Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
14.9.2007 | 20:50
Fundið fé
Ég var búin að lofa smalasögum, ætla að standa við það. Reyndar eru það ekki síst myndirnar sem ég ætlaði að láta tala sínu máli, en hefur ekki tekist að setja inn, held áfram að reyna. Ég fór semsagt á fjall að leita fjár. Ekki í þeirri merkingu sem algengast er að við eltumst við. Ég leitaði lifandi jarmandi fjár. Fyrir ca 100 árum var þetta það fé sem lífið snerist um, nú hefur fjármálráðherra um annars konar fé að sýsla.
Smalamennskan hófst nyrst við Hraunsfjarðarvatn, mitt verkefni voru hlíðar Vatnsmúlans, framhjá Vatnafelli, vestan við Baulárvallavatn, yfir Urðarmúla, Hofstaðaháls, og niður að Hofstöðum, þrammað með þeim krókum sem blessuðum rollunum þóknaðist auk þess sem nauðsynlegt var að hlaupa upp á hvern hól sem í augsýn var til að sjá hvort einhverjar rollur leyndust þar á bak við. Þetta voru nú að mestu tíðindalausar smalamennskur, engar kolvitlausar skjátur sem létu hlaupa eftir sér upp um allar hlíðar. Nokkrar rollur sem voru í Vatnsmúlanum áttu líklega heima í Helgafellssveit og voru ekki alveg sáttar við að vera reknar í suðurátt. Dóttir mín 15 ára og vinkona hennar voru með og fengu þær það verkefni að rölta á eftir þeim. Ég hélt þetta yrði mjög svo huggulegt verkefni fyrir þær, en skjáturnar létu alveg finna fyrir sér og sóttu töluvert í vestur og máttu stelpurnar hafa sig allar við að missa þær ekki upp í Elliðahamarinn. Það eru þessi óvæntu hlíðahlaup sem gefa þessu skemmtigildið. Ég hef stundum kallað smalamennsku minn uppáhaldsratleik þar sem maður fær allt í senn; samvinnu (mikilvægt að vita hvar næsti maður er og hvað hann er að gera), not fyrir athyglisgáfu (eru rollur á bakvið hólinn), hlaup (elta rollurnar) og spennu (skyldi maður komast fyrir þær).
Það er sannarlega andlega endurnærandi að taka þátt í verkefni eins og smalamennsku, eiginlega eru þetta forréttind að fá að vera með. Maður horfir á landið með allt öðrum augum, í landslaginu leynast allt í einu kindur sem þarf að hóa á og ýta við heim á leið. Landið verður lifandi og maður tengist því á allt annan hátt, svo er það rollusálfræðin, það er alveg heil fræðigrein að reyna að átta sig á því hvað þær eru að hugsa. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá unglingsstelpurnar takast á við þetta. Það er ómetanlegt fyrir nútíma unglina úr borg að vera þátttakendur í mikilvægu verkefni og að þeirra framlag skipti virkilega máli, því miður hafa börn og unglingar í dag alltof fá tækifæri til þess. Það voru lúnir en ánægðir smalar sem að endingu þáðu veitingar af veisluborði á Hofstöðum að smalamennskum loknum. Þetta var reglulega ánægjulegur dagur.
Vinir og fjölskylda | Breytt 28.9.2007 kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.9.2007 | 23:22
Smalir
Það er erfitt að vera nýbúi. Nýbúar hafa ekki tileinkað sér orðaforða frumbyggjanna, það tekur oft langan tíma. Það þarf ekki að vera útlendingur til að kallast nýbúi, það er hægt að vera nýbúi í eigin landi, þá á ég við ef maður sest að í öðru menningarsamfélagi en maður er alinn upp í. Ég er nýbúi á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að hafa búið hér meira eða minna í 25 ár, fyrst skildi ég ekki tungumálið, hvernig átti að hegða sér eða yfirhöfuð nokkuð. Sama gildir um þá sem flytja í sveit og hafa ekki búið þar áður. Þeir eru nýbúar. Einn nýbúinn í Miklaholtshreppi sagði einu sinni: "Það eru byrjaðar smalir".
Í dag tók ég þátt í þessu fyrirbrigði "smalir" (kann ekki að begja þetta orð). Mig langar mikið að skrifa um þetta en mig skortir tíma. Ég er nefnilega að fara til Sotkkholms í fyrramálið og á alveg eftir að pakka og allt. Er smöluð upp að öxlum en skemmti mér vel. Nenni ómögulega að fara í þessa ferð, það eina bjarta við ferðina er að ég gisti hjá uppáhaldsfrænku minni sem býr í Stokkholmi. Þetta er vinnuferð og þeir sem halda að slíkar ferðir sé eitthvað sem flokkast megi undir fríðindi, þeir hafa misskilið eitthvað.
Ég lofa semsagt smalirasögum þegar ég kem heim aftur. Ekki veit ég nú hversu stór lesendahópur minn er en ég vildi endilega láta vita af fjarveru minni svo þið haldi ekki að ég sé búin að missa áhugann á þessu bloggi. Það er langt í það, ég á eftir að ausa úr miklum skálum skoðanna áður en ég hætti þessu. Ég lofa líka nokkrum sögum inn á milli.
Vinir og fjölskylda | Breytt 28.9.2007 kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.9.2007 | 19:02
Ferðalag
Í sumar sem leið fór ég í 6 daga gönguferð. Tjald og allar vistir á bakinu, maður verður nú að sýna smáhetjuskap. Svæðið var milli Skaftár og Hverfisfljóts, Laki og Lakagígar voru miðpunkturinn.
Í svona göngum kemur stundum fyrir að skrokkurinn minnir á sig, einn morguninn vaknaði ég með skelfilegan hausverk. Ég fálmaði í skraninu mínu eftir dópi og við tjaldskörina vissi ég af vatni í drykkjarjógúrtflösku til að skola dópinu niður. Ég teygði mig eftir flöskunni og tók vænan slurk................... þetta reyndist vera flaskan með strohinu! Mér snarskánaði höfuðverkurinn og var í fínu gönguformi þann daginn.
Vaknaði lamin lurkum
litaðist dópi þá eftir
með áfengi slokraði í slurkum
slæmskan mig lengur ei heftir
Úrgangsmál göngufólks var aðeins í fréttum í sumar. Gönguhópurinn minn var lengi lítt til fyrirmyndar í þeim efnum. Ég ætla ekki að fjalla frekar um það tímabil. Nú orðið er einn félaginn skipaður "kammermeistari" í upphafi göngu. Í því felst að bera létta skóflu og finna hentugan stað fyrir holu á áfangastöðum. Holan verður að vera í hvarfi frá tjaldbúðum og síðan er göngustaf stillt upp nálægt og hengir maður húfuna sína á stafinn þegar maður bregður sér í holuna til merkis um að hún sé upptekin. Eftir mikil afrek í holunni sáldrar maður sandi snyrtilega yfir.
Í holu vil ég hafa ró
helst þar ein vil vera
Skán með skóflu yfir dró
skítinn langa og svera
Á 5. og 6. degi er ástand göngumanna sérstakt. Andlega hliðin oftast fín, allir ánægðir með afrekin, gott að vita að maður gat þetta. Líkamlega ástandið er líka þokkalegt, flestir komnir yfir allar harðsperrur, formið bara gott og flestir sofna strax og lagst er útaf eftir átök dagsins, stundum þó með hljóðum (óhljóðum). Göngufæðið er kraftmikið og einnig hjálpar hreyfingin til þannig að meltingin er yfirleitt mjög svo "eðlileg". Hins vegar er ekki mikið verið að pjattast með fataskipti og þvottur á skrokknum svona almennt bíður þess að koma til byggða.
Flæki ég feitum lokkum
freta og lífsins nýt
andfúl í súrum sokkum
sofna og mikið hrýtVinir og fjölskylda | Breytt 29.9.2007 kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.9.2007 | 17:17
Vér mótmælum allir
Ég er spennt að sjá hvað snjóboltinn sem Gillí velti af stað verður stór, skyldu fjölmiðlar landsins ná að taka eftir þessu? Einhver hvíslaði að Stöð 2 hefði tekið eftir þessu. Ég mun fylgjast spennt með. Svona átak er einn af þessum dropum sem vonandi að endingu hola þann stein sem þarf. Eitt og sér skapar þetta ekki þá byltingu sem er nauðsynleg, en ef enginn gerir aldrei neitt þá ................... sitjum við bara í sama hjólfarinu.
Vinir og fjölskylda | Breytt 28.9.2007 kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.9.2007 | 08:32
Bloggvinur
Vinir og fjölskylda | Breytt 28.9.2007 kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)