Páskar í Ungverjalandi

Veturinn 1984-1985 dvaldi ég sem au-pair í Munchen í Þýskalandi. Þegar ég fór út haustið 1984 hafði ég aldrei farið til útlanda áður, aldrei ferðast með flugvél, þetta var því mikil lífsreynsla. Ég minnist þess að áður en ég fór út tók þáverandi yfirmaður minn mig á eintal. Þetta var Jóhanna Leópoldsdóttir sem þá var útibússtjóri á Vegamótum. Jóhanna var ung og hafði ferðast mikið. Hún gaf mér ráð: "Það er ekki hættulegt að ferðast ef þú ferð eftir ákveðnum reglum. Ein þeirra er að halda þig í fjölmenni, ekki fara í fáfarnar götur eða útaf alfaraleiðum".

Það var nefnilega það. Hve mikið er til í þessu.

Konan sem ég dvaldi hjá í Þýskalandi heitir Emzy og var frá Ungverjalandi. Fjölskyldan átti gamalt hús við Balatonvatn í Ungverjalandi. Þangað bauð fjölskyldan mér að koma með sér um páskana árið 1985. Þetta boð þáði ég með þökkum.

Emzy átti erindi til Budapest og hún bauð mér að koma með sér þangað. Við komum þangað seinni hluta dags og gistum hjá systur Emzy. Daginn eftir sinnti Emzy erindum sínum, hún keyrði mig fyrst um, sýndi mér borgina og sagði mér ýmislegt. Uppi á hæð nokkurri voru miklar og glæsilegar byggingar. Þar benti Emzy mér að skoða mig um, skildi mig síðan eftir og við mæltum okkur mót aftur.

Ég hóf göngu mína um þetta svæði, þarna voru margir túristar að skoða sig um rétt eins og ég. Ég fylgdi götu sem sífellt varð fáfarnari, áttaði mig skyndilega á að mér var veitt eftirför, þarna voru engir aðrir á ferð en ég og maðurinn sem elti mig. Ég hægði ferðina, maðurinn gerði slíkt hið sama. Ég herti aðeins á mér og maðurinn gerði slíkt hið sama.

Gatan lá í eins konar hlíð og þarna voru engin hús. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds, ég þorði ekki að snúa við, þá hefði ég gengið beint í flasið á manninum, vonaði að þessi vegur lægi eitthvert þar sem fleira fólk væri. Það reyndist ekki vera, vegurinn lá að bílastæði, þar voru að vísu margir bílar en enginn manneskja sjáanleg.

Ég reyndi hvað ég gat að vera ákveðin og yfirveguð í fasi, alltaf fylgdi maðurinn í humátt á eftir mér. Ég var óviss hvernig ég átti að snúa mér á bílastæðinu, gekk einhvern hring og hugðist ganga götuna til baka. Maðurinn náði að króa mig af. Þegar ég sneri mér að honum var hann í u.þ.b. 5 metra fjarlægð og með flett niður um sig, það allra heilagasta var í fullri stærð tilbúið til atlögu. Ég fann krampa þrýstast um magann, taldi möguleika mína til að sleppa enga og ég fann hvernig máttleysi læsti sig um mig alla. Ég var ófær um að hlaupa burt enda hefði það ekkert þýtt, maðurinn hefði verið fljótur að hlaupa mig uppi hefði það verið einbeittur vilji hans.

Ég leit flóttalega til mannsins, hristi höfuðið eins og ég væri að afþakka eitthvað sem hann hefði boðið mér. Ég hraðaði mér burt eins ákveðnum skrefum og mér var unnt. Ég vildi ekki fara of hratt, með því væri ég að gefa hræðslu í skyn, það vildi ég ekki.

Maðurinn fylgdi mér ekki eftir.

Ég gekk götuna til baka og fann fljótt staðinn þar sem ég ætlaði að hitta Emzy. Þar settist ég og beið, ég var miður mín og hafði engan áhuga á að skoða meira. Drjúg stund leið þar til Emzy kom, ég lét sem ekkert hefði í skorist og að ég hefði haft ánægju af að skoða mig þarna um.

Ég sagði Emzy aldrei frá þessu, fannst ég væri að móðga hana með því þar sem þetta gerðist í hennar landi. Mér leið líka eins og ég hefði boðið upp á þetta, velti mikið fyrir mér klæðnaði mínum sem var ekki ögrandi, en samt. Hvernig gat ég vitað hvað karlmönnum þarna fannst ögrandi? Ég var vestræn í útliti og frjálsleg í fasi, það gat boðið hættunni heim að mínu mati. Mér fannst að sökin væri að einhverju leiti mín.

Ég átti margar vinkonur í Þýskalandi frá ýmsum löndum, kannski ekki djúp vinátta en a.m.k. voru þetta stelpur sem ég skrafaði við um ýmislegt. Það liðu nokkrir mánuðir áður en ég loksins sagði einni frá þessu. Ég man að ég átti erfitt með að tjá mig og að það fór hrollur um mig þegar ég gerði það.

Síðar hef ég stundum sagt frá þessu, ég kemst iðulega úr jafnvægi, röddin titrar og ég hálfskelf. Lengi fannst mér ég sjálf bera ábyrgð á þessu einnig að ég ætti ekki að segja frá þessu þar sem þessu fylgdi skömm.

Þarna varð ég ekki fyrir neinu líkamlegu áreiti, samt hafði þessi atburður svona mikil áhrif á mig. Það leið langur tími þar til ég treysti mér til að nefna þetta, ég kenndi sjálfri mér um og enn kemst ég í uppnám þegar ég hugsa um þetta eða segi frá þessu.

Ég skil þögn og sektarkennd þeirra sem verða fyrir raunverulegu kynferðislegu áreiti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Magnað

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.3.2008 kl. 17:50

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Úff.... þetta hefur verið skelfileg reynsla.  Hræðslan ein og sér hlýtur að hafa verið þvílík, að það er ekki skrítið þótt þér líði illa með þetta lengi.  Takk fyrir að deila þessu með okkur.

Anna Einarsdóttir, 19.3.2008 kl. 19:57

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Úff, Kristjana... þetta er svakaleg saga. En mér virðist þú hafa brugðist alveg hárrétt við þarna.

Ég hef sjálf tvisvar lent í svona nokkru. Þegar ég var um 11 ára og á leið í Sundlaug Vesturbæjar með vinkonu minni. Einhver maður stoppaði okkur og spurði til vegar. Meðan við vorum að pata út í loftið og vísa veginn girti hann niðrum sig og þegar við litum á hann aftur stóð hann með konfektið dinglandi bert. Mamma hafði sagt mér að ef einhverjir karlar væru að abbast upp á mig skyldi ég sparka í klofið á þeim - og það gerði ég eldsnöggt og af miklu afli. Maðurinn fór auðvitað í keng emjandi og við hlupum sem fætur toguðu inn í sundlaug og sögðum óðamála frá atvikinu. Hringt var á lögregluna en þegar hún kom var maðurinn á bak og burt. Við heyrðum aldrei meira um málið og ekki veit ég til þess að lögreglan hafi reynt að leita mannsins.

Hitt skiptið var á Amager í Kaupmannahöfn, ég var ein á ferð í strætó á leið heim á pensjónatið þar sem ég gisti. Ég var þá 18 ára. Mér hafði verið gefinn hnífur heima, forláta kuti í slíðri sem ég bar alltaf á mér í beltinu. Þegar ég fór út úr vagninum var ég elt út af þremur mönnum sem byrjuðu að abbast upp á mig. Ég breyttist umsvifalaust í hvæsandi dýr, dró upp hnífinn og þóttist vera hin ógnvænlegasta, sveiflandi honum í kringum mig. Mennirnir hlupu í burtu, að því er virtist skíthræddir við geðsjúklinginn. Ef þeir hefðu heyrt hjartað í mér slá og vitað hvað ég var skelfingu lostnir... tja, þá veit ég ekki hvað hefði gerst. Ég held að ég hafi aldrei hlaupið eins hratt og ég gerði til að ná heim þetta kvöld.

Svona reynsla situr í manni og bæði tilvikin man ég eins og gerst hefði í gær - þó er ég ekki manna minnugust. Hvað ætli stór hluti kvenna upplifi eitthvað í þessum dúr einhvern tíma á ævinni?

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.3.2008 kl. 22:42

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir góð innlegg.

Tilgangur minn með því að segja þessa sögu var ekki endilega að vekja athygli á þessari lífsreynslu minni sem slíkri, heldur það að þrátt fyrir að hún sé smámunir við hliðina á raunverulegu ofbeldi skuli þetta sitja með þessum hætti í mér. Hvernig er þá líðan þeirra sem hafa þurft að þola raunverulegt kynferðislegt ofbeldi?

Ég hef stundum þótt frekar tilfinningaköld og jafnvel óttalegt hross. Samt tók ég þessu svona.

Lára, þú ert hins vegar alvöru töffari! Að sparka perrann í klofið,  11 ára gömul, GÓÐ.

Það væri forvitnilegt að vita hversu stór hluti kvenna verði fyrir svona reynslu.

Kristjana Bjarnadóttir, 19.3.2008 kl. 23:15

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það voru fullkomlega ósjálfráð viðbrögð hjá mér að sparka eftir ítrekuð orð móður minnar - og það duglega. Ég spilaði mikið fótbolta á þessum árum og var því í nokkurs konar æfingu, ef svo má að orði komast.

Þetta er nefnilega mjög merkileg pæling með líðan þeirra sem þurfa að þola raunverulegt, kynferðislegt ofbeldi fyrst svona "smámunir" eins og okkar reynsla situr svona fast í okkur. Ég held að skelfilegar afleiðingar fyrir lífstíð verði aldrei ofmetnar en því miður virðast dómstólar ekki mikið huga að þeirri hlið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.3.2008 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband