24.1.2009 | 14:55
Litlar frænkur fæddar
Ég gæti skrifað svo margt þessa dagana...........hugur minn er fullur sem fyrr. Íslenskt samfélag stendur á öndinni.
Það sem gerst hefur á vettvangi stjórnmálanna er þó hjóm eitt við hliðina á því kraftaverki sem ég hef orðið vitni að í minni nánust fjölskyldu. Laufey systir mín eignaðist tvær litlar stúlkur sl sunnudag þann 18. janúar.
Þessar lillur fæddust töluvert langt fyrir áætlaðan fæðingardag, þær eru ósköp smáar þar sem fullri meðgöngu hefði átt að vera lokið í byrjun apríl. Þær braggast samt vel og allt gengur skv áætlun bæði hjá móður og dætrum.
Þar sem Laufey býr núna hjá mér og mun gera a.m.k. næstu tvo mánuði hef ég fengið að fylgjast náið með framvindu mála. Ég fyllist ánægju og þakklæti fyrir hversu frábært heilbrigðiskerfi við búum við og hvað hægt er að gera fyrir þessa litlu unga sem fæðast svona fyrir tímann. Tæknin sem vökudeild Landspítalans býr yfir er aðdáunarverð og þar vinnur einnig gott starfsfólk.
Það er um þetta frábæra heilbrigðiskerfi sem við verðum að standa vörð á þeim einkennilegu tímum sem nú fara í hönd.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með litlu frænkurnar þínar, Kristjana. Ég efast ekki um að þær dafni vel. Þú ættir að sjá strákinn minn núna sem fæddist 2 mánuðum fyrir tímann og var bara 7 merkur!
Og já - við verðum að standa vörð um heilbrigðiskerfið. Starfsfólk St. Jósepsspítala í Hafnarfirði var glæsilegt í andófi sínu í dag þegar það sló skjaldborg um spítalann sinn og neitaði að fara!
Lára Hanna Einarsdóttir, 24.1.2009 kl. 21:54
Til hamingju með frænkurnar. Kraftaverkin gerast á vökudeildinni
Sigrún Jónsdóttir, 25.1.2009 kl. 00:29
Ég er fædd svona lítil, tæpar 5 merkur árið 1962 og þótti kraftaverk þá. Þessar telpur eiga fína möguleika, tækninni hefur fleygt fram á þessum tæplega 50 árum.
Innilega til hamingju með frænkurnar þínar
Ragnheiður , 26.1.2009 kl. 04:00
Sæl Kristjana.
Innilega til hamingju með litlu frænkurnar. Megi Guð og góðar vættir vaka yfir þeim og foreldrunum. Vonandi gengur allt vel svo þær komist sem fyrst heim í sveitina.
Bestu kveðjur að austan, Þorbjörg.
Þorbjörg (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 09:39
Takk fyrir hamingjuóskir.
Stúlkurnar braggast vel og eru duglegar.
Ragnheiður, þú ert svo sannarlega kraftaverk, að fæðast svona agnarsmá fyrir tæpum 50 árum! Þetta er u.þ.b. sami þungi og þessar lillur eru. Svona sögur auka svo sannarlega bjartsýni, enda bendir ekkert til annars en þær muni dafna vel.
Kristjana Bjarnadóttir, 27.1.2009 kl. 18:16
Sæl Kristjana.
Til hamingju með frænkurnar. Skilaðu hamingjuóskum til foreldranna. Kynntist aðeins aðbúnaði á vökudeild þegar ömmustrákurinn kom 5 vikum of fljótt núna í september. Þarna er unnið frábært starf. Hvernig dafna svo dömurnar og hvað voru þær stórar við fæðingu. Við í sveitinni viljum endilega fá að fylgjast með svo verið þið duglegar að setja inn fréttir af þeim.
Kveðja Halla
Halla Dalsmynni (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 19:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.