21.1.2008 | 18:33
Erfðabreytlileiki í norskum og íslenskum kúm
Fyrir nokkrum árum var mikil umræða meðal bænda um að fá inn fósturvísa frá Noregi í þeim tilgangi að fá inn í landið norskar kýr. Þær munu vera mun stærri en þær íslensku og gefa meiri afurðir per kú. Með þessu vildu fylgjendur norsku kúnna ná fram meiri hagkvæmni í rekstri kúabúa.
Umræðan manna á meðal og í fjölmiðlum fannst mér alltaf einkennast af tilfinningasemi og gat ég ómögulega áttað mig á rökum gegn þessum norsku kúm. Helst heyrðist að þá yrðu allar kýr rauðskjöldóttar í stað litrófsins sem einkennir íslensku kýrnar. Einnig heyrðist kenning um að mjólkin úr íslensku kúnum verndaði gegn sykursýki og vitnað til einhverrar fylgni sem ég lagði lítinn trúnað á.
Norsku kýrnar eru mun stærri en þær íslensku og íslensk fjós hönnuð með þær íslensku í huga. Því þyrftu bændur að leggja út í mikinn kostnað við breytingu á fjósum ef farið yrði út í að skipta um kúakyn. Þetta voru reyndar helstu rökin gegn þeim norsku fyrir utan þau tilfinningalegu sem ég rakti hér fyrr.
Nú um helgina átti ég spjall við systir mína og kúabóndann Laufey á Stakkhamri. Það var mjög svo fróðlegt og þar kom ýmislegt fram sem mér var ekki kunnugt um.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að íslenskar kýr hafa meiri erfðabreytileika en norska kúakynið og jafnvel einnig það svartskjöldótta sem ríkjandi er í Evrópu. Hvernig má þetta vera? Íslensku kýrnar eru fáar og því skyldi maður ætla að fjöldi kúa í öðrum stofnum hefði til að bera mun meiri breytileika en þær íslensku. Svarið liggur í því að sömu nautin hafa verið notuð aftur og aftur í Noregi og síðan jafnvel synir þeirra og síðan koll af kolli. Með því nærðu fram mikilli einsleitni, í einkennum (t.d. afurðum) og þar með er breytileikinn meðal einstaklinganna þurrkaður út. Á Íslandi hefur þetta ekki verið gert heldur hefur einungis mátt nota hvert naut ákveðið oft og síðan ekki meir. Þetta skýrir þann mikla breytileika sem finnst meðal íslenskra kúa, litbrigði, júgurgerð, bygging o.s.frv.
Hverju erum við bættari með mikinn breytileika? Jú það gefur meiri möguleika til meiri ræktunar og framþróunar, án breytileika er ekki hægt að rækta stofninn áfram. Ef einsleitni stofns er mikil er einnig mikil hætta á að upp komi gallar, í líkamsbyggingu, erfðasjúkdómar o.fl. Eftir að búið er að þurrka breytileikann út er erfitt að snúa við og rækta svona galla í burtu, það er takmarkað til af "góðum" genum til að bæta fyrir skaðann. Norska rauðskjöldótta kynið sem og evrópska svartskjöldótta hafa verið ræktuð mjög hratt og því alls ekki útséð um hvaða gallar kunna að leynast í því, gallar sem erfitt gæti verið að rækta úr því. Vegna hins mikla breytileika sem enn er meðal íslensku kúnna leynast miklir ræktunarmöguleikar, möguleikar til ræktunar á eiginleikum sem mögulega hafa hingað til ekki þótt skipta miklu máli.
Meðal íslenskra bænda eru enn uppi þær hugmyndir að æskilegt sé að taka inn norskar kýr. Vegna smæðar íslenska kúastofnsins er ekki raunhæft að vera með tvö aðskilin kyn og ef ákvörðun yrði tekin um að taka inn norskar kýr væri líklegt að íslenski stofninn hyrfi sem slíkur.
Það að íslenskar kýr hefðu þennan mikla breytileika sem væri dýrmætur frá ræktunarlegu sjónarhorni eru fyrstu vitrænu og faglegu rökin sem ég hef heyrt gegn því að taka upp norska kynið fyrir utan kostnaðinn við breytingu fjósa.
Í erfðafræðilegu tilliti er einsleitni stofna mjög varasöm, það er ekki að ástæðulausu sem systkinum er bannað að eigast og systkinabarnagiftingar taldar varasamar. Þessi umræddi breytileiki íslensku kúnna er því mun dýrmætari en margir gera sér grein fyrir. Hver sem ástæðan var fyrir þeirri ákvörðun að nota hvert naut einungis takmarkað, þá var það ótrúlega vitræn ákvörðun. Hver veit hvaða eiginleiki kúnna telst eftirsóknarverðastur eftir 10 ár? Það er ekki endilega magn mjólkur sem fæst frá hverjum grip sem endilega er eftirsóknarverðastur, efnainnihald skiptir máli, júgurlag, mjaltahraði og síðast en ekki síst skiptir máli hversu mikið kýrnar mjólka miðað við hvernig þær eru fóðraðar. Með hækkandi áburðarverði skiptir jafnvel meira máli að þær geti mjólkað vel ef þær eru að miklu leyti fóðraðar á gróffóðri í stað kjarnfóðurs.
Þessa vikuna er Laufey systir mín í Noregi að skoða norskar kýr, ásamt nokkrum íslensku bændum sem ólmir vilja flytja þær inn. Það verður spennandi að frétta hvers hún hefur orðið vísari í þeirri för.
Laufey heldur úti bloggsíðu og þar er hægt að fylgjast með búrekstrinum á Stakkhamri.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Loksins eitthvad um bubot a sidunni thinni!! A erfdarannsoknathingi heyrdi eg umraedu sem fjalladi um samvinnu i erfdarannsoknum, theim thotti otharfi ad gera greinarmun milli islendinga og nordmanna - eini munurinn vaeri ad islendingar vaeru their nordmenn sem kunnu ad sigla - annars vaeri breytileikinn sa sami... Eru Islensku kyrnar syndar? (eg aetti ad vita thad En thaer norsku? Getur kannski komid ser vel thegar heimskautin bradna Gaman ad fylgjast med ther! Signy
Signy (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 16:54
sæl frænka
Ég er náttúrulega ekki venjulegur sauður, tengdi ekki þetta umræðuefni við Búbótarnafnið, það er nefnilega þannig tilkomið að kýr sem ég eignaði mér sem krakki bar þetta nafn, mikil sómakýr og hefur þetta nafn alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Takk fyrir að benda mér á tenginguna .
Kristjana Bjarnadóttir, 22.1.2008 kl. 17:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.