Færsluflokkur: Bloggar
4.9.2009 | 00:59
Almenn skuldaniðurfelling - hver borgar?
Gríðarleg skuldsetning íslenskra heimila er staðreynd. Háværar kröfur eru um niðurfellingu skulda. Það er ljóst að margar þessar skuldir verða aldrei greiddar og er niðurfelling sjálfgefin í slíkum tilvikum.
En hvað með hina sem geta mögulega greitt þessar skuldir?
Uppi hafa verið hugmyndir um almenna niðurfellingu skulda, eitt skuli yfir alla ganga. Ég hef áður hafnað þessum hugmyndum því í þeim felst niðurfelling á skuldum til fólks sem ekkert hefur með slíkt að gera, þ.e. fólks sem vel getur greitt af sínum skuldbindingum. Sjálf er ég í þeim hópi, fór mér hægt í góðærinu og tel takmörkuðum fjármunum okkar illa varið ef það á að gefa fólki eins og mér háar upphæðir.
Í dag birti Jón Steinsson feikigóða grein um þetta efni. Greinin er svo góð að ég hvet alla til að lesa hana hér.Í greininni kafskýtur hann þau rök sem færð hafa verið fyrir almennri niðurfærslu skulda:
Verstir eru þeir sem einbeita sér að því að skilja ekki þá grundvallarstaðreynd að ekki er unnt að eyða sömu krónunni oftar en einu sinni. Ef afslátturinn sem nýju bankarnir fengu af lánasöfnum gömlu bankanna er eytt í að fella niður skuldir þeirra sem geta greitt skuldir sínar, er ekki hægt að eyða honum aftur í að mæta óumflýjanlegum afföllunum af lánasöfnum bankanna.(Auk þess sem Íbúðalánasjóður fékk engan afslátt og lífeyrissjóðirnir ekki heldur.)
Næstverstir eru þeir sem bregða fyrir sér eins konar voodoo hagfræði. Í sinni upprunalegri mynd er voodoo hagfræði sú tilgáta að skattalækkanir auki tekjur ríkissjóðs þar sem þær hafa svo svakalega jákvæð áhrif á skattstofna ríkisins. Það hefur aftur og aftur sýnt sig að þessi tilgáta á ekki við rök að styðjast við aðstæður sem líkjast því sem við þekkjum á Íslandi.
Voodoo hagfræðin sem einkennt hefur umræðuna um skuldaniðurfellingu er í raun enn róttækari en sú upprunalega. Hún gengur út á það að skuldaniðurfelling til fólks sem annars gæti á endanum staðið í skilum muni hafa svo jákvæð áhrif á hagkerfið að hún borgi fyrir sig sjálf og meira en það. Þetta er því miður óskhyggja sem við megum ekki láta hlaupa með okkur í gönur.
Þeir sem hæst kalla á niðurfellingu skulda telja þetta mikið réttlætismál. Umræðuna um hver muni á endanum borga forðast þeir og telja annað hvort að þetta hafi svo jákvæð áhrif á hagkerfið að hún borgi sig sjálf, eða að þetta jafnist út á okkur öll. Skv. Jóni Steinssyni er þetta síst svona einfalt:
Einhver verður að taka á sig lækkun á raunverði húsnæðis og þá lífskjaraskerðingu sem felst í lækkun kaupmáttar. Annað hvort eru það þeir sem tóku lánin að svo miklu leyti sem þeir geta eða hinir sem tóku minni lán ef stjórnvöld ákveða að færa byrðina yfir á þá með almennri skuldaniðurfellingu. Aðrir kostir eru ekki í boði. Það er því miður engin töfralausn til sem blæs þessum vanda út af borðinu og gerir það að verkum að allt verður eins og það áður var.
Þeir sem taka hvað harðasta afstöðu með almennri skuldaniðurfellingu þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir eru í raun að berjast fyrir því að byrðin af hruninu verði með ákvörðun stjórnvalda færð til þeirra sem tóku minni lán. Skynsemi og sanngirni þess má draga í efa svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Kjarninn í því sem Jón segir er að með þessari leið erum við að færa til fjármuni frá tekjulágum almenningi (sem almennt tók lægri lán) til þeirra tekjuhærri sem fóru óvarlega og skuldsettu sig úr hófi fram í góðærinu. Grundvallaratriðið er því að þeir sem hafa greiðslugetu greiði eftir mætti. Laga verður innheimtu að greiðslugetu ef greiðslugetan er minni en afborganir eru í dag.
Það er hávær hópur sem kallar á almenna skuldaniðurfellingu. Það er einnig ljóst að stór en hljóður hópur, fór sér varlega í góðærinu, borgaði jafnvel niður lán. Kostnaður af niðurfellingunni mun lenda á þessu fólki sem og unga fólkinu sem er nú á leið út í lífið. Óhjákvæmilega mun ekki allt innheimtast en að velta meiru en nauðsynlegt er yfir á þennan hóp er óásættanlegt.
Þjóð sem hefur efni á að fella niður skuldir hjá fólki sem hefur greiðslugetu er ekki þjóð í fjárhagsvanda. Það er þjóð í afneitun.
Hversu heitt sem okkur langar og óskum, þá mun árið 2007 ekki koma aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.9.2009 | 22:02
Glæpir og fréttir
Ríkislögreglustjóri hefur áhyggjur af einkennisklæddum glæpamönnum í alþjóðlegum glæpaklíkum. Hann er upptekinn af afmarkaðri gerð einkennisbúnings, leðurklæddum vítisenglum.
Ég óttast allt annan hóp glæpamanna. Þessi hópur hefur líka einkennisbúning, sá búningur er þannig gerður að þeir geta fallið inn í hóp venjulegs fólks, þó eru þeir allir eins klæddir, jakkaföt og bindi.
Á meðan þjóðin var annað hvort áhyggjulaus í sumarfríi eða reif hár sitt og skegg yfir ESB eða ekki ESB var eignarhaldi Reykjanesbæjar í HS Orku laumað í hendur nánast gjaldþrota fyrirtæki, Geysir green energy.
Á meðan þjóðin náði vart andanum yfir Icesave samningnum var þessi sami hlutur áframseldur til erlends fyrirtækis, sama fyrirtæki er á sama tíma að kaupa hlut Orkuveitur Reykjavíkur í HS Orku.
Illugi Jökulsson játar á sig í dagað hafa nánast misst af þessum gerningi í fjölmiðlafárinu sem var vegna Icesave málsins. Ég hefði haldið að Illugi fylgdist þokkalega með þjóðmálum.
Ef hann hefur misst af fréttum undanfarið, hvað þá með meðaljóna þessa lands?
Þá komum við að stóru spurningunni: Hefur þetta verið almennilega í fréttum? Fram hefur komið að fulltrúar VG og Samfylkingarinnar telja sölusamninginn vægast sagt vafasaman. Útborgunin er rýr, vextir lágir, restin eftir sjö ár. Þar að auki mun styrking krónunnar sem allir vonast eftir rýra enn meir það sem fæst út úr þessu.
Samningurinn var birtur í dag og hef ég ekki þekkingu til að meta hann. En það vakti athygli mína að þetta mál taldist ekki fréttmætt að mati fréttastofu Stöðvar 2.
Segir það að mínu mati margt um fréttamat fjölmiðla hér á landi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2009 | 23:48
Að kyrkja lambið
Fréttir undanfarinna daga hafa svo sannarlega vakið mig upp af værum blundi. Auðlindasalan sem virðist vera að eiga sér stað á Suðurnesjunum fær hárin á mér til að rísa.
Enn á ný voru hugsanir mínar vaktar og ég ákvað að kynna mér betur hvað væri í gangi varðandi söluna á HS-Orku. Lára Hanna Einarsdóttir hefur safnað gríðarlega miklu efni og á síðunni hennar er hægt að finna mikið fréttaefni tengt þessum gerningi.
Ekki get ég sagt að ég hafi náð skilningi á hvað þar er í gangi en svo mikið er víst að grunsemdir mínar um að þar sé ekki allt sem sýnist, hafa vaknað. Greinin hér að neðan birtist í DV í byrjun júlí og vakti áhuga minn (smellið á myndina þar til læsileg stærð fæst):
Að ofurskuldsett fyrirtæki eins og GGE virðist vera, skuli hafa getað keypt hlut í HS Orku er mér óskiljanlegt.
Nokkru síðar birti DV umfjöllun um tengsl Geysis Green Energy og S-hópsins svonefnda. sjá hér:
Við lestur þessarar greinar kom upp í hugan frasinn "The usual suspects".
Í júlí framseldi Reykjanesbær hlut sinn í HS orku til GGE. Þá voru landsmenn með hugann við sitt sumarfrí og stjórnmálaumræðan snerist um ESB eða ekki ESB. Því hafa þessar fréttir vafalaust farið fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum.
Nú er ágúst. Allir með hugann við Icesave málið. Þá var lag til að framkvæma annan þátt í gerningnum, GGE selur 10% af hlut sínum í HS Orku til Magma energy. Á sama tíma gerir Magma energy tilboð í hlut HS Orku sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Samkeppnisyfirvöld hafa úrsurðað að OR sé ekki heimilt að eiga þennan hlut og er því OR tilneydd til að selja.
Og hvað skyldi svo þetta Magma energy vera? Látið er líta út fyrir að um sé að ræða erlent stórfyrirtæki í orkuiðnaði en reyndin er önnur. Þetta er nýlegt fyrirtæki sem enn hefur ekki skilað inn neinum tekjum að því mér skilst. Kjörin sem fyrirtækið fer fram á í kaupunum er lítið borgað út, lágir vextir og restin eftir 7 ár.
Þetta á að heita erlent fjármagn inn í landið. Og forsvarsmenn í atvinnulífinu kætast, sbr framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sl. föstudag.
Vissulega vantar okkur erlent fjármagn inn í landið en það er bara svo að sumt í þessu lífi er ekki til sölu. Við gætum svo sannarlega selt:
- Börnin okkar í ánauð
- Konur erlendum auðmönnum blíðu sína
- Auðlindir
En ekkert af þessu er til sölu. Hversu illa sem við erum stödd.
Þegar ég horfi á merki HS-Orku finnst mér eins og verið sé að kyrkja Íslandslambið okkar.
Dæmi hver fyrir sig.
Fyrir þá sem vilja kynna sér meira af efni þessu tengt þá bendi ég sérstaklega á eftirfarandi:
Pistill Bjargar Evu Erlendsdóttur og linkar á eldri umfjallanir Láru Hönnu
Nýlega umfjöllun Láru Hönnu og samanklipptar fréttir úr ljósvakamiðlum
Svikamyllan á Suðurnesjum, Lára Hanna og grein Guðbrands Einarssonar í Víkurfréttum
http://icelandtalks.net/?p=643
http://ak72.blog.is/blog/ak72/entry/937113/ glæný og góð samantekt um helstu persónur og leikendur
Bloggar | Breytt 26.8.2009 kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2009 | 10:05
Hlaupahetjusaga
Ég minnist þess þegar ég var barn og unglingur hvað mér þótti merkilegt að geta hlaupið 5 og 10 km. Á frjálsíþróttamótum voru það bara örfáir sem lögðu þetta á sig og þóttu þeir miklar hetjur. Þeir hlupu þá hring eftir hring á íþróttavellinum og mér var óskiljanlegt hvernig þetta væri hægt.
Nú hef ég í nokkur ár stundað hlaup og finnst bara alls ekkert merkilegt að komast 5 og 10km. Það sem meira er, þetta er bara alls ekkert erfitt.
Í gær tók ég þátt í 10km hlaupinu. Reyndar var ég lengi vel í vafa um hvort ég ætlaði að taka þátt þar sem ég hef fundið lítilsháttar til í hnjám nú undanfarið. Kenndi ég göngum sumarsins um það. Stemningin í hlaupinu er hins vegar slík að ég ákvað að láta slag standa og taka þetta bara rólega.
Þar sem ég gerði ekki ráð fyrir neinum persónulegum afrekum nema þá í mesta lagi "personal werst", þá gerði ég allt eins og ekki á að gera fyrir hlaup:
- Hljóp á glænýjum skóm
- Fór í grillparty kvöldið áður og borðaði yfir mig en gleymdi að innbyrða vökva
- Fór mjög seint að sofa og vaknaði eldsnemma
- Gleymdi að fá mér kaffibolla um morguninn, en það er ávísun á hausverk og vanlíðan hjá mér.
Ég vaknaði illa sofin með stein í maganum. Ég var alls ekki búin að melta þau ósköp sem ég hafði látið ofan í mig kvöldið áður og var útbelgd. Ekki gæfulegt.
Þar sem ég var þarna mætt án þess að ætla mér nokkur afrek var ég fullkomlega afslöppuð. Oft áður hef ég verið að hugsa um tímamælinguna og því fylgir ákveðið stress. Ég staðsetti mig í rásmarki rétt aftan við þann sem hélt á blöðru merktri 60 sem þýddi að viðkomandi ætlaði að hlaupa þetta á 60 mín. Minn besti tími til þessa er 59:01 en í þetta sinn gerði ég ráð fyrir að vera í kringum 65 mín eða jafnvel lengur.
Eftir ræsingu hlaupsins mjakaðist þvagan hægt, slíkur var fjöldinn að hann fyllti Lækjargötuna og síðan Skothúsveginn. Þegar komið var á Suðurgötuna var mögulegt að hlaupa á sínum hraða.
Það hefur stórlega færst í aukana að fólk fari út á götur til að hvetja hlaupara. Á Lynghaganum er stemningin best, þar eru íbúar úti á tröppum með potta og pönnur og slær taktinn. Manni líður eins og alvöru hlaupahetju og brosir út fyrir eyru meðan maður hleypur þarna í gegn.
Víða annars staðar var fólk að hvetja og fann ég vel fyrir því hvað það jók kraftinn að finna hvatninguna.
Ég náði að fylgja 60mín blöðruhlauparanum lengi vel og var sjálf mjög hissa. Þegar ég kom á Norðurströndina á Seltjarnarnesi var ég þó að mestu búin að missa sjónar á honum. Ég fann hvergi til og fætur í fínu formi, þökk sé nýju skónum. Ég vissi að göngurnar í sumar hefði byggt upp líkamlegan styrk og því ætti ég alveg að geta haldið uppi góðum hraða.
Í svona hlaupi er auðvelt að detta niður í hraða og fara inn í þægindafasa. Því þurfti ég þarna svolítið að telja í mig ákveðni og það tókst. Ég fór út úr þægindahraðanum og jók í. Hélt þessu út að Mýrargötu og uppgötvaði þar að ég átti enn mikið eftir. Þar byrjaði ég að velja mér fórnarlömb, valdi hlaupara fyrir framan mig og einsetti mér að fara fram úr. Þannig tókst mér að fikra mig stöðugt framar.
Í Lækjargötunni er nauðsynlegt að taka góðan endasprett, þar var reyndar lítill afgangur eftir af mér, en hvatning áhorfenda jók samt þrekið og þegar ég heyrði kallað "Áfram Kristjana" og síðan "Helvítis fokking fokk", gaf ég allt í. Ég veit ekkert hver þetta var en tel að viðkomandi þekki mig nokkuð vel. Um nóttina hafði ég verið þungt hugsi yfir sölu auðlinda okkar á Suðurnesjum og ótrúlegum sögum sem ganga um mútur og spillingu því tengt sem og öðru í tengslum við bankahrunið. Alla leiðina hafði ég verið að velta þessu fyrir mér, þessi hvatning var því ótrúlega viðeigandi.
Í markið kom ég á 61 mín og 21 sek. Hef aðeins tvisvar náð betri tíma og einu sinni nákvæmlega þessum sama tíma. Ég tel þetta því bara nokkuð gott og er alsæl með árangurinn.
Kannski er þetta bara málið, hlaupa í nýjum skóm, borða yfir sig kvöldið áður og gleyma að drekka, já og síðast en ekki síst:
Helvítis fokking fokk............
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.8.2009 | 22:30
Þar sem er reykur þar er stundum............
Eitt af tómstundaverkum mínum er að sitja við tölvuna og gúggla. Uppáhaldsgúgglorðin mín eru "money laundering + iceland" eða + einhver nöfn á einstaklingum, bönkum eða fyrirtækjum sem tengjast bankahruninu. Einnig nota ég stundum "russian mafia +" sömu nöfn. Einnig hef ég dundað við þetta á dönsku. Eins og ég hef áður nefnt er niðurstaðan áhugaverð.
Ég tók mér gott sumarfrí frá þessu tómstundagamni en nú nýlega byrjaði ég aftur og viti menn............. mikið var um nýjar niðurstöður frá því í sumar.
Ég get ekki stillt mig um að setja hér inn link á það sem mér þótti áhugaverðast. Þess skal þó getið að það sem þarna birtist er í sögusagnastíl svo ekki sé meira sagt. Ég vil samt minna á að þar sem er reykur, þar er stundum..........
Njótið heil.
http://icelandtalks.heidi.1984.is/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.8.2009 | 21:58
Bjartur og þjóðin
Illugi Jökulsson skrifar ágætisumfjöllun um Bjart í Sumarhúsum í DV sl. föstudag. Mér varð ljóst þegar ég las þessa umfjöllun að minni mitt gagnvart þessari persónu Íslandssögunnar var farið að daprast. Því fór ég í bókahillurnar og veiddi karlinn fram.
Lesturinn stendur enn yfir, en þó er mér ljóst að gagnrýni Illuga á hvernig margir lofa sjálfstæðisbaráttu Bjarts á við rök að styðjast.
Ég væri ekki ánægð með að vera líkt við karlinn.
Ég væri ekki heldur ánægð með að tilheyra þjóð sem væri líkt við karlinn.
Því miður held ég samt að þvermóðska okkar þjóðar og rembingur eigi það samt skilið. Líkindin eru meiri en ég vildi.
Annars er líklega heillavænlegast að klára bókina áður en ég tjái mig meira.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.8.2009 | 19:45
Umræðan um íssparnaðinn
Ég hef lengi vel reynt að leiða hjá mér umræðuna um íssparnaðinn, talið þetta of lagatæknilega flókið til að ég treysti mér til þess að hafa skoðun.
En þar sem ég er skoðanafíkin með afbrigðum þá hefur mér mistekist þetta. Einkum og sérílagi vegna þess að það pirrar mig hversu mikið afvegaleidd umræðan er. Látið er í það skína að þetta snúist um hvort við viljum borga, viljum hafa samninginn svona eða hinsegin. Betur ef svo væri. Sannleikurinn er einfaldlega sá að við erum í níðþröngri stöðu.
Það sem mér finnst vanta í umræðuna er að velt sé upp hvaða valkosti við raunverulega höfum og kosti og galla hvers valkosts. Í mínum huga þá höfum við um þrjá kosti að velja:
- Við borgum ekki. Þeir sem velja þennan kost telja að okkur beri ekki lagaleg skylda til að greiða innistæðueigendum í Bretlandi og Hollandi. Því er þá helst borið við að það sé Tryggingasjóður innistæðueigenda sem beri að greiða þetta, hann sé tómur, málið dautt. Íslenska ríkið beri þarna enga ábyrgð. Ef Bretar og Hollendingar fallist ekki á þetta geti þeir bara farið í mál við okkur sem við ættum þá að vinna.
- Okkur ber að greiða þetta en núverandi samkomulag er óviðunandi, semjum upp á nýtt.Þeir sem velja þennan kost telja vænlegast að hafna ríkisábyrgð skv nú verandi samkomulagi en eigi að síður beri okkur skylda til að greiða þetta. Vænlegast sé að skipa nýja samninganefnd og senda til Breta og Hollendinga og freista þess að fá nýjan og betri samning.
- Okkur ber að greiða þetta skv. því samkomulagi sem búið er að undirrita. Mögulega sé þetta samkomulag sem þegar hafi verið undirritað, ekki algott. Hins vegar sé fórnarkostnaður af því að hafna því og reyna að semja upp á nýtt margfaldur miðað við mögulegan ávinning. Hafa beri í huga að allar aðgerðir til endurreisnar efnahagslífisins séu í frosti og bíði þar til þetta mál sé afgreitt. Þolinmæði umheimsins sé þrotinn og við séum fallin á tíma. Algerlega sé óvíst yfirhöfuð að við fengjum betri samning.
Þar sem öll umræða seinustu daga hefur verið byggð á tilfinningalegum nótum með grátandi Jón Sigurðsson í broddi fylkingar, hefur verið illgerlegt að átta sig á hver er í hvaða flokki. Meginhluti þingmanna stjórnarflokkanna eru þó í seinasta hópnum.
Málefnalega er styttra milli hóps 2 og 3 en hóps 1 og 2. Mér er ekki með nokkru móti mögulegt að átta mig á hvar stjórnarandstaðan stendur. Hér hafa fjölmiðlar enn og aftur fallið á prófinu og ekki spurt hvaða leið andstæðingar samkomulagsins sjái og hvernig eigi að ná því fram.
Það er ekki nóg að segja "nei ég vil ekki". Það verður líka að útskýra hvað á að koma í staðinn og hvernig eigi að ná því fram. Einnig þarf að rökstyðja það með hvaða hætti við ætlum að halda áfram uppbyggingu efnahagslífisins án aðstoðar annarra þjóða sem halda að sér höndum meðan þetta mál er á ís. Getum við beðið?
Þetta hefur vantað í umræðuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2009 | 21:31
Af því að útlenski maðurinn sagði það
Íslendingar eru alltaf sömu smásálirnar. Nú má helst skilja að samningsstaða okkar gagnvart Bretum og Hollendingum hafi skyndilega batnað. Af hverju? Jú af því að útlenskur maður sagði að rétt hefði verið að bíða með að semja þar til ljóst væri hvað eignir Landsbankans gæfu af sér.
Hver getur ekki tekið undir þetta?
Og hvað kemur í ljós, jú auðvitað það að íslenska samninganefndin reyndi að semja á þessum nótum.........en því var hafnað.
Og hvað hefur þá breyst?
Útlenskur maður sagði þetta við fjárlaganefnd Alþingis.
Einnig hefur leiðarahöfundur Financial Times talað máli okkar.
En hverju breytir það varðandi stöðu okkar gagnvart viðsemjendum okkar?
Engu að því ég best get séð.
Af umfjöllun undanfarinna daga mætti stundum halda að atkvæðagreiðsla Alþingis um ríkisábyrgð á Icesavesamningnum snúist um það hvort við skuldum þetta eða ekki, eða hvort við yfirhöfuð viljum borga. Að með einfaldri handauppréttingu á Alþingi sé hægt að ákveða hvort við þurfum að borga þetta.
Mikið vildi ég að svo væri. Þá er ég ansi hrædd um að Ögmundi yrði að ósk sinni og niðurstaðan yrði klárlega 63:0 og samningurinn yrði felldur og skuldirnar myndu niður falla.
Það er eins og það gleymist í umræðunni að við skuldum þetta jafnmikið hvort sem samningurinn verði felldur eða samþykktur.
Fáránleiki umfjöllunarinnar náði nýju hámarki í kvöld þegar fréttkona á Stöð 2 varpaði undrandi þeirri spurningu til Guðbjartar Hannessonar hvort hann vildi kannski sleppa við að borga Icesave. Hélt hún virkilega að þetta snerist um hvort okkur langaði að borga?
Að lokum vil ég svo benda á ágætan pistil Guðmundar Gunnarssonar frá því í gær og annan sem birtist í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.8.2009 | 23:06
Ormaveikt lamb
Skoðið myndina hér að neðan.
Hvað dettur ykkur í hug?
Ormaveikt lamb er það sem kemur helst upp í huga mér.
Næsta sem mér dettur í hug er: Það hefur einhver skaðað fallega landið okkar. Farið illa með það. Hverjum finnst það ekki þessa dagana?
Það sem myndin raunverulega sýnir eru helstu leiðir sem ég hef gengið. Það vantar reyndar inn nokkrar styttri leiðir, þær lengri eru þarna inni. Takmark mitt er ekki fallegt; gera lambið enn ormaveikara.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.8.2009 | 10:29
Að vera hinsegin - leyfið til að vera öðruvísi
Þessa dagana standa yfir hinsegin dagar og eru þeir tileinkaðir réttindabaráttu samkynhneigðra. Hápunkturinn er efalaust gleðigangan í miðbæ Reykjavíkur og eiga samkynhneigðir lof skilið fyrir það jákvæða yfirbragð sem þessari göngu hefur ávallt fylgt. Í stað reiði, sjálfsvorkunnar og kröfuspjalda er ásýndin gleði og hamingja yfir lífinu og þeirri einlægu ósk að fá að vera "eins og ég er".
Á fáum árum hefur samkynhneigðum á þennan hátt tekist með jákvæðni að breyta viðhorfi almennings til sín. Smám saman höfum við gefið leyfið til að vera hinsegin, leyfið til að vera öðruvísi en fjöldinn.
Seinustu mánuði hef ég oft hugsað um hve illa okkur Íslendingum hefur gengið að gefa þetta leyfi, tilhneigingin til að steypa alla í sama mót hefur verið mjög sterk. Börn sem skera sig úr fjöldanum hafa átt erfitt uppdráttar, jafnvel fullorðnir líka. Vafalaust gildir þetta enn um samkynhneigða en jákvæð baráttuaðferð þeirra hefur skilað þeim ákveðinni viðurkenningu og er það vel.
Ein er sú stofnun sem hefur átt erfitt með að viðurkenna samkynhneigð, það er kirkjan. Því miður er það einnig stofnun sem á erfitt með að viðurkenna margskonar fjölbreytileika, m.a. það að til er fólk sem aðhyllist enga trú.
Þessi stofnun reynir leynt og ljóst að sækja inn í skólastofnanir til að tryggja sér fylgi áður en gagnrýnin hugsun festir sig í sessi hjá barninu. Því miður spila margir kennarar með í þessari sókn.
Fyrir um ári síðan fékk dóttir mín eftirfarandi athugasemd frá kennara í grunnskóla:
"Það trúa allir á eitthvað".
Þessi athugasemd er jafnröng og eftirfarandi athugasemd:
"Allir strákar verða skotnir í stelpum og allar stelpur verða skotnar í strákum".
Í báðum þessum fullyrðingum er fjölbreytileika hafnað. Í gær var okkur svo sannarlega sýnt fram á hversu röng seinni athugasemdin er og ég held að við séum smám saman að átta okkur á þeirri staðreynd.
Spurningin sem ég hef velt fyrir mér er hins vegar: Höfum við almennt áttað okkur á því hversu röng fyrri athugasemdin er?
Samkynhneigðir eiga hrós skilið fyrir hversu vel þeim hefur tekist að sýna okkur fram á fjölbreytileika mannlífsins. Það er okkar að víkka hugann og viðurkenna þennan fjölbreytileika á fleiri sviðum, gefa leyfið til að vera hinsegin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)