Ferð um gömlu Sovét - 2. Kafli

Þetta er framhald af fyrri færslu, 1. kafli er hér.

Ég bölvaði vinstrifótaskónum í hljóði, tók gömlu skóna og stillti þeim upp, tilbúnum í ferðina. Vissi að þeir væru óþægilegir í túristaráp, einnig að það væri ólíklegt að ég gæti keypt góða skó í Sovét. Ég gretti mig í hljóði.

Morguninn eftir átti ég bókað flug til Kaupmannahafnar, það var mæting í flugið kl 7.00, brottför kl 8.00. Þetta var fyrir þann tíma að almennir borgarar voru álitnir stórhættulegir í áætlunarflugi.

Ég var nýlega byrjuð að sofa hjá núverandi eiginmanni mínum. Nóttina fyrir ferðina gisti ég hjá honum enda var ég svo til húsnæðislaus á þessum tíma. Þessi elska ætlaði svo að keyra mig til Keflavíkur tímanlega í flugið. Tvær vekjaraklukkur voru stilltar, svona til öryggis.

Á mínútunni 7.00 vöknuðum við upp með andfælum.........í Breiðholti. Það tekur 45 mínútur að keyra til Keflavíkur........að lágmarki. Við hringdum í Flugleiðir, það var mögulegt að fluginu hefði seinkað. Nei, ekki aldeilis, vélin var á tíma.

Við drifum okkur í bílinn sem var gömul Ford Fiesta. Vélin var þanin til hins ýtrasta á Keflavíkurveginum. Darri vann á þessum tíma hjá Flugleiðum og kunni flugáætlunina utanað. Á leiðinni til Keflavíkur þuldi hann áætlunina, kl 9.00 væri vél á leið til London, ég gæti þó alltaf tekið hana.

"Ég er á leiðinni til Kaupmannahafnar, ekki til London", urraði ég.

"Það er alltaf hægt að komast frá London til Kaupmannahafnar" sagði Darri hinn rólegasti.

Fyrir mig sem þá var bara fátækur námsmaður hafði þessi ferð kostað hvítuna úr augunum á mér. Farseðill frá Íslandi til London og þaðan til Kaupmannahafnar var bara umfram það sem ég gat hugsað mér að punga út fyrir. Þar fyrir utan átti ég ekki greiðslukort og sá engan möguleika á að fjármagna þessi flugmiðakaup. Það sem mér fannst alverst var að ég var með öll ferðagögn Sigrúnar vinkonu minnar, vegna Sovétferðarinnar. Ég var í djúpum........

Klukkan var 7.50 þegar við lögðum fyrir utan flugstöðina. Darri þaut inn til að kanna hvort hægt væri að væla mig inn í flugið. Ég tók töskurnar og læsti bílnum.

Eins og áður sagði þá var þetta áður en flugfarþegar almennt voru álitnir skaðræðislið. Ég slapp í gegn, farangurinn tékkaður inn og ég hljóp í gegnum vegabréfaskoðun og eftir ganginum í flugstöðinni í átt að réttum rana.

Þegar ég nálgaðist rétt hlið áttaði ég mig á hvað ég var með í hendinni.

BÍLLYKILLINN!

Framhald síðar, hér er 3. kafli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ha, ha, ha, þessa hef ég heyrt áður en hún er svo góð að maður fær aldrei leið... ekki bíða of lengi með framhaldið.

Ásdís (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 20:55

2 identicon

Þarf maður nokkuð að bíða mjög lengi eftir framhaldinu?

Andri Valur (IP-tala skráð) 20.9.2008 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband