Sóleyjarhöfði - Kerlingarfjöll

Eldsnemma á skírdag hittist 13 manna hópur með útbúnað og vistir til þriggja daga. Ferðinni var heitið að Sóleyjarhöfða við Þjórsá og átti að fara á skíðum í Kerlingarfjöll. Veðurspáin hljóðaði upp á norðaustanstæðan vind og einhverja úrkomu. Ég var örlítið smeyk um að þetta yrði svolítið slark en reyndi að haga útbúnaði eftir því.

Haldið var af stað á fjallabíl og keyrt sem leið lá upp með Þjórsá. Ekki reyndist fært alveg að Þjórsá og munaði ekki miklu að bíllinn færi með hópinn fram af snjóhengju. Það slapp til og var hópnum í staðinn hent út og sagt að ganga rest. Veðrið var líkt og búast mátti við skv veðurspá, él og hvasst.

IMG_7732

Fólk kepptist við að búa sig af stað, allir fullir tilhlökkunar að takast á við verkefnið. Örlítið kveið ég því að fara yfir Þjórsá en bílstjórinn og fararstjórinn fullyrtu að hún væri ísilögð.

Við pjökkuðum af stað og hrollurinn sem sat í okkur eftir bílferðina var fljótur að hverfa. Skyggnið var lítið en þannig er lífið stundum. Svo kom að því að við fórum yfir nokkra sléttu. Þegar yfir hana var komið var tilkynnt að nú væri matarstopp, við værum komin yfir Þjórsá, sléttan var semsagt Þjórsá. Ekki var það nú neinn farartálmi.

Á myndinni hér að neðan sést sléttan sem reyndist ísilögð Þjórsá.

IMG_7737

Meðan við hlóðum orkubirgðir í matarpásu létti til og eftir það höfðum við gott skyggni. Leiðin lá um Þjórsárver og Kerlingarfjöllin alltaf framundan og nálguðust smám saman eftir því sem ferðinni miðaði áfram. Arnarfell hið mikla, Hjartarfell og Hofsjökull voru á hægri hönd.

Hér að neðan sjást Kerlingarfjöll í fjarska.

IMG_7772

Þennan dag var ferðinni heitið í skála jeppamanna undir Hofsjökli en skálinn kallast Setrið. Það er vel útbúinn skáli enda voru jeppamenn þar með konurnar sínar. Þeir sögðu okkur að það þýddi ekkert að bjóða frúnum aðra skála.

Um kvöldið ræddu göngumenn matarræði í ferðum sem þessum sem og annan útbúnað til gönguferða. Jeppamenn ræddu um bílagræjur. Það hafa allir sín áhugamál.

IMG_7782

Daginn eftir var haldið áfram. Skyggni var gott en heldur hvassara og ekki laust við skafrenning. Áður en haldið var af stað voru skíði smurð eftir kúnstarinnar reglum.

Kerlingarfjöllin blöstu við, Loðmundur togaði okkur til sín. Það er gríðarlega fallegt fjall.

IMG_7786

Í hádeginu stoppuðum við í skjóli en ekki vildi betur til en skafrenningurinn smaug um allt og kakóið fauk upp úr bollanum áður en vatnið náði að bleyta í því. Þegar svo vatnið komst í bollann skvettist það líka út. Eitthvað náðum við samt að nærast og drifum okkur af stað. Vettlingarnir mínir urðu rennblautir og reyndust þeir eini veiki hlekkurinn á útbúnaði mínum. Þetta voru ullarvettlingar og með því að fara í tvenn pör hvort yfir annað náði ég að halda hita.

Þegar við komum vestur undir Kerlingarfjöll komumst við í skjól af fjöllunum og þá lygndi svo mikið að um stund náðum við að skíða á peysunum og jafnvel húfulaus. Þá gleymdist skafrenningurinn fljótt.

IMG_7835

Síðla dags komum við í skálann í Kerlingarfjöllum. Þar var snjór lítill en þó nægur til að við kæmumst á skíðum alla leið.

Áætlunin hljóðaði upp á að skíða einn dag í viðbót í veg fyrir bílinn sem sótti okkur. Vegna snjóleysis í Kerlingarfjöllum varð ekkert af því.

Þetta var bráðskemmtileg ferð. Færið var gott, veðrið langt framar vonum og hópurinn jafn að getu og skemmtilegt fólk. Hér eftir munu gönguskíðaferðir heilla mig enn meir en hingað til.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Oh, hvað þetta hefur verið gaman! Dauðöfundaði þig. Náði þó að fara þrjá daga á skíði um páskana í fínu færi: tvo daga um Heiðina háa og einn dag  í Hengladali og þar vorum við Palli muttersalene með rjúpunum.

Þóra Björk Hjartardóttir (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 08:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband