28.5.2009 | 22:37
Hugleiðing um hreyfingu og smápepp
Nú seinustu vikurnar hef ég gefið nánast daglega skýrslu um æfingar mínar sem allar miða að því takmarki að koma mér á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum.
Örugglega sýnist sitt hverjum um þessar æfingar mínar. Sumum finnst örugglega nóg um meðan öðrum finnst þetta bara léttvægt sprikl. Ég hleyp t.d. mun styttra og hægara en margir hlaupafélagar mínir og sumir þeirra mæta því til viðbótar nokkrum sinnum í viku í morgunleikfimi kl 6.20. Þennan veturinn hef ég látið það á móti mér.
Einnig er misjafnt hversu mikið fólk þarf að æfa sig fyrir svona ferð. Sumir eru einfaldlega þannig gerðir af náttúrunnar hendi að þeir eru léttir á sér og virðast ekkert þurfa að hafa fyrir því að vera í góðu formi. Á þetta sérstaklega við um þá sem yngri eru.
Sem unglingur var ég frekar hjassaleg. Valin seinast í öll lið sem kröfðust snerpu og þess að geta hlaupið. Ég forðaðist því frekar þess háttar hópleiki og afleiðingin var auðvitað minni hreyfing og meiri hjassaskapur.
Á vissan hátt er þetta mitt happ. Ég komst snemma að því að ég þyrfti að hafa fyrir því að vera í góðu formi. Gönguferðir og útivist hvers konar heillaði mig en til að njóta þess þurfti líkamsástand að vera þokkalegt. Því hef ég sinnt líkamsrækt og æfingum reglulega í mörg ár.
Hættan er nefnilega sú að þeir sem eru líkamlega vel á sig komnir á yngri árum sofni á verðinum, átti sig ekki á því að við eigum bara einn skrokk og til að hann virki vel þá þurfi að sinna honum.
Ég var heppin, ég áttaði mig á þessu snemma. En ég hef líka alltaf þurft að hafa mikið fyrir því að vera í nægilega góðu formi til að fylgja félögum mínum eftir á þau fjöll sem okkur dreymir um. Líkamsbygging mín er ekki heppileg fyrir þetta sport þar sem ég er frá náttúrunnar hendi lappastutt og kubbsleg.
Því verður trúin á að takmarkið náist sem og staðfesta við æfingarnar að vera til staðar. Þegar svo takmarkinu er náð verður ánægjan og stoltið öllu yfirsterkara.
Það skal að lokum játað að staðfesta dagsins var ekki meiri en svo að æfingar féllu niður.
Athugasemdir
Góð, Kristjana! Peppepp!
Eitthvað finnst mér ég kannast við þessa botna, einkanlega þann síðasta þótt hann sjái ég líklega sjaldnast.
Þóra
Þóra (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 00:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.