Umræða um líffæraflutninga óskast

Nýlega fjallaði ég um líffæraígræðslur. Nú kemur framhald af því og einskorða ég mig við nýrnaígræðslur. Vissuð þið að:

  • Árlega eru framkvæmdar 7-10 nýrnaígræðslur á Íslandi.
  • Miðað við höfðatölu eru framkvæmdar flestar nýrnaígræðslur úr lifandi gjöfum á Íslandi á öllum Norðurlöndum. Fæstar eru þær í Finnlandi.
  • Finnar standa öðrum Norðurlandaþjóðum framar í fjölda ígræðslna úr látnum gjöfum.

Nánar um þetta. Í desember 2003 var framkvæmd á Landspítalanum fyrsta nýrnaígræðsla á Íslandi. Árlega eru framkvæmdar á Landspítalanum 7-10 nýrnaígræðslur. Áður voru þessar aðgerðir framkvæmdar erlendis, Kaupmannahöfn eða um tíma í Gautaborg. Fyrir utan stórkostlega bætt lífsgæði þega er um að ræða hagkvæma aðgerð þar sem nýtt starfhæft nýra losar sjúklinginn úr kostnaðarsamri meðferð og aðgerðin því fljót að "borga sig upp". Íslenskir nýrnasjúklingar sem ekki eiga kost á nýra úr lifandi gjafa eru á biðlista eftir nýra á ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn og ef um er að ræða ígræðslu þar teljast þeir með í þeirra tölum.

Nýra úr lifandi gjafa er líklegra til að endast heldur lengur en nýra úr látnum gjafa. Þægindi bæði þega og gjafa að eiga kost á þessari aðgerð hér heima eru ótvíræð. Mögulegt er að það geti að hluta skýrt hversu hátt hlutfall lifandi gjafa er hér á landi.

Umhugsunarvert er hins vegar að Íslendingar eru miðað við höfðatölu með heldur lágt hlutfall látinna líffæragjafa. Þó er erfitt er að draga miklar ályktanir um þetta þar sem um lágar tölur er að ræða árlega og sveiflur því miklar. Mögulegt er að þetta lága hlutfall skýrist af því að lítil umræða er manna á meðal um hver afstaða hvers og eins er til líffæraflutninga.

Hver er þín afstaða til líffæraflutninga úr látnum gjöfum? Veist þú hver afstaða þinna nánustu er?

Aftur hvet ég til þessarar umræðu og ekki síst út frá hugsuninni hvaða afstöðu við hefðum gagnvart þeim ef við eða náinn ættingi þyrfti á líffæri að halda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða Eyland

Ég er nokkrum sinnum síðan þú skrifaðir þessa færslu númer tvö um líffæragjafir, hugsað útí færslurnar og nú langar mig loksins að svara þér. Þannig er að ég þekki eina konu sem á kort frá Tryggingastofnun ríkisins, þetta kort seigir að hún er líffæragjafi, það er að seigja ef hún deyr þá má gjarnan nota það sem hægt er úr henni. Þessi kona er með kortið í veskinu sínu sem hún er alltaf með á sér ef hún bregður sér af bæ, þegar hún sagði mér frá þessu korti fyrst var ég ákveðin í að fá mér svona kort líka en hef ekki látið verða af því og reyndar gleymt því. En færslurnar þínar hafa svo um munar fengið mig til að muna eftir þessu og ætla ég að fara á tryggingarstofnun og sækja um eintak fyrir mig því að ég hygg að kort að þessu tagi geti aðeins verið gott.

Fríða Eyland, 25.11.2007 kl. 00:41

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Svona kort hafa að því mér skilst ekkert lagalegt gildi, þau hins vegar hjálpa aðstandendum að taka erfiða ákvörðun og því ágætt að vera með svona. Ákvrðunin er hins vegar alltaf aðstandendanna. Því skiptir mestu að ræða þetta við sína nánustu, við kvöldverðarborðið !

Kristjana Bjarnadóttir, 25.11.2007 kl. 08:02

3 Smámynd: Mummi Guð

Ég á son sem hefur gengist undir lifrarígræðslu og hef mikinn áhuga á öllum umræðum um líffæraígræðslur og hef oft komið fram í fjölmiðlum til að segja frá minni hlið og hvetja fólk til umræðu um að taka ákvarðanir um að gefa líffæri. Í sumar skrifuðum við meðal annars á heimasíðu barnsins okkar færslu og segir hún töluvert um okkar skoðun á líffæragjöfum.

Okkur finnst það vera skylda okkar að reyna að hvetja fólk til að hugsa um líffæragjafir eftir sinn dag. Ástandið á Íslandi er skelfilegt og finnst okkur ótrúlegt að svona vel upplýst þjóð sé óviljug að gefa líffæri til að bjarga fólki sem þarf á því að halda. Við skiljum vel að fólk sem er nýbúið að missa ástvin fái sjokk og finnist það vera ósvífni að biðja um að fá að taka líffæri úr látna einstaklingnum á svona erfiðum tíma. Vegna þess að flestir einstaklingar sem geta gefið líffæri deyja af slysförum, þá eru tímarnir mun erfiðari fyrir aðstandendurna. Við hvetjum fólk til að taka ákvörðun um hvort það vilji gefa líffæri úr sér eða ekki. Takið líka ákvörðun fyrir barnið ykkar og munið það að barn sem þarf á líffæri að halda getur oft ekki fengið það nema frá látnu barni á svipuðum aldri. Ef þið eruð ekki viljug að gefa líffæri úr ykkar barni ef slys bæri að höndum, væru þið viljug að þiggja líffæri fyrir barnið ef það þyrfti á því að halda. Gerið það fyrir okkur, veltið þessu erfiða máli fyrir ykkur og takið ákvörðun.

Mummi Guð, 25.11.2007 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband