Ferðalag

Í sumar sem leið fór ég í 6 daga gönguferð. Tjald og allar vistir á bakinu, maður verður nú að sýna smáhetjuskap. Svæðið var milli Skaftár og Hverfisfljóts, Laki og Lakagígar voru miðpunkturinn.

Í svona göngum kemur stundum fyrir að skrokkurinn minnir á sig, einn morguninn vaknaði ég með skelfilegan hausverk. Ég fálmaði í skraninu mínu eftir dópi og við tjaldskörina vissi ég af vatni í drykkjarjógúrtflösku til að skola dópinu niður. Ég teygði mig eftir flöskunni og tók vænan slurk................... þetta reyndist vera flaskan með strohinu! Mér snarskánaði höfuðverkurinn og var í fínu gönguformi þann daginn.

Vaknaði lamin lurkum

litaðist dópi þá eftir

með áfengi slokraði í slurkum

slæmskan mig lengur ei heftir

Úrgangsmál göngufólks var aðeins í fréttum í sumar. Gönguhópurinn minn var lengi lítt til fyrirmyndar í þeim efnum. Ég ætla ekki að fjalla frekar um það tímabil. Nú orðið er einn félaginn skipaður "kammermeistari" í upphafi göngu. Í því felst að bera létta skóflu og finna hentugan stað fyrir holu á áfangastöðum. Holan verður að vera í hvarfi frá tjaldbúðum og síðan er göngustaf stillt upp nálægt og hengir maður húfuna sína á stafinn þegar maður bregður sér í holuna til merkis um að hún sé upptekin. Eftir mikil afrek í holunni sáldrar maður sandi snyrtilega yfir.

Í holu vil ég hafa ró

helst þar ein vil vera

Skán með skóflu yfir dró

skítinn langa og svera

Á 5. og 6. degi er ástand göngumanna sérstakt. Andlega hliðin oftast fín, allir ánægðir með afrekin, gott að vita að maður gat þetta. Líkamlega ástandið er líka þokkalegt, flestir komnir yfir allar harðsperrur, formið bara gott og flestir sofna strax og lagst er útaf eftir átök dagsins, stundum þó með hljóðum (óhljóðum). Göngufæðið er kraftmikið og einnig hjálpar hreyfingin til þannig að meltingin er yfirleitt mjög svo "eðlileg". Hins vegar er ekki mikið verið að pjattast með fataskipti og þvottur á skrokknum svona almennt bíður þess að koma til byggða.

Flæki ég feitum lokkum

freta og lífsins nýt

andfúl í súrum sokkum

sofna og mikið hrýt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Ert þetta þinn skáldskapur Kristjana?  Skemmtilegar vísur, ertu s.s. liðtæk í kvæðabálka með kaldhæðnislegu ívafi, vantar alltaf svoleiðis fólk til að skemmta í afmælum og á árshátíðum.

Gíslína Erlendsdóttir, 8.9.2007 kl. 15:54

2 identicon

Ha, ha, ha, Kristjana það er eitthvað við þig, litlar flöskur og gönguferðir..

Ásdís (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 16:17

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Þetta er ekki skáldskapur, þetta er leikur að orðum, geri þetta stundum og kalla þetta "að leira".

Kristjana Bjarnadóttir, 8.9.2007 kl. 16:45

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

En merkileg tilviljun ......... það eru bæði stuðlar og höfuðstafir í "leirnum". 

Anna Einarsdóttir, 8.9.2007 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband