Íþróttir

Húsnæði Laugagerðisskóla gerði ekki ráð fyrir að kenndar væru íþróttir. Kompa í kjallaranum var samt kölluð "íþróttasalurinn". Þessi kompa var við hliðina á smíðastofunni og seinni hluta vikunnar var smíðastofan stækkuð og "íþróttasalurinn" notaður til að stækka smíðastofuna. Fyrri hluta vikunnar voru kenndar "íþróttir". Í byrjun hverrar viku var svo sagið dustað af íþróttadýnunum, þeim rúllað út og kennslan gat hafist.

Þessi salur var nægilega stór til að yngri börnin gætu farið þar í kollhnís. Stærri slánar náðu því tæplega fyrir þrengslum. Ekki var það nú mikið meira sem við lærðum í íþróttum í þessum sal.

Ekki man ég eftir að íþróttir hafi verið kenndar utanhúss. Ekki einu sinni að liðinu hafi verið stuggað út á fótboltavöll en þann vettvang forðaðist ég eins og heitan eldinn, myndi muna ef ég hefði verið skikkuð til að spila fótbolta. Finnst það reyndar eftir á einkennilegt að útisvæðið hafi ekkert verið notað til íþróttakennslu.

Við fórum reyndar mikið í sund, en sú aðstaða var ágæt.

Seinna var ákveðið að keyra eldri börnin í samkomuhúsið að Breiðabliki og nota það til íþróttakennslu. Þá var hægt að láta liðið hlaupa og hita upp. Allir þurftu að eignast íþróttafatnað og íþróttagallar úr gerviefni, eldrauðir með hvítum röndum á hliðinni, voru keyptir á allt liðið. Allir í stíl. Svo var skríllinn látinn svitna.

Eftir íþróttirnar var reynt að fara í sturtu. Sjaldnast var það hægt því krafturinn á vatninu var sjaldnast nógu mikill til að sturturnar á stelpnavistinni virkuðu. Ég man að við vorum eitthvað að fjargviðrast yfir þessu en þetta þótti ekki skipta neitt miklu máli. Sveitafólk hafði nú svitnað áður án þess að þurfa að baða sig strax á eftir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sundlaugin var reyndar ekki alltaf nógu heit til að fært væri fyrir okkur púkana. Við sáum svo sjálf um hreyfinguna þegar fært var fyrir skautahlaup á flóanum, já og borðtennis og skák, sem er auðvitað íþrótt líka. Svo man ég að við fengum að spreyta okkur á jazzballet og balkönskum hringdönsum. Mér fannst reyndar ágætt að skipta út frjálsum fyrir dans. Miklu skemmtilegra að bömpa en standa í marki:I

Ásdís (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 19:36

2 identicon

Ég fékk einu sinni flís í fótinn í leikfimitíma! Ég var aldrei á Breiðabliki, það hlýtur að hafa verið flott. Mikill stærðarmunur á sal. Svo var gengið í löngu frímínútum hringinn í kringum skólann, aftur og aftur. Ágætis æfing þar ; )

Þessa tvo vetur sem ég var í skólanum var sundlaugin bara notuð til kennslu og bara þegar kennaranum þótti viðra vel.

Bryndís (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 10:57

3 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Líklega er þetta rétt að útiaðstaðan hafi lítið verið notuð, þó finnst mér að það hafi verið farið í fótbolta í íþróttatíma, allavegana var ég oft í fótbolta í frímínútum. En svo má ekki gleyma að áður en stormað var inn í íþróttasalinn var liðinu raðað í röð eftir stærð. Villa og Þóra á Lækjamótum fremstar og svo Ólína og þannig kolla af kolli . Allar í fimleikabolum nema ég og strákarnir, kannske ein eða tvær aðrar stelpur sem héldu í "Tom-boyinn".

Þetta með sundlaugina, nei það var nú ekki hægt að synda í henni yfir háveturinn. Var þessi aðstaða ágæt?  Þessir búningsklefar héldu tæplega vatni og vindum ef ég man rétt. En á vorin var oft farið í sund á kvöldin - líka í skjóli myrkurs hehe... og það þótti mikið sport að þrífa laugina. Í sveitinni var að sjálfsögðu notað ódýrt vinnuafl og nemendur látnir gera það, mér er sem ég sjái það nú á 21. öldinni

Erna Bjarnadóttir, 18.2.2008 kl. 12:18

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Það er greinilega mismunandi sýn á sundlaugina, held það sé spurning um viðmið. Sannarlega stóðst aðstaðan ekki þær kröfur sem við gerum í dag, en miðað við íþróttaðstöðuna var 25m sundlaug, ca 3m djúp þar sem hún var dýpst, þokkaleg aðstaða. Að vísu ekki nothæf allt árið, en samt.

Kannski verður hér seinna "sundfærsla".

Kristjana Bjarnadóttir, 18.2.2008 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband