Jólasveinarnir eru 12

Það getur vel verið að Stekkjastaur komi til byggða í nótt, 13 dögum fyrir jól. En það vantar einn jólasvein, þeir eru bara 12, ég veit það ég varð nefnilega vitni að því þegar þeim fækkaði um einn. Þetta er alveg satt, það hefur bara enginn trúað mér. 

Ég fór með mömmu og Ernu upp að Breiðabliki, það var jólaskemmtun fyrir krakkana. Kvenfélagskonurnar stóðu fyrir skemmtuninni, karlarnir voru uppteknir heima við að undirbúa fjölgun sauðfjárins að þeirra sögn, það var fengitími! Máttu engan veginn vera að þessu.

Ég var 3ja eða 4ra ára, jólasveininn kom og mér fannst gríðarlega mikið til hans koma. Hann gaf öllum krökkunum epli, það var ekki oft sem við fengum það. Okkur fannst þau safarík og góð. Jólasveinninn gekk með okkur nokkra hringi kringum tréð, sagði nokkrum sinnum hó, hó, svo fór hann.

Á eftir fengu börnin kökur og kakó á kaffistofunni í kjallaranum á félagsheimilinu, þetta var áður en byggt var við. Ég vafraði um efri hæðina, mér fannst þetta óskaplega stórt hús, þurfti að kanna það. Ég kíkti inn í eitt herbergið, á bekk þar inn lá DAUÐUR JÓLASVEINN.

Ég gleymi þessari sjón ekki. Ég staðhæfi að ég sá það. Ég varð algerlega miður mín, það var mikið áfall að verða fyrsta vitnið að fækkun jólasveinanna. Ég fór og sagði mömmu frá þessu, hún vildi ekki trúa mér, frekar en nokkur annar, alveg sama hvað ég reyndi að fá fólk til að koma og skoða þetta, þetta þótti ekkert til að hafa áhyggjur af, það var bara eins og öllum væri sama. Einhver fór samt upp í herbergið en kom og sagði að þar væri ekkert. Ég fékk ekki að fara aftur inn í herbergið.

Næstu daga var ég óhuggandi. Talaði ekki um annað en dauða jólasveininn. Þetta var náttúrulega stórmál. En ég talaði fyrir algerlega dauðum eyrum. Að endingu gafst mamma upp. Tók mig á eintal og sagði við mig að jólasveinarnir væru ekki til, Sigurður Helgason skólastjóri hefði verið í búningi, ég hefði bara séð búninginn á bekknum og gríman og skeggið hefðu legið ofan á.

Glætan að ég trúi þessu. Jólasveinarnir eru 12.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Jáhh.... við stelpurnar látum ekki plata okkur svona.  Við lærðum fína stærðfræði í skólanum og vitum að þrettán mínus einn eru tólf.  Stend með þér í þessu. 

Anna Einarsdóttir, 11.12.2007 kl. 21:04

2 identicon

Bylgja (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 09:06

3 identicon

Minn skilningur var alltaf sá að sveinkarnir væru 9.
"Jólasveinar einn og átta" = 9

Setti því skóinn aldrei út í glugga fyrr en "níu nóttum fyrir jól"

Kv.
Villa

Vilborg (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 15:17

4 identicon

Já Villa það er eitthvað á reiki þetta með fjöldann. Jóhannes úr Kötlum segir í Jólasveinakvæði að þeir séu þrettán og ég held ég bara trúi því. Ég held líka að það séu sögur um að þeir séu enn fleiri:

Þeir voru þrettán

þessir heiðursmenn,

sem ekki vildu ónáða

allir í senn.

Annars voru það íslensk sjómannsbörn sem fyrst íslenskra barna fengu í skóinn. Sjómenn sem komu til Hollands sáu þann sið þar fyrst og fluttu með sér heim og komu honum á framfæri við íslenska jólasveina. Fram að þeim tíma höfðu sveinarnir verið hrekkjusvín og óþekktarormar. Sennilega er það skýringin á því hversvegna þessi ágæti siður fór alveg úr böndunum í íslenskum höndum svo enginn veit í sinn haus lengur. Held samt að kennarar og leikskólakennarar hafi gert gott átak í að siða sveinana til svo eitthvert samræmi sé í skógjöfum.

Bæti því við að aðeins einu sinni fékk sonur minn kartöflu í skóinn. Athugið að þá er fokið í flest skjól. Hann lét sem sér brygði lítið, fór með "gjöfina" fram í eldhús og heimtaði að hún yrði soðin og át hana svo með bestu lyst. Síðan þá hefur hann verið svona nokkurn veginn til friðs:)

Ásdís (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 17:24

5 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Jú ég man eftir þessum harmi systur minnar, en eitthvað rýrnaði nú eftirtekjan í gúmmískóna í glugganum eftir þetta, eða voru það stígvél.

Erna Bjarnadóttir, 12.12.2007 kl. 22:21

6 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Villa mín þetta er bara rangt hjá þér, það getur vel verið að þeir hafi einhvern tíman verið 9, en eftir þetta dauðsfall þá hljóta þeir að vera 8, það hlýtur þú að skilja. Kannski þarna sé komin skýringin á kvæðinu "jólasveinar einn og átta". Hljómar ekki ósennilega, átta lifandi og einn DAUÐUR!

Gleðilega jólasveinatíð.

Kristjana Bjarnadóttir, 12.12.2007 kl. 22:40

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.12.2007 kl. 23:22

8 Smámynd: Fríða Eyland

Fríða Eyland, 14.12.2007 kl. 18:45

9 Smámynd: Steinn Hafliðason

Krúttlegt

Steinn Hafliðason, 18.12.2007 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband