Almenn skuldaniðurfelling - hver borgar?

Gríðarleg skuldsetning íslenskra heimila er staðreynd. Háværar kröfur eru um niðurfellingu skulda. Það er ljóst að margar þessar skuldir verða aldrei greiddar og er niðurfelling sjálfgefin í slíkum tilvikum.

En hvað með hina sem geta mögulega greitt þessar skuldir?

Uppi hafa verið hugmyndir um almenna niðurfellingu skulda, eitt skuli yfir alla ganga. Ég hef áður hafnað þessum hugmyndum því í þeim felst niðurfelling á skuldum til fólks sem ekkert hefur með slíkt að gera, þ.e. fólks sem vel getur greitt af sínum skuldbindingum. Sjálf er ég í þeim hópi, fór mér hægt í góðærinu og tel takmörkuðum fjármunum okkar illa varið ef það á að gefa fólki eins og mér háar upphæðir.

Í dag birti Jón Steinsson feikigóða grein um þetta efni. Greinin er svo góð að ég hvet alla til að lesa hana hér.

Í greininni kafskýtur hann þau rök sem færð hafa verið fyrir almennri niðurfærslu skulda:

Verstir eru þeir sem einbeita sér að því að skilja ekki þá grundvallarstaðreynd að ekki er unnt að eyða sömu krónunni oftar en einu sinni. Ef „afslátturinn“ sem nýju bankarnir fengu af lánasöfnum gömlu bankanna er eytt í að fella niður skuldir þeirra sem geta greitt skuldir sínar, er ekki hægt að eyða honum aftur í að mæta óumflýjanlegum afföllunum af lánasöfnum bankanna.(Auk þess sem Íbúðalánasjóður fékk engan afslátt og lífeyrissjóðirnir ekki heldur.)

Næstverstir eru þeir sem bregða fyrir sér eins konar voodoo hagfræði. Í sinni upprunalegri mynd er voodoo hagfræði sú tilgáta að skattalækkanir auki tekjur ríkissjóðs þar sem þær hafa svo svakalega jákvæð áhrif á skattstofna ríkisins. Það hefur aftur og aftur sýnt sig að þessi tilgáta á ekki við rök að styðjast við aðstæður sem líkjast því sem við þekkjum á Íslandi.

Voodoo hagfræðin sem einkennt hefur umræðuna um skuldaniðurfellingu er í raun enn róttækari en sú upprunalega. Hún gengur út á það að skuldaniðurfelling til fólks sem annars gæti á endanum staðið í skilum muni hafa svo jákvæð áhrif á hagkerfið að hún borgi fyrir sig sjálf og meira en það. Þetta er því miður óskhyggja sem við megum ekki láta hlaupa með okkur í gönur.

Þeir sem hæst kalla á niðurfellingu skulda telja þetta mikið réttlætismál. Umræðuna um hver muni á endanum borga forðast þeir og telja annað hvort að þetta hafi svo jákvæð áhrif á hagkerfið að hún borgi sig sjálf, eða að þetta jafnist út á okkur öll. Skv. Jóni Steinssyni er þetta síst svona einfalt:

Einhver verður að taka á sig lækkun á raunverði húsnæðis og þá lífskjaraskerðingu sem felst í lækkun kaupmáttar. Annað hvort eru það þeir sem tóku lánin að svo miklu leyti sem þeir geta eða hinir sem tóku minni lán ef stjórnvöld ákveða að færa byrðina yfir á þá með almennri skuldaniðurfellingu. Aðrir kostir eru ekki í boði. Það er því miður engin töfralausn til sem blæs þessum vanda út af borðinu og gerir það að verkum að allt verður eins og það áður var.

Þeir sem taka hvað harðasta afstöðu með almennri skuldaniðurfellingu þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir eru í raun að berjast fyrir því að byrðin af hruninu verði með ákvörðun stjórnvalda færð til þeirra sem tóku minni lán. Skynsemi og sanngirni þess má draga í efa svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Kjarninn í því sem Jón segir er að með þessari leið erum við að færa til fjármuni frá tekjulágum almenningi (sem almennt tók lægri lán) til þeirra tekjuhærri sem fóru óvarlega og skuldsettu sig úr hófi fram í góðærinu. Grundvallaratriðið er því að þeir sem hafa greiðslugetu greiði eftir mætti. Laga verður innheimtu að greiðslugetu ef greiðslugetan er minni en afborganir eru í dag.

Það er hávær hópur sem kallar á almenna skuldaniðurfellingu. Það er einnig ljóst að stór en hljóður hópur, fór sér varlega í góðærinu, borgaði jafnvel niður lán. Kostnaður af niðurfellingunni mun lenda á þessu fólki sem og unga fólkinu sem er nú á leið út í lífið. Óhjákvæmilega mun ekki allt innheimtast en að velta meiru en nauðsynlegt er yfir á þennan hóp er óásættanlegt.

Þjóð sem hefur efni á að fella niður skuldir hjá fólki sem hefur greiðslugetu er ekki þjóð í fjárhagsvanda. Það er þjóð í afneitun.

Hversu heitt sem okkur langar og óskum, þá mun árið 2007 ekki koma aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæl.

Eru menn ekki að vísa í að stór hluti þeirra skulda sem nýju bankarnir tóku yfir frá hinum gömlu voru tekin á hrakvirði margar hverjar. Þær eru samt rukkaðar in full þrátt fyrir það hjá nýju bönkunum, en kröfuhafar gömlu gjaldþrota bankanna hafa afskrifað mismuninn sem glatað fé. Þarna er ákveðið svigrúm vilja menn meina til að færa niður skuldir og nota meðaltalstölu sem kostar bankakerfið ekki krónu „só tú spík“ þar sem milljónin var kannski tekin á 700.000, 300.000 eða 50.000 eða hvað annað. Undantekning frá þessu er væntanlega Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 4.9.2009 kl. 02:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband