Breytingar

Við erum í eðli okkar óþolinmóð, við viljum breytingar og það strax. Við teljum oft að það velferðarkerfi sem við lifum við sé handónýtt og hafi verið það lengi. Þá er rétt að rifja upp eitthvað sem hefur breyst ótrúlega mikið, tja á ekki svo löngum tíma.

Mér finnst örstutt síðan ég eignaðist mitt fyrsta barn. Það var reyndar árið 1990. Kannski ekki örstutt en samt.......... Ég átti lögheimili í Reykjavík og fljótlega eftir fæðingu sótti ég um dagvistun  hjá borginni. Ég fyllti samviskusamlega inn á umsóknina að ég sækti um 4 tíma leikskólaplass, 6 tíma leikskólapláss og dagheimili (takið eftir mun á heitum þessara "vistunarúrræða"). Ég ætlaði sko svo sannarlega ekki að missa af lausu plássi. Einnig var spurt um fjölskylduhagi og það fyllti ég einnig út. Ég er gamaldags og við foreldrarnir höfðum látið pússa okkur löglega saman svo ég þurfti þarna að játa á mig hjónaband. Þegar ég afhenti umsóknina benti afgreiðslukonan mér á að ég gæti nú alveg sleppt því að sækja um dagheimili (heilsdagsvistun), þau væru bara fyrir einstæða foreldra (mæður).

Ég: "Já en ég ætla samt að sækja um"

Konan:"Þú gerir þér grein fyrir að það þýðir ekkert"

Ég: "Já en ég ætla samt að sækja um"

Konan skildi ekkert í þvergirðingshætti mínum og tók að lokum við umsókninni, henni fannst örugglega að hún væri að ráða mér heilt. Það borgaði sig alls ekki að reikna með neinu.

Ég var "heppin" fékk pláss á dagheimili ríkisspítala og mjög góða vistun fyrir barnið og svo aftur þegar fjölgun varð, frétti aldrei hvað varð um þessa umsókn. Vinahjón mín höfðu á þessum tíma einnig sótt um hjá borginni. Þegar barnið var um 3ja ára bauðst þeim 4 tíma leikskólapláss. Þau voru bæði í fullri vinnu en með mjög dýra gæslu. Þau veltu fyrir sér að taka þessa 4 tíma og keyra barnið á milli í hádeginu en halda inni umsókninni um 6 tíma vistunina. Nei, það var ekki hægt, ef þau tæku 4 tíma vistun, félli umsóknin um 6 tímana út!

Á þessum tíma reyndu borgaryfirvöld að segja okkur að þörfin fyrir dagvistun væri ekki mikil, það væru ekkert margir á biðlistunum! Skrítið, maður þurfti að vera hinn mesti þvergirðingur til að nenna að sækja um og ef maður tók fyrir neyð vistun sem manni hentaði ekki þá féllu aðrar umsóknir út.

Í dag heyrir maður unga foreldra kvarta ef barnið kemst ekki inn í heilsdagsvistun 2ja ára. Vissulega er það sjálfsögð þjónusta, en okkur er hollt og skylt að muna að þetta hefur ekki alltaf verið svona. Það er allt í lagi að rifja upp hverjir breyttu þessu í Reykjavík. Vonandi sjáum við breytingar á fleiri stöðum á komandi mánuðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Sammála, vonarstjarnan hangir enn uppi enda þing ekki komið saman. Bíð spennt.

Gíslína Erlendsdóttir, 6.9.2007 kl. 21:47

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir athugasemdir, gott að vita að það er einhver að lesa!

Kristjana Bjarnadóttir, 6.9.2007 kl. 21:54

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Fæðingarorlof hefur líka lengst úr 3 mánuðum í tja...... eru það ekki 6 mánuðir + feðraorlof ?  Allavega stór breyting þar á þessum tíma líka.

Anna Einarsdóttir, 6.9.2007 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband