Færsluflokkur: Vísindi og fræði
21.1.2008 | 18:33
Erfðabreytlileiki í norskum og íslenskum kúm
Fyrir nokkrum árum var mikil umræða meðal bænda um að fá inn fósturvísa frá Noregi í þeim tilgangi að fá inn í landið norskar kýr. Þær munu vera mun stærri en þær íslensku og gefa meiri afurðir per kú. Með þessu vildu fylgjendur norsku kúnna ná fram meiri hagkvæmni í rekstri kúabúa.
Umræðan manna á meðal og í fjölmiðlum fannst mér alltaf einkennast af tilfinningasemi og gat ég ómögulega áttað mig á rökum gegn þessum norsku kúm. Helst heyrðist að þá yrðu allar kýr rauðskjöldóttar í stað litrófsins sem einkennir íslensku kýrnar. Einnig heyrðist kenning um að mjólkin úr íslensku kúnum verndaði gegn sykursýki og vitnað til einhverrar fylgni sem ég lagði lítinn trúnað á.
Norsku kýrnar eru mun stærri en þær íslensku og íslensk fjós hönnuð með þær íslensku í huga. Því þyrftu bændur að leggja út í mikinn kostnað við breytingu á fjósum ef farið yrði út í að skipta um kúakyn. Þetta voru reyndar helstu rökin gegn þeim norsku fyrir utan þau tilfinningalegu sem ég rakti hér fyrr.
Nú um helgina átti ég spjall við systir mína og kúabóndann Laufey á Stakkhamri. Það var mjög svo fróðlegt og þar kom ýmislegt fram sem mér var ekki kunnugt um.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að íslenskar kýr hafa meiri erfðabreytileika en norska kúakynið og jafnvel einnig það svartskjöldótta sem ríkjandi er í Evrópu. Hvernig má þetta vera? Íslensku kýrnar eru fáar og því skyldi maður ætla að fjöldi kúa í öðrum stofnum hefði til að bera mun meiri breytileika en þær íslensku. Svarið liggur í því að sömu nautin hafa verið notuð aftur og aftur í Noregi og síðan jafnvel synir þeirra og síðan koll af kolli. Með því nærðu fram mikilli einsleitni, í einkennum (t.d. afurðum) og þar með er breytileikinn meðal einstaklinganna þurrkaður út. Á Íslandi hefur þetta ekki verið gert heldur hefur einungis mátt nota hvert naut ákveðið oft og síðan ekki meir. Þetta skýrir þann mikla breytileika sem finnst meðal íslenskra kúa, litbrigði, júgurgerð, bygging o.s.frv.
Hverju erum við bættari með mikinn breytileika? Jú það gefur meiri möguleika til meiri ræktunar og framþróunar, án breytileika er ekki hægt að rækta stofninn áfram. Ef einsleitni stofns er mikil er einnig mikil hætta á að upp komi gallar, í líkamsbyggingu, erfðasjúkdómar o.fl. Eftir að búið er að þurrka breytileikann út er erfitt að snúa við og rækta svona galla í burtu, það er takmarkað til af "góðum" genum til að bæta fyrir skaðann. Norska rauðskjöldótta kynið sem og evrópska svartskjöldótta hafa verið ræktuð mjög hratt og því alls ekki útséð um hvaða gallar kunna að leynast í því, gallar sem erfitt gæti verið að rækta úr því. Vegna hins mikla breytileika sem enn er meðal íslensku kúnna leynast miklir ræktunarmöguleikar, möguleikar til ræktunar á eiginleikum sem mögulega hafa hingað til ekki þótt skipta miklu máli.
Meðal íslenskra bænda eru enn uppi þær hugmyndir að æskilegt sé að taka inn norskar kýr. Vegna smæðar íslenska kúastofnsins er ekki raunhæft að vera með tvö aðskilin kyn og ef ákvörðun yrði tekin um að taka inn norskar kýr væri líklegt að íslenski stofninn hyrfi sem slíkur.
Það að íslenskar kýr hefðu þennan mikla breytileika sem væri dýrmætur frá ræktunarlegu sjónarhorni eru fyrstu vitrænu og faglegu rökin sem ég hef heyrt gegn því að taka upp norska kynið fyrir utan kostnaðinn við breytingu fjósa.
Í erfðafræðilegu tilliti er einsleitni stofna mjög varasöm, það er ekki að ástæðulausu sem systkinum er bannað að eigast og systkinabarnagiftingar taldar varasamar. Þessi umræddi breytileiki íslensku kúnna er því mun dýrmætari en margir gera sér grein fyrir. Hver sem ástæðan var fyrir þeirri ákvörðun að nota hvert naut einungis takmarkað, þá var það ótrúlega vitræn ákvörðun. Hver veit hvaða eiginleiki kúnna telst eftirsóknarverðastur eftir 10 ár? Það er ekki endilega magn mjólkur sem fæst frá hverjum grip sem endilega er eftirsóknarverðastur, efnainnihald skiptir máli, júgurlag, mjaltahraði og síðast en ekki síst skiptir máli hversu mikið kýrnar mjólka miðað við hvernig þær eru fóðraðar. Með hækkandi áburðarverði skiptir jafnvel meira máli að þær geti mjólkað vel ef þær eru að miklu leyti fóðraðar á gróffóðri í stað kjarnfóðurs.
Þessa vikuna er Laufey systir mín í Noregi að skoða norskar kýr, ásamt nokkrum íslensku bændum sem ólmir vilja flytja þær inn. Það verður spennandi að frétta hvers hún hefur orðið vísari í þeirri för.
Laufey heldur úti bloggsíðu og þar er hægt að fylgjast með búrekstrinum á Stakkhamri.
20.11.2007 | 18:12
Er þróun staðreynd eða skoðun
Er hægt að hafa mismunandi skoðun á staðreyndum raunvísindanna? Dæmi:
- 2+2=5.
- Jörðin er flöt.
- Sólin snýst í kringum jörðina.
Eru til mismunandi skoðanir á fullyrðingum sem þessum? Erum við tilbúin til að viðurkenna þessar fullyrðingar sem jafnréttháar skoðanir og það sem við teljum "vísindalega sannað"?
Hvaða hug berum við til menntakerfisins ef á vegi okkar verður fólk sem staðhæfir eitthvað af þeim atriðum sem ég taldi upp hér að ofan?
Þróun er í mínum huga staðreynd og hélt ég satt að segja að svo væri í huga flestra. Gilda einhver önnur viðhorf okkar á meðal gagnvart þeim raunvísindum en til þeirra sem ég taldi upp hér að ofan?
Hvernig kirkjan vill túlka sköpunarsöguna í ljósi þróunar er mér ekki ljóst. Ekki að það trufli mig eða mína sýn á lífið, heldur finnst mér ekki boðlegt að unglingar í upplýstu samfélagi nútímans líti á Adam og Evu sem sögupersónur í mannkynssögunni. Kristinfræði er kennd í grunnskólum á Íslandi, það er staðreynd. Í þessari kennslu er alls ekki alltaf ljóst hvenær er verið að kenna börnunum óstaðfestar sögusagnir með misvitrum boðskap (dæmi: sonarfórn Abrahams) eða staðreyndir mannkynssögunar.
Er það nema von að börnin geri sér ekki alltaf grein fyrir mörkunum þarna á milli fyrst það er ekki skýrt út fyrir þeim? Hver er tilgangurinn með svona kennslu?
Getur verið að upplýst nútíma samfélag telji það bara í lagi að hægt sé að hafa þá "skoðun" að sköpunarsagan eigi við rök að styðjast? Erum við virkilega svo hrædd við kirkjuna að við þorum ekki að andmæla þessu opinberlega?
Berum við meiri virðingu fyrir mismunandi "skoðunum" á staðreyndum raunvísindanna ef þær snúa að trúarlegum álitaefnum heldur en þeim atriðum sem talin voru upp í upphafi pistilsins?
18.11.2007 | 21:32
Umræða um líffæraflutninga óskast
Nýlega fjallaði ég um líffæraígræðslur. Nú kemur framhald af því og einskorða ég mig við nýrnaígræðslur. Vissuð þið að:
- Árlega eru framkvæmdar 7-10 nýrnaígræðslur á Íslandi.
- Miðað við höfðatölu eru framkvæmdar flestar nýrnaígræðslur úr lifandi gjöfum á Íslandi á öllum Norðurlöndum. Fæstar eru þær í Finnlandi.
- Finnar standa öðrum Norðurlandaþjóðum framar í fjölda ígræðslna úr látnum gjöfum.
Nánar um þetta. Í desember 2003 var framkvæmd á Landspítalanum fyrsta nýrnaígræðsla á Íslandi. Árlega eru framkvæmdar á Landspítalanum 7-10 nýrnaígræðslur. Áður voru þessar aðgerðir framkvæmdar erlendis, Kaupmannahöfn eða um tíma í Gautaborg. Fyrir utan stórkostlega bætt lífsgæði þega er um að ræða hagkvæma aðgerð þar sem nýtt starfhæft nýra losar sjúklinginn úr kostnaðarsamri meðferð og aðgerðin því fljót að "borga sig upp". Íslenskir nýrnasjúklingar sem ekki eiga kost á nýra úr lifandi gjafa eru á biðlista eftir nýra á ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn og ef um er að ræða ígræðslu þar teljast þeir með í þeirra tölum.
Nýra úr lifandi gjafa er líklegra til að endast heldur lengur en nýra úr látnum gjafa. Þægindi bæði þega og gjafa að eiga kost á þessari aðgerð hér heima eru ótvíræð. Mögulegt er að það geti að hluta skýrt hversu hátt hlutfall lifandi gjafa er hér á landi.
Umhugsunarvert er hins vegar að Íslendingar eru miðað við höfðatölu með heldur lágt hlutfall látinna líffæragjafa. Þó er erfitt er að draga miklar ályktanir um þetta þar sem um lágar tölur er að ræða árlega og sveiflur því miklar. Mögulegt er að þetta lága hlutfall skýrist af því að lítil umræða er manna á meðal um hver afstaða hvers og eins er til líffæraflutninga.
Hver er þín afstaða til líffæraflutninga úr látnum gjöfum? Veist þú hver afstaða þinna nánustu er?
Aftur hvet ég til þessarar umræðu og ekki síst út frá hugsuninni hvaða afstöðu við hefðum gagnvart þeim ef við eða náinn ættingi þyrfti á líffæri að halda.
15.11.2007 | 21:36
Líffæraígræðslur
Ýmsir sjúkdómar eru þess eðlis að líffæraígræðsla er eina von sjúklings. Um getur verið að ræða hjarta, lungu, lifur eða nýru. Nýrnaígræðslur njóta töluverðrar sérstöður þar sem sjúklingur á möguleika á meðferð í blóðskilun eða kviðskilun og einnig er mögulegt fyrir sjúklinginn að fá nýtt nýra úr lifandi gjafa, oftast systkini eða foreldri. Stundum er þetta ekki valkostur fyrir sjúklinginn og er hann þá settur á biðlista eftir nýra úr látnum gjafa. Líffæraígræðslur hjarta, lungna og lifra eru bara mögulegar úr látnum gjöfum.
Fyrir þá sjúklinga sem um ræðir er þetta oft á tíðum lífgjöf, a.m.k. fær sjúklingurinn ef vel tekst til umtalsvert aukin lífsgæði.
Sífellt fleiri sjúklingar eru á biðlista eftir líffærum en framboðið er takmarkað. Eitt af því sem takmarkar framboð er að ættingjar látins mögulegs líffæragjafa treysta sér ekki við dánarbeð að heimila líffæratöku. Þetta er mjög skiljanlegt sjónarmið ef ættingjarnir vita ekki hug hins látna og umræða um þessi atriði hefur aldrei farið fram. Því er upplýst umræða innan fjölskyldna um líffæragjafir úr látnum einstaklingum mikilvæg þannig að fólk viti um hvað málið snýst og sé kunnugt um hug sinna nánustu.
Þetta er kannski ekki skemmtilegasta umræðuefnið við kvöldverðarborðið en eigi að síður mikilvægt að ræða svona mál og afla sér upplýsinga ef fólk veit ekki um hvað málið snýst. Það er líka mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sem kemur að þessum málum hvetji til þessarar umræðu og gefi á opinberum vettvangi upplýsingar sem gagnast fólki til að taka vitræna ákvörðun.
Ég hvet til þessarar umræðu og bendi fólki á að nálgast þetta einnig frá sjónarhóli þeirra sjúklinga sem þurfa á líffærum að halda. Hver væri okkar hugur til líffæraígræðslna ef við sjálf eða náinn ættingi væri á slíkum biðlista?
14.10.2007 | 22:58
Erfðafræði fyrir 15 ára
Hvaða kröfur er eðlilegt að gera til skilnings 15 ára unglinga á erfðafræði? Hvaða kröfur gerum við til kennara þeirra? Hvaða kröfur gerum við til kennslubókanna?
Ég er með BSc próf í líffræði, MSc próf í heilbrigðisvísindum, erfðabreytileiki í genum tengdum ónæmiskerfinu og hjartasjúkdómar var viðfangsefni mastersverkefnisins. Ég vinn í Blóðbankanum við arfgerðagreiningu á vefjaflokkasameindum sem eru ákvörðuð af genum sem hafa mestan breytileika í öllu erfðamengi mannsins.
Á mannamáli: Ég tel mig hafa góða þekkingu á erfðafræði.
Ég geri þær kröfur til námsefnis í erfðafræði fyrir 15 ára unglinga í grunnskóla að ég skilji það án mikilla erfiðleika. En ég geri það ekki. Ég þarf að marglesa kennslubókina til að skilja hvað er verið að fara.
Dæmi:
"Frá sjónarhóli efnafræðinnar má segja að starf gena sé að gefa frumum líkamans skipanir um hvaða efni þær eigi að framleiða og hvernig og hvenær. Þessi tilteknu efni eru prótín. Flokkur prótína sem nefnast ensím ber ábyrgð á því að mynda litarefni augnanna sem sjálft er enn eitt prótín."
Hvar týnduð þið þræðinum? Ég gerði það í fyrstu línunni. Ég skal reyna að segja þetta á mannamáli:
"Genin geyma í sér uppskrift af próteinum sem fruman framleiðir. Próteinin eru byggingarefni líkamans."
Annað dæmi:
"Undantekning frá einföldustu erfðunum eru margfaldar genasamsætur, en þá koma fleiri en tvær genasamsætur til greina í tilteknu sæti, þótt hver einstaklingur sé aðeins með tvö gen, eitt frá hvoru foreldri".
Þetta heitir á mannamáli "breytileiki" og þýðir að margar mismunandi gerðir séu til af hverju geni.
Ég vinn við að arfgerðagreina (flokka) þau gen sem hafa mestan breytileika í genamengi mannsins, ég hef aldrei áður heyrt um "margfaldar genasamsætur".
Hvað er verið að kenna börnunum okkar? Væri ekki nær að einfalda hlutina en að gera þá flóknari en þeir raunverulega eru?