Vi taler dansk í Danmark

Íslensk börn læra dönsku í grunnskóla, þau sem halda áfram í framhaldsskóla eru skyldug til að bæta við þá kunnáttu sína. Það er nokkuð víst að margir líta á þetta nám sem hina mestu kvöl og pínu og algengt er að danska sé á lista yfir óvinsælustu námsgreinarnar.

Dóttir mín (Rán) 16 ára sem í vor lauk grunnskólanámi er ein þessara nema, danska hefur lengst af verið hennar stærsti höfuðverkur og leit hún á þessa námsgrein sem óyfirstíganlega hindrun í sínu námi. Þrátt fyrir það stóð hún sig með mikilli prýði í prófum í vor, sjálfri sér, foreldrum og kennara til mikillar undrunar og gleði.

Um seinustu helgi fór fjölskyldan til Kaupmannahafnar, frábært tækifæri til að nota þessa þekkingu. Við fórum í búðir, tilgangurinn var m.a. að finna gallabuxur. Í dönskukennslubókunum sem notaðar eru í íslenskum grunnskólum eru gallabuxur kallaðar "cowboybukser". Hér kemur samtal dóttur minnar við danska afgreiðslustúlku í Zöru á Strikinu:

Afgreiðslustúlkan: "Kan jeg hjælpe dig?"

Rán: "Ja, har du cowboybukser?"

Afgreiðslustúlkan horfði með miklum spurnarsvip á Rán, hún velti greinilega fyrir sér hvað hún væri að meina, kúrekabuxur voru svo sannarlega ekki hluti af tískuvarningi þessa árs. Svipur afgreiðslustúlkunnar var óborganlegur, "þú ættir frekar að fara í reiðvöruverslun" var svona það sem lesa mátti af svipnum.

"Mener du jeans?" spurði afgreiðslustúlkan eftir langa mæðu.

Framburður á orðinu jeans var verulega danskur meira svona "jens" og Rán gat ómögulega áttað sig á hvað stúlkan var að segja. Ég stóð álengdar og Rán kallaði mig til hjálpar, "hún var að meina "djíns" útskýrði ég.

Þar með var allt orðið ljóst. Þrátt fyrir að íslenskar dönskukennslubækur kenni íslenskur grunnskólanemum að gallabuxur nefnist cowboybukser á dönsku þá er það kunnátta sem gagnast nákvæmlega ekki neitt í tískubúðum á Strikinu.

Gallabuxur á dönsku er JEANS.

Nú vitum við það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Getur verið að dóttir þín hafi verið með gamla kennslubók?

Rósa Harðardóttir, 25.6.2008 kl. 22:49

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Bókinni hefur verið skilað til skólans, og ég man ómögulega hvað hún heitir, hún er silfurgrá.

Ég sagði hins vegar vinnufélaga mínum (hálfdönsk, alin upp á Íslandi en tók sitt háskólanám í Kaupmannahöfn) þessa sögu og kannaðist hún við að hafa haldið að gallabuxur væru cowboybukser á dönsku, það var henni kennt í skólanum. Þegar hún svo flutti til Danmörku þá áttaði hún sig á þessari villu í kennslunni.

Kristjana Bjarnadóttir, 25.6.2008 kl. 22:57

3 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Man eftir orðinu "cowboybukser" sjálfur. Líka eftir "datamaskine". Er víst kallað jens og komputer í dag.  Annars er það góð "regla" að dönskugera ensk orð ef maður er ekki viss. Virkar þó ekki alltaf, man eitt sinn eftir því að eiga langt samtal við Dana um "eleksjonen i Danmark"! Hann leiðrétti það aldrei, ég fattaði að orðið var "valget" í miðju samtalinu. 

Guðmundur Auðunsson, 26.6.2008 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband