25.3.2008 | 22:07
Safnanir til góðgerðamála
Vangavelta kvöldsins snýst um góðgerðarmál: Hvernig á verkaskipting milli ríkis og félagasamtaka að vera varðandi góðgerðarmál?
Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör.
Ég hef ekkert eitt svar við þessari spurningu. Tel mig í gegnum mína skatta gjalda ríkinu sitt og fá heilbrigðisþjónustu, menntun barnanna minna og eitthvert lágmarks félagslegt öryggisnet. Ef eitthvað er þá vildi ég frekar hækka þessa skattprósentu til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu þó ég telji nú einnig að það megi kannski verja þessum aurum eitthvað betur.
Ýmis félagasamtök vinna þarft verk, ýmis sjúklingasamtök, lions og kiwanisfélög, Rauði krossinn og fleira og fleira. Sum þessara samtaka sinna þjónustu sem skarast á við það sem ætti að vera hlutverk opinberra aðila, kannski er það betra og skapar meiri nálægð við starfssemina, en á móti fríar það hið opinbera ábyrgð á málinu.
Í stuttu máli þá vil ég meiri opinbera ábyrgð og aðkomu og að fjármagn til þess sé tryggt í gegnum okkar skatta. Fjármögnun félagasamtaka á tækjakaupum ýmis konar getur reyndar verið af hinu góða.
Í símaskránni er ég með kross fyrir framan númerið mitt. Samt sem áður fékk ég símhringingu í kvöld, í símanum var Brynja en mér láðist að leggja á minnið fyrir hvern hún hringdi. Brynja vildi selja mér söngtexta sem Kiwanisfélagið Elliði hafði tekið saman. Þetta átti að kosta 2900 kr komið heim til mín og ég átti að borga með gíróseðli.
Hvað skyldi ég hafa átt að styrkja með þessu? Jú, legudeild BUGL, Barna og unglingageðdeild Landspítalans. Athugið þarna er verið að tala um rekstur legudeildar á LANDSPÍTALA HÁSKÓLASJÚKRAHÚSI.
Hvað er að gerast hér á þessu landi, þarf að hringja sníkjusímtöl í borgarana til að við tímum að reka geðdeild fyrir börn? Málið er brýnt, geðsjúkdóma þarf að meðhöndla eins og hverja aðra sjúkdóma ekki síst hjá börnum. En hver hefur fengi símtal þar sem beðið var um styrk til að reka krabbameinsdeild Landspítalans?
Ég er starfsmaður þessarar stofnunar, á ég líka að styrkja hana með beinum fjárframlögum?
Á ég kannski að hefja fjársöfnun tilhanda minni deild?
Hvenær hefst fjársöfnun tilhanda fjársveltum lögregluembættum?
Nei, gerum skýran greinarmun á því hvað við teljum eðlilegt að sé borgað úr okkur sameiginlegu sjóðum og gerum réttláta kröfu til ráðamanna að vel sé staðið að geðheilbrigðismálum, rétt eins og meðhöndlun annarra sjúkdóma. Rekstur ríkisstofnanna getur ekki flokkast undir góðgerðarmál sem þarf sníkjusímtöl til að fjármagna.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þarna finnst mér ríkið eiga að standa sína plikt en svo það sé nefnt þá hefur kvenfélagið Hringurinn séð um barnaspítalann af myndarskap öll árin.
Undarlegt þetta kerfi
Takk fyrir pistil
Ragnheiður , 25.3.2008 kl. 22:35
Þetta er mjög þörf og stórfín hugleiðing og vekur upp spurningar um forganginn í þjóðfélaginu sem er til skammar. Takk fyrir mig.
Lára Hanna Einarsdóttir, 25.3.2008 kl. 23:15
Sammála
Erna Bjarnadóttir, 26.3.2008 kl. 08:41
Mögulega var þarna um að ræða söfnun fyrir byggingu nýrrar legudeildar. Örlítill munur finnst mér þar á og eins og Ragnheiður bendir á var bygging Barnaspítala Hringsins að hluta fjármögnuð með svona fé. Ég tel þarna örlítinn mun á og ætla ekki að leggjast gegn því að félagasamtök styrki slíkt, einkum og sérílagi tækjakaup.
Mín skoðun er samt sú að þetta sé í verkahring opinberra aðila rétt eins og bygging lögreglustöðva. Ef við ætlum að safna fyrir byggingu legudeildar BUGL legg ég til söfnun fyrir byggingu lögreglustöðva.
Munurinn felst eingöngu í því að bygging BUGL höfðar meira til tilfinninga okkar og auðveldara að smala frjálsum framlögum.
Kristjana Bjarnadóttir, 26.3.2008 kl. 10:05
Sammála þessu síðasta sem þú segir. Í raun á hið opinbera að sjá um svona mál, hitt er svo annað mál að þegar maður sendir minningarkort eða slíkt þá getur maður valið um að styrkja einhverjar stofnanir eða félagasamtök að eigin vali.
Ragnheiður , 26.3.2008 kl. 17:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.