflokksins um 90% íbúðalán fyrirferðamikið. Nú er talið að efndir þessa loforðs sé ein af orsökum gríðarlegrar hækkunar íbúðaverðs. Þeir sem tóku þessi lán horfa nú á eignir sínar falla í verði og standa margir hverjir uppi með neikvæða eignastöðu.

Sú staða er þyngri en tárum taki.

Til þessa hóps höfðaði Framsóknarflokkurinn í nýliðnum kosningum. 20% niðurfelling skulda var kosningaloforðið þetta árið.

En hvað þýða svona hókus pókus lausnir?

Án efa er fjöldi fólks í sömu stöðu og ég og mín fjölskylda. Núverandi húsnæði keyptum við þegar íbúðaverð var í lágmarki. Skuldir okkar eru mjög svo viðráðanlegar. Miðað við hugmyndir Framsóknarmanna þýðir þessi niðurfelling nokkrar milljónir í okkar vasa.

Þjóð sem hefur efni á að gefa fólki í minni stöðu milljónir er ekki þjóð í fjárhagsvanda. Það er þjóð sem neitar að horfast í augu við vandann.

Málflutningur Framsóknarmanna er veruleikafirring í besta falli en populismi í versta falli.

Því finnst mér afskaplega sorglegt að Hagsmunasamtök heimilanna haldi fram hliðstæðum kröfum og Framsóknarmenn, þ.e. kröfu um almenna niðurfærslu skulda. Slík niðurfærsla kemur ekki til með að gagnast þeim verst settu en gríðarlegum fjármunum verði þá varið til fólks sem ekki er í neinum vandræðum.

Nú þegar hafa verið sett í gang ýmis úrræði fyrir þá sem eiga erfitt með að standa í skilum. Vel má vera að þar sé ýmislegt gagnrýnivert og þar reynist gloppur sem þarf að laga, en þessar aðgerðir miða að því að taka sértækt á vanda hvers og eins. Tel ég það mun vænlegri kost en einhliða aðgerð á línunna óháð stöðu hvers og eins.


Vorganga TKS

Árleg vorganga félaga í TKS er áætluð á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. Þessar vorgöngur eru orðnar árviss viðburður og höfum við þegar gengið á Hvannadalshnjúk, Eyjafjallajökul, Hrútfellstinda og Þverártindsegg.

Löngunin til að taka þátt í þessum göngum heldur mér við efnið yfir veturinn. Ég dríf mig með félögunum út að hlaupa nánast í hvaða veðri sem er, reyni að fara líka í líkamsræktina og svo stunda ég bæði skíðagöngur og fjallgöngur. Allt til að komast með í vorgönguna.

Gangan á Miðfellstind er skipulögð þannig að lagt verður af stað úr Skaftafelli og gengið inn í Kjós og þaðan á tindinn. Gallinn er að gangan úr Skaftafelli inn í Kjós er víst ein og sér 12-16 km (mælingum ber ekki saman, á eftir að afla mér betri heimilda) og þá er eftir gangan á Miðfellstind en hann er víst 1430m. Og síðast en ekki síst þarf að koma sér til baka. Áætlunin gerir ráð fyrir 20klst ferð.

Í gær fórum við félagar í TKS saman í langa göngu til að kanna úthaldið. Við lögðum að baki u.þ.b. 24 km í frekar auðveldu göngulandi. Gengið var um Núpshlíðarháls á Reykjanesi.

Það skal viðurkennt að ég varð lúin eftir gönguna og tilhugsunin um að þetta væri lámarksvegalengd til og frá tindinum og að tindurinn sjálfur væri eftir, var ekki góð.

Síðan ég kom úr þessari æfingaferð hefur læðst að mér sú hugsun að hætta við vorgönguna. Það er ekki viturlegt að leggja af stað og vera óviss um hvort úthaldið leyfi svona ferð.

Ætli þrautalendingin verði ekki samt að herða æfingar, ég hef rúman mánuð, við áætlum ferðina 13. júní.

Semsagt nú verður slegið í og engin leti leyfð!


1. maí

Í dag er 1. maí. Dagurinn er baráttudagur verkafólks, ekki frídagur verkafólks eins og dagurinn er stundum kynntur.

Á þessum degi er okkur hollt að hugleiða stöðu launafólks, hugleiða þau réttindi sem hafa áunnist og hversu fjarlæg þessi réttindi voru forfeðrum okkar.

Seinustu ár hefur kjarabarátta þótt óspennandi. Miklu fínna þótti að semja um kjör með einstaklingsbundnum samningum beint við vinnuveitanda. Kjarasamningar voru einungis lágmörk sem enginn lét bjóða sér. Nú þegar harðnar á dalnum getur launafólk staðið frammi fyrir því að þessi lágmörk séu þau kjör sem þeim eru boðin.

Í dag er okkur nauðsynlegt að hugleiða mikilvægi stéttafélaga og hversu mikilvægt það er að taka virkan þátt í starfi þeirra og kjarabaráttu. Hætt er við að sú barátta einkennist af varnarbaráttu næstu árin, en mikilvægi baráttunnar minnkar ekki heldur eykst.

Því er þátttaka launþega í sínum stéttafélögum mjög mikilvæg því án samstöðu er auðvelt að kroppa í áunnin réttindi.

Til hamingju með daginn!


ESB og þjóðaratkvæðagreiðsla

Umræður um aðild eða ekki aðild að ESB hafa heldur betur lifnað við eftir kosningar. Í raun er stórfurðulegt að ekki hafi verið fjallað meira um þetta mál í aðdraganda kosninganna.

Kaffistofan á mínum vinnustað logar sem aldrei fyrr, kannski vegna þess að þeir sem fyrir kosningar töldu sig samherja (VG og Samfylkingarfólk) skyndilega uppgötva að í raun ber himin og haf á milli þessara flokka í þessum málum. Annar flokkurinn telur þetta vera leið okkar út úr þeim hremmingum sem við erum í en hinn telur þetta nánast landráð.

Í vikunni rakst ég á umfjöllun um þetta í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 frá því í byrjun apríl. Þessi þáttur er aðgengilegur á síðu Láru Hönnu, sjá hér. Ég hvet alla eindregið til að skoða þáttinn, hann er vel gerður og aðgengilegur á mannamáli. Alls engin einhliða áróður, kostir og gallar aðildar dregnir fram, einnig farið yfir þau atriði sem misskilningur virðist vera uppi um og reynt að leiðrétta hann.

Framarlega í þættinum er talað við hagfræðing hjá Seðlabankanum. Hann fer yfir gjaldmiðilsmálin og eftir að hafa dregið fram ýmsa möguleika og bent á kosti og galla þeirra kemst hann bara að einni niðurstöðu.

Í byrjun vikunnar var rætt um að ein helsta leið stjórnarflokkanna til að leysa þetta mál væri að láta þjóðina kjósa um hvort við ættum að sækja um aðild.

Slíkt tel ég hið mesta óráð. Ekki bara vegna þeirrar bullumræðu sem uppi yrði þar sem andstæðingar myndu draga upp alls kyns fals um hvað í þessu fælist og þeir sem eru hliðhollir umsókn myndu draga upp glansmynd sem aldrei fengist staðist.

Það sem ég óttast meir er að í aðdraganda slíkra kosninga myndu stjórnarflokkarnir, meira að segja ráðherrar í ríkisstjórn, verða í andstæðum fylkingum og láta einskis ófreistað. Slíkt yrði ekki heppileg byrjun fyrir vinstri stjórn sem ég og fleiri hafa beðið eftir árum saman.

Loksins þegar íhaldið hrökklaðist frá völdum.

Ekki langar mig að skemmta skrattanum með því að berjast í kosningum við þá sem ég tel miklu frekar vera samherja í stjórnmálum.


Sérfræðingar og ESB

Steingrímur J. er ákveðinn og skeleggur stjórnmálamaður. Með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgja.

Nú óttast ég að ósveigjanleiki hans verði honum og nýrri vinstri stjórn fjötur um fót. Steingrímur virðist ekki geta sætt sig við að hafnar verið aðildarviðræður að ESB og kosið verði um inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hann kvartar undan ESB elítu sem haldi umræðunni á lofti og öllum þeim "sérfræðingum" sem haldi því fram að við ættum að láta reyna á aðildarviðræður.

Ég tel nauðsynlegt í ljósi aðstæðna á þessu landi að við hlustum á "sérfræðinga" um efnahagsmál. Tökum mark á þeim leiðum sem þeir leggja til. Þetta gildir bæði um leikmenn og stjórnmálamenn.

Því tel ég að Steingrímur verði líka að hlusta á alla "sérfræðingana".

Í umræðu liðinna vikna hafa þessi "sérfræðingar" flestir átt það sammerkt að hafa mælt með aðildarumsókn.

Nú ríður á að VG dragi upp leiðir út úr þeirri krísu sem við erum í og marki okkur peningamálastefnu til framtíðar. Peningamálastefnu sem studd er rökum sérfræðinga í efnahagsmálum.

Með eða án ESB.

Ef Steingrímur skilar enn auðu í þessum málum en þverskallast samt enn við að fara að ráðum "sérfræðingaelítunnar" þá sýnist mér von mín um Röskvustjórn fölna fljótt.


Ekki tíðkaðist að ræða slíka styrki í bankaráðinu

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld var umfjöllun um "styrki" (lesist mútur) sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk frá Landsbankanum í árslok 2006. Umfjöllunin snerist um það að Björgólfur Guðmundsson hefði vitað af þessum styrk að sögn Sigurjóns Árnasonar. Styrkurinn hefði verið veittur með vitund og vilja Björgólfs.

Gott og vel, en:

"Aðspurður um af hverju þessi ákvörðun hefði ekki verið rætt í bankaráðinu sagði Sigurjón að það hefði einfaldlega ekki tíðkast að ræða slíka styrki þar".

Þessi seinustu orð segja meira en margt. "Styrkurinn" sem þjóðin hefur tekið andköf yfir seinustu vikur var ekki einsdæmi. Það var heldur ekki einsdæmi að ákvarðanir um slík fjárútlát hefðu bankastjórar tekið framhjá bankaráðinu.

Krefst þessi játning Sigurjóns ekki rannsóknar?


Það versta sem fannst um Vinstri græna

Þegar á brattann er að sækja í kosningabaráttu grípa stjórnmálaöfl stundum til örþrifaráða. Eitt af þeim er að dreifa neikvæðum áróðri um andstæðinginn.

Þessi neikvæði áróður getur falist í því að slíta orð hans úr samhengi, gera lítið úr honum eða benda á möguleg hagsmunatengsl sem þykja óæskileg.

Án efa eru Vinstri grænir hreina mey þessarar kosningabaráttu. Þeir voru í stjórnarandstöðu allan gróðæristímann en óþreytandi við að benda á hættuna sem yfir vofði. Þóttu bara neikvæðir nöldrarar. Einnig voru þeir með bókhald sitt opið þannig að ljóst var allan tímann hver styrkti þá og hversu mikið.

Einn skeleggasti og hreinskilnasti stjórnmálamaður okkar í dag er Katrín Jakobsdóttir í VG. Hún segir okkur umbúðalaust það sem aðrir þora ekki að segja. Þannig stjórnmálamönnum getum við treyst. Við erum komin með nóg af því að vera leynd sannleikanum.

Nú hefur verið opnuð vefsíða sem "AHA hópurinn" stendur fyrir. Hverjir það eru kemur auðvitað ekki fram. Markmið þessarar vefsíðu er að sverta frambjóðendur VG.

Miðað við það markmið finnst mér afar þunnt það sem er á þessari síðu. Það versta sem síðuhöfundar hafa um VG að segja er eftirfarandi:

  • Katrín Jakobsdóttir segir okkur sannleikann um niðurskurð í opinberum rekstri, vill frekar launalækkanir en uppsagnir.
  • Jón Bjarnason telur ósanngjarnt að niðurskurður næstu ára lendi með sama þunga á þeim svæðum sem ekki nutu góðærisins og þeirra svæða sem nutu þess.
  • Bróðir Kolbrúnar Halldórsdóttur hefur setið í stjórnum svokallaðra útrásarfyrirtækja.
  • Steingrímur J. Sigfússon er á móti nektar- og súlustöðum og vill stemma stigu við klámdreifingu á netinu.
  • Kolbrún Halldórsdóttir hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi um litaval á klæðnaði ungbarna á fæðingardeildum.

Var AHA hópurinn búinn að leita lengi þegar hann loksins fann þessi hræðilegu atriði um frambjóðendur VG?

Var virkilega ekkert annað sem hópurinn fann til að setja sem andáróður um þau?

Eða er þetta bara lélegur brandari?


Aðild að ESB skyndilega orðið kosningamál

Í gær og í dag hefur umræða um aðild Íslendinga að ESB orðið skarpari. Greinar hafa birst í blöðum og vefmiðlum með umfjöllun um hversu brýnt hagsmunamál aðildarumsókn að ESB sé fyrir okkur Íslendinga (sjá t.d. hér og hér). Sömuleiðis er leiðari Morgunblaðsins í dag á sömu nótum. Þessi umfjöllun á það sammerkt að leggja áherslu á að efnahagsleg staða okkar sé mun verri en haldið hefur verið fram. Þorsteinn Pálsson hélt því fram í þættinum "Markaðurinn" á Stöð 2 í gærkvöld að jafnvel margir þingmenn gerðu sér enga grein fyrir þessu.

Það er klárt að aðild að ESB er engin töfralausn en í peningamálum þjóðarinnar hefur engum dottið neitt annað í hug til framtíðar. Helst hefur verið gagnrýnt að ferlið taki langan tíma. Með sömu rökum ætti engin fitubolla að fara í megrun, það taki of langan tíma.

Krónan sem framtíðargjaldmiðill Íslands er ekki valkostur og lánstraust okkar á erlendum vettvangi er minna en ekkert. Ég vildi óska að til sé önnur leið en aðild að ESB. Á þá leið hefur enginn stjórnmálaflokkur bent.

Vegna þessarar umfjöllunar sem var í gær og í leiðara Morgunblaðsins í dag vekur það furðu mína að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins komi í veg fyrir að hægt sé að breyta stjórnarskránni með einfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík breyting hefði flýtt aðildarferlinu en nú er ljóst að kjósa þarf aftur til alþingis áður en við getum orðið aðilar að ESB.

Þökk sé Sjálfstæðisflokknum.

Það vekur einnig furðu mína ef þessir sömu aðilar og hafa verið forvígismenn þessarar umræðu, ætla áfram að kjósa sinn gamla flokk. Í mínum huga snúast kosningarnar um næstu helgi um aðild að ESB. Þetta er okkar brýnasta hagsmunamál, þ.e. hvernig við ætlum að haga peningamálum þjóðarinnar næstu árin.

Um næstu helgi er valið okkar.


Sóleyjarhöfði - Kerlingarfjöll

Eldsnemma á skírdag hittist 13 manna hópur með útbúnað og vistir til þriggja daga. Ferðinni var heitið að Sóleyjarhöfða við Þjórsá og átti að fara á skíðum í Kerlingarfjöll. Veðurspáin hljóðaði upp á norðaustanstæðan vind og einhverja úrkomu. Ég var örlítið smeyk um að þetta yrði svolítið slark en reyndi að haga útbúnaði eftir því.

Haldið var af stað á fjallabíl og keyrt sem leið lá upp með Þjórsá. Ekki reyndist fært alveg að Þjórsá og munaði ekki miklu að bíllinn færi með hópinn fram af snjóhengju. Það slapp til og var hópnum í staðinn hent út og sagt að ganga rest. Veðrið var líkt og búast mátti við skv veðurspá, él og hvasst.

IMG_7732

Fólk kepptist við að búa sig af stað, allir fullir tilhlökkunar að takast á við verkefnið. Örlítið kveið ég því að fara yfir Þjórsá en bílstjórinn og fararstjórinn fullyrtu að hún væri ísilögð.

Við pjökkuðum af stað og hrollurinn sem sat í okkur eftir bílferðina var fljótur að hverfa. Skyggnið var lítið en þannig er lífið stundum. Svo kom að því að við fórum yfir nokkra sléttu. Þegar yfir hana var komið var tilkynnt að nú væri matarstopp, við værum komin yfir Þjórsá, sléttan var semsagt Þjórsá. Ekki var það nú neinn farartálmi.

Á myndinni hér að neðan sést sléttan sem reyndist ísilögð Þjórsá.

IMG_7737

Meðan við hlóðum orkubirgðir í matarpásu létti til og eftir það höfðum við gott skyggni. Leiðin lá um Þjórsárver og Kerlingarfjöllin alltaf framundan og nálguðust smám saman eftir því sem ferðinni miðaði áfram. Arnarfell hið mikla, Hjartarfell og Hofsjökull voru á hægri hönd.

Hér að neðan sjást Kerlingarfjöll í fjarska.

IMG_7772

Þennan dag var ferðinni heitið í skála jeppamanna undir Hofsjökli en skálinn kallast Setrið. Það er vel útbúinn skáli enda voru jeppamenn þar með konurnar sínar. Þeir sögðu okkur að það þýddi ekkert að bjóða frúnum aðra skála.

Um kvöldið ræddu göngumenn matarræði í ferðum sem þessum sem og annan útbúnað til gönguferða. Jeppamenn ræddu um bílagræjur. Það hafa allir sín áhugamál.

IMG_7782

Daginn eftir var haldið áfram. Skyggni var gott en heldur hvassara og ekki laust við skafrenning. Áður en haldið var af stað voru skíði smurð eftir kúnstarinnar reglum.

Kerlingarfjöllin blöstu við, Loðmundur togaði okkur til sín. Það er gríðarlega fallegt fjall.

IMG_7786

Í hádeginu stoppuðum við í skjóli en ekki vildi betur til en skafrenningurinn smaug um allt og kakóið fauk upp úr bollanum áður en vatnið náði að bleyta í því. Þegar svo vatnið komst í bollann skvettist það líka út. Eitthvað náðum við samt að nærast og drifum okkur af stað. Vettlingarnir mínir urðu rennblautir og reyndust þeir eini veiki hlekkurinn á útbúnaði mínum. Þetta voru ullarvettlingar og með því að fara í tvenn pör hvort yfir annað náði ég að halda hita.

Þegar við komum vestur undir Kerlingarfjöll komumst við í skjól af fjöllunum og þá lygndi svo mikið að um stund náðum við að skíða á peysunum og jafnvel húfulaus. Þá gleymdist skafrenningurinn fljótt.

IMG_7835

Síðla dags komum við í skálann í Kerlingarfjöllum. Þar var snjór lítill en þó nægur til að við kæmumst á skíðum alla leið.

Áætlunin hljóðaði upp á að skíða einn dag í viðbót í veg fyrir bílinn sem sótti okkur. Vegna snjóleysis í Kerlingarfjöllum varð ekkert af því.

Þetta var bráðskemmtileg ferð. Færið var gott, veðrið langt framar vonum og hópurinn jafn að getu og skemmtilegt fólk. Hér eftir munu gönguskíðaferðir heilla mig enn meir en hingað til.

 


Leikhús fáránleikans

Fréttir um risagreiðslur FL group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins setja atburði liðinna mánaða í nýtt samhengi. Vissulega grunaði mig að sterkt samband væri milli ýmissa fyrirtækja og Flokksins en stærðargráða upphæðanna er slík að ekki er lengur hægt að tala um styrki.

Stærðargráðan er slík að hún þoldi ekki dagsljósið. Það eitt gaf þessum fyrirtækjum tangarhald á Flokknum, tangarhald sem gerði það að verkum að ógnin um að ljóstrað yrði upp um greiðslurnar gerði Flokknum ókleift að gera nokkuð gegn hagsmunum þessara fyrirtækja.

Þess vegna heita svona greiðslur MÚTUR.

Það að flokkurinn reyni nú að segja okkur að einn maður beri ábyrgð á þessum greiðslum og að öðrum innan flokksins hafi ekki verið kunnugt um þetta er aumt yfirklór. Sérstaklega ef hugað er að því að framkvæmdastjóri flokksins var á þessum tíma varaformaður bankaráðs Landsbankans. Sá maður hefur verið illasofandi í vinnunni á báðum stöðum og ekki sinnt skyldu sinni eða að freklega hafi verið gengið fram hjá honum.

Enn erum við stödd í leikhúsi fáránleikans á Íslandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband