Hreyfiskýrsla

Um helgina dvaldi ég í frábærum félagsskap vinkvenna sem voru með mér á heimavist Laugargerðisskóla fyrir örfáum (30) árum. Við dvöldum í húsi Snæfellingafélagsins á Eyri á Arnarstapa yfir helgina.

Frekar frábært.

Megintilgangur ferðarinnar var samvera en mér tókst að troða inn örlitlu af mínu prívatæfingaprógrammi. Þar sem við brunuðum vestur strax eftir vinnu á föstudag varð lítið um skopp þann daginn.

Einn af fylgifiskum mikilla æfinga er minni svefnþörf. Ég er farin að vakna fyrir allar aldir og það gerði ég einnig á laugardagsmorgun. Því gat ég á meðan flestar hinar kúrðu sig enn undir sænginni, laumast út og tekið skokkrúnt. Ég hljóp eftir þjóðveginum frá Arnarstapa yfir að Hellnum og til baka um hraungötu með ströndinni. Ég giska á að þetta séu rúmir 7km.

Við ströndina er lognið mest snemma á morgnana, kyrrðin aðeins rofin af fuglasöng. Á Arnarstapa voru kríur og mávar áberandi, á leiðinni niður að Hellnum þurfti hrossagaukur að ræða við mig málin og ritan og fýllinn voru áberandi í klettunum við ströndina.

Þetta var með skemmtilegri hlaupaleiðum sem ég hef farið.

Í dag er svo sunnudagur og á hann verð ég bara að skrá skróp. Ekkert brölt.


Fjölskyldan í fyrirrúmi

Ég á mér líf fyrir utan æfingaprógrammið. Það líf kallast nánasta fjölskylda. Dóttir mín bað mig um smágreiða sem ég að sjálfsögðu varð við. Allt æfingaprógramm varð undan að láta, sem er í góðu lagi þar sem ég hef að mínu viti haldið mér skikkanlega við efnið seinustu daga.

Helgin er hins vegar upptekin fyrir kerlingarnar í lífi mínu (saumaklúbbinn). Hvernig ég læt æfingaprógramm falla inn í þá dagskrá á ég eftir að finna út úr.


Hefðbundin miðvikudagsæfing

Í dag var hefðbundin miðvikudagsæfing. Upphitun við sundlaug Seltjarnarness, hlaupið út fyrir Bakkatjörn og til baka með sjónum um nesið norðanvert. Síðan voru göturnar að norðanverðu hlaupnar upp og niður.

Að þessu loknu voru æfingar í sal með þjálfara í ca 30 mín.

Okkur telst til að við hlaupum rösklega 7 km á hefðbundinni miðvikudagsæfingu.

Það var ansi hvasst og þurfti lítið að hafa fyrir andardrættinum. Bara opna munninn og þá belgdist maður út af lofti.


Hvíld

Í dag tek ég hvíldardag. Það er líka nauðsynlegt að leyfa skrokknum að slaka á.

Hugrún göngufélagi minn, stendur fyrir gönguferðum á þriðjudögum og í dag á að ganga á Lambafell við Þrengslaveg. Mig langaði með og var að hugsa um að skella mér en Evrovision hafði betur.

Ég giska á að einhverjir fastagestir þessarar síðu telji mig vera hreyfióða þessa dagana. Þeim vil ég benda á að þetta er ekki svo mikið umfram það sem ég geri venjulega. Ég hef undanfarin ár mætt nokkuð vel í hlaupatíma TKS sem eru þrisvar í viku, mánudaga, miðvikudaga og laugardaga. Því til viðbótar fór ég oft í ræktina á sunnudagsmorgnum í vetur og einnig stundum á gönguskíði. Í vor hef ég svo farið nokkrum sinnum á Esjuna.

Það skal að vísu viðurkennt að ég hef ekki oft náð 5-6 verulega aktífum dögum á viku.

Þar sem ég bý með maraþonhlaupara og margir göngufélagar okkar eru verulega sporléttir þá hef ég einsett mér að reyna að hanga í þessu fólki. Þetta er frábær félagsskapur og vellíðanin sem fylgir góðu líkamlegu ástandi eru ómetanleg laun fyrir puðið.


Eins og hundur af sundi dreginn

Á mánudögum er hlaupaæfing með TKS. Þá er hlaupið langt. Hversu langt er langt er smekksatriði og fer eftir getu og markmiðum hvers og eins. Einnig eftir því hvar viðkomandi er staddur í undirbúningi undir götuhlaup sem áætlað er að taka þátt í.

Langt fyrir maraþonhlaupara getur þýtt 20-30km.

Langt fyrir hálfmaraþonhlaupara þýðir oftast 12-18km.

Langt fyrir skokkara án markmiðs þýðir kringum 10km.

Ég tilheyri seinasta hópnum. Mánudagshlaupin eru yfirleitt svipaður rúntur. Frá sundlauginni á Seltjarnarnesi  er hlaupið út á Ægissíðu, þaðan út að flugvelli, gegnum Vatnsmýrina, upp Njarðargötuna og upp á Skólavörðuholt. Þar er hefðbundið að stoppa í Krambúðinni og fá vatnssopa hjá Juan sem er Kúbverskur salsakennari og mikill vinur okkar. Síðan er skokkað niður Skólavörðustíginn, um Austurstrætið og ýmsar krókaleiðir um Vesturbæinn aftur út á Nes.

Styttri útgáfa af þessu er að fara í gegnum Háskólasvæðið og um Hljómskálagarðinn og síðan upp Þingholtin að Krambúðinni.

Við Jóhanna hlupum saman í dag og tókum styttri útgáfuna. Ég var nú samt svo hress þegar ég kom aftur út á Nes að ég tók stuttan Neshring til viðbótar, þ.e. út að Lindarbraut og síðan hringinn.

Ég veit ekki alveg hvað þetta er langt. Giska á a.m.k. 11km jafnvel 12km.

Veðrið var nú slíkt að ég reyndi hvað ég gat að upphugsa afsakanir til að fara ekki af stað. Gerði mér grein fyrir hversu aumingjaleg færslan nú í kvöld yrði........."það var rigning svo ég nennti ekki út.........."

Slíkt gengi bara alls ekki. Þetta er svo sannarlega aðhald.

Það er hins vegar ekki ofsögum sagt að ég var blaut eins og hundur af sundi dreginn þegar ég kom heim.

En hress og ánægð með mig.


Ég treysti félagshyggju- og jafnaðarmönnum best

Það er algerlega á tæru að ég fagna nýrri ríkisstjórn. Þetta stjórnarmynstur er það sem mig og fleiri hefur dreymt um en ekki þorað að vona að gæti orðið að veruleika.

Ég hins vegar vara við bjartsýni. Þeir sem líta á þessa ríkisstjórn sem lausn á okkar vandamálum og að nú muni bjartir tímar vera framundan, þeir munu verða fyrir vonbrigðum.

Heimanmundur þessarar ríkisstjórnar er enginn. Hennar verkefni er niðurskurður og aðhald. Margir munu spyrja hvar merkin um félagshyggju verði þegar litið verður á þessar aðgerðir. Nú þegar gætir vonbrigða hjá mörgum vegna aðgerða til aðstoðar heimilanna í landinu.

Félagshyggju- og jafnaðarstefna snýst ekki um að veita öllum sömu ívilnun. Hún snýst um það að jafna aðstöðu fólks og aðstoða þá sem þurfa en ekki flatt yfir línuna.

Ég finn ekki til öfundar gagnvart þeim sem fá auknar vaxtabætur eða barnabætur. Ég þarf ekki þessa aðstoð.

Takmörkuðum fjármunum okkar þarf að ráðstafa til þeirra sem þess þurfa. Til þess treysti ég vinstri mönnum betur en þeim hægri.

Ég óska nýrri ríkisstjórn farsældar og vinnufriðar.


Æfing dagsins

Veðrið í dag kallaði ekki á miklar fjallgöngur og þar sem ég tel hlaupin ekki mega vera alls ráðandi í æfingaprógramminu þá tók ég inniæfingar í morgun.

Fyrst 30 mín á skíðavél, 30 mín í tækjasal og síðan 30 mín á stigvél. Sú vél líkir eftir því að maður gangi upp tröppur eða fjall, hvert skref er mjúkt og reynir lítið á hné.

Þar sem ég tel daglegar þyngdarmælingar lítið marktækar og frekar óáhugaverðar birti ég hér eftir aðeins vikulegt yfirlit. Nú er liðin vika frá því ég tók andköf á baðvigtinni og breytingin er -2,1kg.


Svindl og dugnaður

Ég er mannleg og svindlaði í gær. Í tvennum skilningi en allt þó innan marka og ákvarðanir meðvitaðar, það var enginn sem "látti" mig svíkjast um.

  1. Ég var löt, þ.e. engin hreyfing.
  2. Ég skóflaði í mig pizzu og óhollum drykkjum.

Svona gengur aðhald fyrir sig, það verður líka að vera hægt að slaka á og leyfa sér óhollustu. Þetta er spurning um tíðni óhollustunnar.

Í morgun var svo venjubundinn laugardagshringur, 5km hlaup með hópnum og kirkjutröppur plús æfingar úti.

Að þessu loknu var svo farið í pottinn sem var heitur að venju, í tvennum skilningi. Það eru stjórnmálin rædd í víðu samhengi og ástandið tekið út. Alltaf fjörugar umræður og mörg sjónarhorn, allt í góðu.

Hvað varðar þyngdina þá átti ég seinast eftir að svala þorsta eftir Esjuferð. Sú mæling er því tæplega marktæk enda eru þessi 500g komin aftur.

 


Það var Esjan

Ég fékk í gær þá hugmynd að æsa göngufélaga mína með mér í göngu á Móskarðshnjúka. Við höfum farið nokkrum sinnum á Esjuna í vor og mér fannst vanta tilbreytingu.

Viðbrögðin voru nokkur jákvæð, sumir reyndar uppteknir, en Jóhanna og Bestla voru til í tuskið.

Strax í morgun var mér ljóst að það yrði bálhvasst. Móskarðshnjúkar blasa við mér úr vinnunni og hafa oft heillað mig. Í dag var oft yfir þeim ský og greinilega hvasst og kalt. Ég get ekki sagt að þeir hafi beint kallað á mig.

Á seinustu stundu afboðaði Bestla sig. Það fóru að renna á mig tvær grímur, þetta var kannski ekkert vit. Jóhanna svaraði engum símum eða öðrum skilaboðum.

Ég mætti upp á Shell bensínstöðina við Vesturlandsveg eins og ég hafði lofað. Auðvitað kom Jóhanna. Búin að hlakka til í allan dag. Við ákváðum nú samt að Móskarðshnjúkar væru betur geymdir til síðari tíma. Brjálað rok.

Esja skyldi það vera. Upp örkuðum við í hávaðaroki, það var varla stætt á tímabili. Við fórum lengri leiðina og vorum 69 mín upp að Steini en 30 mín niður.

Bara nokkuð ánægðar með okkur.

Þyngdarbreyting: -500g

Ég veit þetta er nokkuð skart, en það er að koma helgi með barnaafmæli og ýmsu góðgæti. Ég get ekki látið allt á móti mér.


Aðhald og afrek

Mig langar óskaplega með göngufélögum mínum á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. En ég óttast að líkamlegt ástand mitt bjóði ekki upp á slíka ferð.

Ég hef tekið ákvörðun um að herða mig í líkamsþjálfun. Það felst í fleiri gönguferðum, meiri sjálfsaga á hlaupum og mögulega fleiri ferðum í ræktina.

Eftir erfiða gönguferð á sunnudag gleypti ég í mig dágóðan skammt af hamborgara, frönskum og kokkteilsósu og skolaði niður með bjór. Að því loknu steig ég á vigtina. Talan sem við blasti jók mér ekki gleði. Það segir sig sjálft að nokkrar auka mjólkurfernur utaná skrokknum auðvelda ekki erfiða gönguferð.

Ég þarf að losa mig við nokkur kíló fyrir 13. júní og laga líkamsformið til að komast á Miðfellstind.

Til að auka aðhald mitt í þessu þá ætla ég að breyta ritstjórnarstefnu þessa bloggs. Ég hef haft það fyrir reglu að birta ekki meira en eina færslu á dag (á þessu hafa verið örfáar undantekningar). Næstu vikur ætla ég svo til daglega að upplýsa um hreyfingu og þyngdarbreytingar í sérstakri færslu. Ef ég hef eitthvað annað að segja mun birtast önnur færsla. Það má vel vera að lesendur mínir hafi takmarkaðan áhuga á þyngdarbreytingum mínum og hreyfingu, mér er hins vegar nokkuð sama. Ég geri þetta fyrir mig til aðhalds, það er erfiðara að svíkja sjálfan sig þegar þetta er opinbert.

Nú þegar eru 1,9kg farin. Það heitir nú bara á mannamáli að ég hef pissað bjórnum og garnafyllingin minnkað. Ein góð máltíð myndi fljótt snúa þessu við. Betur má ef duga skal.

Hreyfing seinustu daga hefur verið sem hér segir:

Sunnudagur: Eins og áður hefur verið upplýst fór ég í góða gönguferð, mæling segir að það hafi verið 25,5km á 7,5klst.

Mánudagur: Ég var bara lúin og leyfði mér leti. Var satt best að segja miður mín yfir að vera svona lerkuð en eftir að hafa áttað mig á að meðalgönguhraði var um 4km/klst (að frádregnum kaffipásum sem voru tvær) þá hefur andlega hliðin braggast.

Þriðjudagur: Göngufélagi minn Hugrún stendur á vorin fyrir vikulegum gönguferðum á þriðjudagskvöldum. Með henni og um 30 öðrum, fór ég í göngu á Drottningu og Stóra-Kóngsfell í Bláfjöllum. Gangan tók um 2 klst.

Miðvikudagur: Á miðvikudögum er hlaupadagur. Ég hljóp minn venjulega hring sem er um 5,5km og því til viðbótar tók ég brekkur. Heildarvegalengd var um 7km. Síðan voru 30 mín styrktaræfingar í sal með hópnum. Það gleðilega í dag var að ég fann strax fyrir meiri styrk eftir átökin á sunnudag. Maður þarf nefnilega stundum að reyna á þolrifin til að ná árangri. Annars hjakkar maður bara í sama farinu.

Myndin hér að neðan var tekin af Stóra-Kóngsfelli í gærkvöld. Fleiri myndir má sjá hér.

IMG_7889


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband