12.3.2008 | 21:50
Úti er ævintýri
Litlu munaði að vefjaflokkanir á Íslandi legðust af nú á mánudaginn. Við erum tvær sem sinnum þessari starfssemi og fórum saman á gönguskíði. Það hefur nú verið haft í flimtingum að það ætti að banna okkur að ferðast saman en við ákváðum að örlítil útivist saman væri innan marka.
Mánudagurinn var sólríkur framanaf og fjöllin heilluðu. Við höfum ágætis útsýni á Esjuna og Móskarðshnjúka og birtan togaði í okkur. Við ákváðum að hætta snemma og drífa okkur upp í Bláfjöll. Þegar við hins vegar litum í suðurátt voru þar þungir skýjabakkar.
Élin mættu í Bláfjöll á svipuðum tíma og við. Það er ekki okkar stíll að gefast upp og út örkuðum við. Fylgdum ljósastaurum svo langt sem þeir náðu. Töldum að við gæðum fylgt brautinni lengra þrátt fyrir lítið skyggni. Það endaði auðvitað með því að við týndum brautinni. Þá voru góð ráð dýr.
"Ef við verðum úti þá leggjast vefjaflokkanir á Íslandi af" kallaði ég til samstarfskonu minnar. Ennþá gátum við hlegið að þessu.
Við töldum okkur hafa einhverjar áttir á hreinu en það fór svo að sannfæring okkar dvínaði. Skyggnið var í mesta lagi þrír metrar. Við tókum þá það ráð að snúa við og fylgja förum okkar til baka, vorum líklega komnar hátt í 4km. Við fundum fljótlega brautina aftur og gátum fylgt henni að ljósastaurunum. Þá töldum við okkur hólpnar.
Út úr élinu kemur þá vélsleði á fleygiferð. Þar var á ferð vörður sem vissi af tveim konum að asnast þarna á gönguskíðum. Við gátum alveg hugsað okkur að ganga til baka en það var alveg greinilegt að manninum dauðlangaði til að bjarga okkur. Við leyfðum það, tókum af okkur skíðin, settumst fyrir aftan þennan myndarlega mann, ég fyrir framan þannig að ég náði að hanga í honum með þéttum fangbrögðum. Hann keyrði sleðann stíft til baka og datt mér í hug djákninn á Myrká, slík voru tilþrifin við aksturinn. Skíðin okkar stóðu þvert útaf og þar sem sleðinn nánast strauk ljósastaurana og máttum við hafa okkur allar við að kippa skíðunum til svo þau rækjust ekki í staurana.
Báðar komumst við aftur heim, en óvíst er hvort okkur verður hleypt aftur saman út að leika okkur í bráð.
Athugasemdir
Mikið var þetta skemmtileg frásögn, Kristjana. Mig langar nú að spyrja í framhaldi af vefjaflokkunum - hvar starfarðu við vefjaflokkanir? Ertu líffræðingur?
Lýsingin á djáknasleðanum er óborganleg!
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.3.2008 kl. 22:20
Þetta var skemmtileg tilviljun - þú settir inn athugasemd hjá mér á nákvæmlega sömu stundu og ég hjá þér! Skyldar sálir, kannski?
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.3.2008 kl. 22:23
Sæl Lára, ég er líffræðingur og starfa í við vefjaflokkanir í Blóðbankanum.
Kristjana Bjarnadóttir, 12.3.2008 kl. 22:27
Já ég var að taka eftir þessu með ATH á síðunum, við erum a.m.k. skyldar að því leyti að náttúran og útivist eru okkar áhugamál og báðar höfum við verið leiðsögumenn þannig að það er tenging.
Kristjana Bjarnadóttir, 12.3.2008 kl. 22:29
Á ég þá að þakka fyrir hið þráláta kvef? Eða kannski öfunda ykkur af ævintýrinu.
Segjum bara að ég verði orðin góð efitr helgi og við skreppum í næstu viku, það vantar greinilega listamann í þetta skíðagöngufélag:)
Ásdís (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 10:39
Ásdís mín, það er kominn tími á þessi leiðindi sem hrjá þig. Við förum saman um leið og þú ert tilbúin.
Þú mátt þakka fyrir að hafa ekki verið með þessum kjánum þarna á mánudaginn, við vorum ekkert sérstaklega gáfulegar. Þú mátt líka alveg láta þig hlakka til að koma með þegar þú ert til.
Kristjana Bjarnadóttir, 13.3.2008 kl. 15:07
Þá hefði ég alveg passað inn í félagsskapinn, allt er þegar þrennt er:) Já nú er stefnan tekin á kveffría tilveru, en fyrst norður að taka niður sýninguna. Eins gott það verði einhver snjór eftir fyrir mig.
Ásdís (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 16:03
Ef vefjaflokkanir leggjast af á Íslandi, verður þá allt í einum vefjagraut í Blóðbankanum ? Spyr sú sem ekkert vit hefur á vefjaflokkunum.... en kann að flokka skjöl.
Anna Einarsdóttir, 13.3.2008 kl. 20:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.