4.10.2008 | 11:07
Ég er sár, svekkt og hef skömm á..........
Fyrir um ári síðan birti ég færslu sem bar heitið "Reið". Nú þessa dagana bærast aftur í mér sterkar tilfinningar. Það er ekki reiði, ég hef ekki orð yfir þessa tilfinningu, mér finnst almenningur í landinu hafa verið misnotaður og valdhafar hafa staðið þegjandi hjá, án aðgerða. Orðin sem mér dettur í hug eru: sár, svekkt, skömm og svo einhver tómleikatilfinning, getur verið að þetta sé að gerast?
Þessar tilfinningar mínar beinast gegn:
- Stjórnvöldum undanfarinna ára sem með sínum aðgerðum og aðgerðaleysi leyfðu bönkunum að tútna út langt umfram það sem eðlilegt var miðað við stærð hagkerfisins og möguleika seðlabankans til að styðja við þá ef illa færi.
- Stjórnvöldum undanfarinna ára fyrir að hafa ekki í kjölfar einkavæðingar bankanna sett einhverjar reglur um bann við krosseignatengslum. Það getur ekki verið gott að bankarnir séu í eigu sömu manna og hafa mestu fjármálaumsvifin, afleiðingin er að þeir lána sjálfum sér umfram það sem eðlilegt er.
- "Útrásarliðinu" og öllum gölnu kaupréttarsamningunum. Hvað ætli að séu margar millur eða milljarðar sem bankarnir hafa borgað þannig út?
- Núverandi stjórnvöldum fyrir að hafa stungið höfðinu í sandinn seinustu mánuði og vonað að þetta lagist af sjálfu sér.
- Davíð Oddsyni fyrir að haga sér eins og eiræðisherrann yfir Íslandi
- Guðna Ágústssyni og Valgerði Sverrisdóttur fyrir að tala núna eins og þau hafi aldrei verið í ríkisstjórn. Valgerður gagnrýndi meira að segja að Davíð Oddsson væri Seðlabankastjóri, bíddu hver var bankamálaráðherra þegar hann var ráðinn?
Listinn er lengri en þetta er það sem mér datt fyrst í hug.
Ég á aðeins eina ósk, hún er sú að þegar við förum aftur að rétta úr kútnum þá munum við öll læra af þessu, veita stjórnvöldum og fjármálakerfinu meira aðhald, verðum sjálf ekki jafnauðtrúa á að skjótfenginn gróði sé endilega á hendi. Skiljum að eignir sem eru veðsettar í topp eru ekki raunverulegar eignir, lærum að spara, hægjum á okkur í lífsgæðakapphlaupinu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heyr Heyr Heyr Heyr
Mér finnst þó yfirsjón Davíðs skipta minnstu í þessu - hann ber ábyrgð sem fyrrum ráðherra en eftir að hlutirnir gerðust þá eru hans yfirsjónir meira karaktereinkenni - hefði aldrei trúað því að ég færi að bera í bætifláka fyrir þann mann!
Bylgja (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.