Færsluflokkur: Ferðalög
4.3.2008 | 19:10
Gagnkvæmar myndir
Nýlega birti ég myndir úr göngu sem ég fór sl. vor á Hrútfellstinda. Í þessari ferð hittum við Þorvald Þórsson sem vann það frækilega afrek á seinasta ári að ganga á íslenska tinda yfir 1400m. Þegar ég var að fletta þessum myndum hjá mér mundi ég að ég hafði alltaf ætlað að grafa upp netfang Þorvaldar og senda honum mynd sem ég tók af honum og félaga hans. Þetta gerði ég loksins nú nýlega. Þorvaldur var svo vinalegur að hann sendi mér til baka frábærar myndir af okkur í sömu ferð. Það sem gerir þessar myndir einstaklega skemmtilegar er að þær eru teknar á sama augnabliki.
Þessa mynd tók Þorvaldur af félaga sínum þegar hann er rétt að komast upp á einn Hrútfjallstindinn. Þessi tindur er líklega næsthæstur Hrútfjallstinda en minn gönguhópur sleppti því að ganga á hann. Ef vel er að gáð sést gönguhópur í halarófu klifra hnjúk bak við manninn, aðeins til vinstri. Það er hópurinn minn.
Þessa mynd tók ég á sama augnabliki og Þorvaldur tók sína mynd. Það er ég viss um þar sem það sést á þessari mynd hvar seinni maðurinn er við það að komast upp brúnina.
Þessa mynd tók Þorvaldur og hér sést hópurinn minn betur en á fyrstu myndinni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2008 | 19:13
Úr myndaalbúminu - Hrútfjallstindar
Hrútfjallstindar eru í sunnanverðum Vatnajökli, rétt ofan við Svínafell. Þetta eru 3 megin tindar og er sá hæsti tæpir 1900 m. Í apríllok á seinasta ári fór ég með nokkrum félögum mínum úr Trimmklúbbi Seltjarnarness í göngu á þessa tinda. Í svona ferðum rennir maður nokkuð blint í sjóinn með veður og skyggni. Þegar við lögðum af stað þennan morgun var þoka langt niður í miðjar hlíðar en síðan birti heldur betur upp og uppskárum við að þessu sinni ríkulega laun erfiðisins. Mig langar að deila uppskerunni með ykkur.
Þessi mynd er tekin úr Skaftafelli daginn eftir en þarna sjást tindarnir nokkuð vel. Fyrir miðri mynd aðeins til hægri sjást 2 gil en á milli þeirra er uppgönguleið á hrygginn sem tekur við þar fyrir ofan.
Þarna erum við komin upp á hrygginn, sólin farin að skína og lífið tóm hamingja. Nú tekur við erfiður partur af göngunni en það er að við þurftum að lækka okkur aftur töluvert og hækka síðan aftur. Það þýðir að heildarhækkun í göngunni varð mun meiri en þessir 1900m sem hæsti tindurinn er. Þess vegna er þessi ganga jafnvel erfiðari en Hvannadalshnjúkur.
Þetta er einn af tindunum, líklega sá næsthæsti. Ef vel er að gáð þá sjáið þið menn á toppnum. Það er Þorvaldur Þórsson sem vann það frækilega afrek á seinasta ári að ganga á alla íslenska tinda yfir 1400m, þeir reyndust vera í kringum 100. Þorvaldur var þarna á ferð sama dag og við. Til vinstri við tindinn sést sjálfur Hvannadalshnjúkur.
Hér sjást þeir kappar betur. Þorvaldur var þarna með 2 öðrum göngumönnum því í svona göngu á jökli er óðs manns æði að vera einn á ferð, menn verða að vera í línu því þarna eru sprungur. Við vorum að sjálfsögðu í línu og einn fór í tvígang ofan í sprungu.
Hér er kerlingin með frumburðinn á toppnum.
Nú erum við farin að huga að næstu ferð. Að þessu sinni stefnum við á Þverártindsegg í Kálfafellsdal í Suðursveit.
Til að komast það verð ég að stunda ræktina, enga leti. Ég skal alveg viðurkenna að ef ég hefði ekki eitthvað svona til að stefna að myndi ég ekki halda mér eins vel við efnið. Þetta er liður í peppinu, skoða myndir og láta sig langa aftur, nógu mikið til að puða.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2008 | 20:50
Miðaldra með skaðað skott
Ég verð 44 ára eftir rúman mánuð, það er ekkert leyndarmál. Meðallífsslíkur íslenskra kvenna eru einhver rúm 80 ár. Flokkast þessi aldur minn því ekki undir að vera miðaldra?
Ég vil leggja mjög svo jákvæða túlkun í þetta. Þetta hlýtur að þýða að ég sé á miðjum aldri, jafnframt að ég sé á eins konar hátindi, geti nánast allt .
Því var það í skíðaferð fjölskyldunnar nú um jól og áramót að ég fékk þá hugmynd að ég gæti rennt mér á bretti. Þarna sigldi kerlingin um barnabrekkuna á eldrauðu Billabong bretti, með einkakennara. Það var að sjálfsögðu einkasonurinn sem hafði fulla trú á að ég gæti þetta en sýndi mér heldur enga miskunn þar sem ég kútveltist með þetta drasl bundið um lappirnar.
Svo jókst mér kjarkur og ég fór hraðar ........ og datt........ á afturendann. Þvílíkur sársauki læddist um afturendann. Sonurinn var hughreystandi: "Stattu bara strax upp og haltu áfram, annars gætirðu bara orðið hrædd". Það gat ég náttúrulega ekki hugsað mér. Upp stóð ég og hélt náminu samviskusamlega áfram. Hugsaði ekkert um afturendann, hafði um mikilvægari verkefni að hugsa.
Svo bara gleymdi ég þessu. Þangað til á leiðinni heim. Fimm klukkutíma seta í flugvél (eftir 4 klst rútuferð) var meira en botninn þoldi. Líklega hef ég skaddað á mér rófubeinið.
Nú er einn og hálfur mánuður liðinn, ég þoli enn illa setur á óbólstruðum stólum.
Ég er enn að að drepast í skottinu.
10.1.2008 | 22:31
Hugleiðing um feminisma og litríkt pasta
Í tilefni af pastasögunni hér á undan vek ég athygli á því hversu fyndið okkur mæðgum þótti þetta umrædda pasta. Karlpeningurinn í fjölskyldunni var alveg laus við að finnast þetta sniðugt.
Hvað hefðum við sagt ef umrætt pasta hefði verið eftirlíking af líffæri kvenna?
Í ítölsku kjörbúðinni var slíkt pasta ófáanlegt (ég leitaði!).
Hverjum hefði þótt það sniðugt?
Ég sé fyrir mér vandlætingu feminista og upphrópanir um hversu ósmekklegt það væri.
Finnst karlmönnum þetta pasta ósmekklegt? Eða bara ekkert fyndið?
Í hverju felst þessi munur á afstöðu okkar til litríks pasta?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.1.2008 | 23:02
Pasta Basta
Eins og fram hefur komið þá brá fjölskyldan sér í skíðaferð. Slíkar ferðir eru sko alls ekki ókeypis frekar en önnur ferðalög. Það er þess virði að setja sér stefnu og ákveða hversu miklu af heimilistekjunum maður er viljugur til að eyða í hverja ferð, fara sjaldan og gera það grand, eða fara oft og lifa eins og nirfill.
Ég hef valið að fara seinni leiðina, þykir mörgum nirfilsskapurinn stundum ganga fulllangt, þar sem fjölskyldan er nánast komin með pastaeitrun eftir 12 daga dvöl á Ítalíu. Við leigðum okkur íbúð með eldunaraðstöðu og eftir hvern skíðadag var stormað í búðina, keypt pasta, það soðið í potti með kúptum botni, einhver sósa mölluð og svo gleypti hungrað liðið þetta í sig.
Í upphafi ákváðum við að fara tvisvar út að borða í ferðinni, á jóladag og á gamlársdag. Jóladagsveitingahúsið var vandlega valið, matseðill skoðaður og verðlag kannað. Þetta leit út fyrir að vera fínt en ekkert galið verð. Við pöntuðum borð með fyrirvara og mættum svo á tilsettum tíma. Fljótlega áttuðum við okkur á að þetta var nú heldur annað en til stóð. Níu rétta matseðill á línuna, allt fínt og huggulegt. Heldur brá nú fyrirvinnum fjölskyldunnar þegar reikningurinn kom, ríflega tvöfalt það sem fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Plastinu var rennt og það hitnaði vel.
Á leiðinni heim byrjaði Rán að flissa að þessu en húmor fyrirvinnanna leyfði ekki svoleiðis alveg strax. "Viltu aðeins bíða með þessa fimmaurabrandara svona rétt á meðan við erum að jafna okkur á þessu", var svarið.
"Heyrðu, við förum bara ekkert út að borða á Gamlárskvöld" sagði daman þá, málið leyst. Þar með var jafnvægi í heimilisbókhaldinu náð, allir glaðir. Við skelltum öll upp úr. "Svo höfum við bara marglitt pasta í matinn", bætti hún við. Auðvitað var pasta í matinn á Gamlárskvöld á Ítalíu, hvað annað.
Úrvalið af marglitu pasta var fjölbreytt. Ég var búin að lofa þeim saumaklúbbsvinkonum mínum myndum af því og hér koma þær:
Þetta var pastað sem við mæðgurnar völdum. Einhverra hluta vegna hafði karlpeningurinn ekki eins mikinn húmor fyrir þessu. Þetta fékkst því ekki samþykkt sem áramótamatur.
Við fundum pasta sem var eins og hattar og það var valið og borðað og því ekki myndað. Til viðbótar þá var þessu pasta bætt við. Gallinn við hattana var að þeir voru óvart ofsoðnir og láku í sundur og því ekki eins skemmtilegir soðnir og í pakkanum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2007 | 20:50
Fundið fé
Ég var búin að lofa smalasögum, ætla að standa við það. Reyndar eru það ekki síst myndirnar sem ég ætlaði að láta tala sínu máli, en hefur ekki tekist að setja inn, held áfram að reyna. Ég fór semsagt á fjall að leita fjár. Ekki í þeirri merkingu sem algengast er að við eltumst við. Ég leitaði lifandi jarmandi fjár. Fyrir ca 100 árum var þetta það fé sem lífið snerist um, nú hefur fjármálráðherra um annars konar fé að sýsla.
Smalamennskan hófst nyrst við Hraunsfjarðarvatn, mitt verkefni voru hlíðar Vatnsmúlans, framhjá Vatnafelli, vestan við Baulárvallavatn, yfir Urðarmúla, Hofstaðaháls, og niður að Hofstöðum, þrammað með þeim krókum sem blessuðum rollunum þóknaðist auk þess sem nauðsynlegt var að hlaupa upp á hvern hól sem í augsýn var til að sjá hvort einhverjar rollur leyndust þar á bak við. Þetta voru nú að mestu tíðindalausar smalamennskur, engar kolvitlausar skjátur sem létu hlaupa eftir sér upp um allar hlíðar. Nokkrar rollur sem voru í Vatnsmúlanum áttu líklega heima í Helgafellssveit og voru ekki alveg sáttar við að vera reknar í suðurátt. Dóttir mín 15 ára og vinkona hennar voru með og fengu þær það verkefni að rölta á eftir þeim. Ég hélt þetta yrði mjög svo huggulegt verkefni fyrir þær, en skjáturnar létu alveg finna fyrir sér og sóttu töluvert í vestur og máttu stelpurnar hafa sig allar við að missa þær ekki upp í Elliðahamarinn. Það eru þessi óvæntu hlíðahlaup sem gefa þessu skemmtigildið. Ég hef stundum kallað smalamennsku minn uppáhaldsratleik þar sem maður fær allt í senn; samvinnu (mikilvægt að vita hvar næsti maður er og hvað hann er að gera), not fyrir athyglisgáfu (eru rollur á bakvið hólinn), hlaup (elta rollurnar) og spennu (skyldi maður komast fyrir þær).
Það er sannarlega andlega endurnærandi að taka þátt í verkefni eins og smalamennsku, eiginlega eru þetta forréttind að fá að vera með. Maður horfir á landið með allt öðrum augum, í landslaginu leynast allt í einu kindur sem þarf að hóa á og ýta við heim á leið. Landið verður lifandi og maður tengist því á allt annan hátt, svo er það rollusálfræðin, það er alveg heil fræðigrein að reyna að átta sig á því hvað þær eru að hugsa. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá unglingsstelpurnar takast á við þetta. Það er ómetanlegt fyrir nútíma unglina úr borg að vera þátttakendur í mikilvægu verkefni og að þeirra framlag skipti virkilega máli, því miður hafa börn og unglingar í dag alltof fá tækifæri til þess. Það voru lúnir en ánægðir smalar sem að endingu þáðu veitingar af veisluborði á Hofstöðum að smalamennskum loknum. Þetta var reglulega ánægjulegur dagur.
Ferðalög | Breytt 28.9.2007 kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.9.2007 | 23:22
Smalir
Það er erfitt að vera nýbúi. Nýbúar hafa ekki tileinkað sér orðaforða frumbyggjanna, það tekur oft langan tíma. Það þarf ekki að vera útlendingur til að kallast nýbúi, það er hægt að vera nýbúi í eigin landi, þá á ég við ef maður sest að í öðru menningarsamfélagi en maður er alinn upp í. Ég er nýbúi á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að hafa búið hér meira eða minna í 25 ár, fyrst skildi ég ekki tungumálið, hvernig átti að hegða sér eða yfirhöfuð nokkuð. Sama gildir um þá sem flytja í sveit og hafa ekki búið þar áður. Þeir eru nýbúar. Einn nýbúinn í Miklaholtshreppi sagði einu sinni: "Það eru byrjaðar smalir".
Í dag tók ég þátt í þessu fyrirbrigði "smalir" (kann ekki að begja þetta orð). Mig langar mikið að skrifa um þetta en mig skortir tíma. Ég er nefnilega að fara til Sotkkholms í fyrramálið og á alveg eftir að pakka og allt. Er smöluð upp að öxlum en skemmti mér vel. Nenni ómögulega að fara í þessa ferð, það eina bjarta við ferðina er að ég gisti hjá uppáhaldsfrænku minni sem býr í Stokkholmi. Þetta er vinnuferð og þeir sem halda að slíkar ferðir sé eitthvað sem flokkast megi undir fríðindi, þeir hafa misskilið eitthvað.
Ég lofa semsagt smalirasögum þegar ég kem heim aftur. Ekki veit ég nú hversu stór lesendahópur minn er en ég vildi endilega láta vita af fjarveru minni svo þið haldi ekki að ég sé búin að missa áhugann á þessu bloggi. Það er langt í það, ég á eftir að ausa úr miklum skálum skoðanna áður en ég hætti þessu. Ég lofa líka nokkrum sögum inn á milli.
Ferðalög | Breytt 28.9.2007 kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.9.2007 | 19:02
Ferðalag
Í sumar sem leið fór ég í 6 daga gönguferð. Tjald og allar vistir á bakinu, maður verður nú að sýna smáhetjuskap. Svæðið var milli Skaftár og Hverfisfljóts, Laki og Lakagígar voru miðpunkturinn.
Í svona göngum kemur stundum fyrir að skrokkurinn minnir á sig, einn morguninn vaknaði ég með skelfilegan hausverk. Ég fálmaði í skraninu mínu eftir dópi og við tjaldskörina vissi ég af vatni í drykkjarjógúrtflösku til að skola dópinu niður. Ég teygði mig eftir flöskunni og tók vænan slurk................... þetta reyndist vera flaskan með strohinu! Mér snarskánaði höfuðverkurinn og var í fínu gönguformi þann daginn.
Vaknaði lamin lurkum
litaðist dópi þá eftir
með áfengi slokraði í slurkum
slæmskan mig lengur ei heftir
Úrgangsmál göngufólks var aðeins í fréttum í sumar. Gönguhópurinn minn var lengi lítt til fyrirmyndar í þeim efnum. Ég ætla ekki að fjalla frekar um það tímabil. Nú orðið er einn félaginn skipaður "kammermeistari" í upphafi göngu. Í því felst að bera létta skóflu og finna hentugan stað fyrir holu á áfangastöðum. Holan verður að vera í hvarfi frá tjaldbúðum og síðan er göngustaf stillt upp nálægt og hengir maður húfuna sína á stafinn þegar maður bregður sér í holuna til merkis um að hún sé upptekin. Eftir mikil afrek í holunni sáldrar maður sandi snyrtilega yfir.
Í holu vil ég hafa ró
helst þar ein vil vera
Skán með skóflu yfir dró
skítinn langa og svera
Á 5. og 6. degi er ástand göngumanna sérstakt. Andlega hliðin oftast fín, allir ánægðir með afrekin, gott að vita að maður gat þetta. Líkamlega ástandið er líka þokkalegt, flestir komnir yfir allar harðsperrur, formið bara gott og flestir sofna strax og lagst er útaf eftir átök dagsins, stundum þó með hljóðum (óhljóðum). Göngufæðið er kraftmikið og einnig hjálpar hreyfingin til þannig að meltingin er yfirleitt mjög svo "eðlileg". Hins vegar er ekki mikið verið að pjattast með fataskipti og þvottur á skrokknum svona almennt bíður þess að koma til byggða.
Flæki ég feitum lokkum
freta og lífsins nýt
andfúl í súrum sokkum
sofna og mikið hrýtFerðalög | Breytt 29.9.2007 kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)