25.9.2007 | 18:44
Sími
Ég ólst upp við sveitasíma, það voru 2 langar 1 stutt og 1 löng heim til mín. Það var hægt að hringja út fyrir sveitina (sem var ekki stór) í 3 klst á morgnana (9-12) og 2 klst eftir hádegið (15-17). Þegar talað var í símann var maður nánast viss um að það væri einhver að hlusta, það gerðu allir en enginn viðurkenndi það. Sagt var að á einum bænum væri komin laut í gólfið þar sem síminn var, svo þaulstaðinn var vaktin. Í þessu samfélagi vissi sveitin um barnsfæðingar á sömu stundu og eiginkonan tilkynnti bóndanum það. Frekar rómantísk samtöl.
Merkilegast var að þegar átti að setja upp "sjálfvirkan síma" voru ekki allir vissir um að vilja það, þá myndi aldrei fréttast neitt! Svo var þetta svo dýrt.
Þegar ég kom til Reykjavíkur í menntaskóla vandist ég "síma", leigði íbúð þar sem var þessi fíni sími. Fannst ég reyndar ekki geta talað heim um hvað sem er, vissi að sveitin lá á línunni. Margar setningar í samtölum við mömmu enduðu með þessum orðum: "......æi, ég segi þér það seinna".
Svo fór ég í háskólann, bjó fyrst í kjallaraherbergi á Bergþórugötunni. Þar var enginn sími. Mömmu fannst þetta óþægilegt og vildi hjálpa mér að komast yfir þetta tæki, þ.e. síma. Ég fór niður í Pósthússtræti og sótti um síma. Það var ekki víst að til væru nægilega margar línur inn í húsið til að ég gæti fengi síma í herbergið. Það þurfti að kanna það. "Og hvenær og hvernig fæ ég að vita það?" spurði ég. Við hringjum í þig var svarið. Jamm, gáfnaljósin eru víða.
Ég flutti á stúdentagarða áður en þeir hringdu í mig. Þar voru 2 símar fyrir 60 manns. Fyrirkomulagið var þannig að ef síminn hringdi var bjöllu hringt á því herbergi þar sem sá bjó sem spurt var um. Ef enginn svaraði voru skrifuð skilaboð í bók. "KK hringdi kl 14.00" þýddi að karlmaður hringdi. Svo stóð oft "hringdu í mömmu". Krúttlegt. Það var hins vegar æði erfitt að komast að í símann, þetta voru líka klinksímar. Oft var fljótlegra að taka strætó heim til þess sem maður átti erindi við en að bíða eftir að komast að. Mikið hvað maður æfði þolinmæði.
Nú á dögum GSM síma í vasa hvers manns hljóma þessar sögur aftan úr forneskju. Mér finnst bara gott að vera svona forn, mér líkar vel við símann í vasanum mínum en ég get svo vel verið án hans.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Vinir og fjölskylda, Gamlar sögur | Breytt 29.9.2007 kl. 11:30 | Facebook
Athugasemdir
Góð færsla Kristjana og ég dáist að því hvað þú ert minnug. Amma gamla var ansi dugleg við hlustun enda ekki mikið um aðra afþreyingu fyrir gamla fólkið í sveitinni. Ég hlustaði stundum og fannst það æði...mjög spennandi...en mamma mátti ekki vita af því því þá fengum við verulegar skammir. Við höfum upplifað margar breytingarnar þótt við séum ekki eldri en við erum. Mér finnst líka gott að vera forn.
Gíslína Erlendsdóttir, 25.9.2007 kl. 20:10
Pabbi bannaði okkur alveg að hlusta. Hins vegar fengum við fréttirnar stundum hjá ömmu. Annars man ég vel eftir 5 hringingum.... þegar tilkynnt var að kviknað var í, á Stakkhamri. Einn forngripur hér líka.
Anna Einarsdóttir, 25.9.2007 kl. 22:40
Já sem neyðarhringing virkaði þetta vel, það var ein af ástæðunum fyrir að fólk hafði efasemdir um að taka upp "sjálfvirka" símann.
Kristjana Bjarnadóttir, 26.9.2007 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.