Bláfjallahryggurinn

Ég hef svikist undan skýrslu um æfingar mínar. Ástæðan er ekki að ég hafi slegið slöku við, aðeins minniháttar bloggleti.

Laugardagur: Venjubundin laugardagsæfing með TKS, fyrst hljóp ég um 5km og síðan voru æfingar í tröppum fyrir neðan Seltjarnarneskirkju. Þó það teljist kannski ekki til hefðbundinnar líkamsræktar þá hamaðist ég í garðinum góðan hluta dagsins.

Sunnudagur: Ég nennti ómögulega í ræktina þar sem lokað var hér á nesinu, reyndar opið í Laugardalnum. Hljóp því um 5km og tók lóða- og magaæfingar heima.

Mánudagur: Göngu- og hlaupafélagi minn hún Þóra stóð fyrir gönguferð sem var alvöru æfing og prófraun á þrek og þol okkar sem ætlum á Miðfellstind. Við gengum upp Vífilsfellið og síðan eftir hryggnum sem mynda Bláfjöllin og komum niður skíðabrekkuna í Suðurgili. Til baka gengum við svo meðfram hryggnum að vestanverðu. Gangan var um 25km og töluverð hækkun í byrjun. Einnig var mikið um að við þyrftum að lækka okkur og hækka aftur. Við vorum um 8klst í ferðinni.

Bláfjallahryggurinn er mjög hrjóstugur, gróður af mjög skornum skammti. Móbergið í Vífilsfelli er skemmtilega vind- og vatnssorfið en svo sannarlega er Bláfjallasvæðið sjálft mun fallegra á veturna þegar snjór er yfir öllu. Ósköp virkaði skíðasvæðið sjálft eyðilegt svona snjólaust.

Ferðin í dag var í kílómetrum talið álíka löng og ferðin sem við fórum um Núpshlíðarháls fyrir 4 vikum en mun erfiðari vegna hæðabreytinga.

Eftir gönguna fyrir 4 vikum var ég gersamlega uppgefin. Óttaðist að ég kæmist ekki með á Miðfellstind. Í dag var raunin allt önnur. Mér leið vel allan tímann og í göngulok var ég alveg tilbúin í lengri göngu. Æfingarnar hafa því svo sannarlega skilað sér.

Ég hlakka orðið til að takast á við gönguna á Miðfellstind.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband