Langefst í huga

Yfirskrift þessarar síðu er "Efst í huga". Ég játa hér með að ég hef seinustu mánuði ekki verið sjálfri mér samkvæm og ekki skrifað það sem mér hefur verið langefst í huga.

Langefst í huga mér hefur verið grunur minn um stórfellt uppvask á erlendum peningum í íslenskum bönkum. Ég hef gengið ansi langt í að búa til samsæriskenningar í huganum og dottið í hug að misferlið gangi lengra inn í stjórnkerfið og embættismannakerfið en við viljum vita af. Ég hef verið svo heltekin af þessum hugleiðingum mínum að fjölskylda, vinir og vinnufélagar hafa miskunnarlaust flissað að mér, bæði leynt og ljóst. Ég hef látið það mér í léttu rúmi liggja og hugsað með mér: "vonandi hef ég rangt fyrir mér, en sjáum samt til".

Þeim fjölgar stöðugt sem viðurkenna að vera hættir að hlægja að mér.

Ég ítreka að alls óvíst er um sannleiksgildi þessa. Því hef ég ekki viljað gaspra mikið um þetta opinberlega.

Það voru mikil tíðindi og gleðileg að Eva Joly taki vel í að leggja okkur lið í rannsókn á efnahagsbrotum tengdum íslensku viðskiptalífi. Í fyrsta skiptið frá bankahruninu fékk ég trú á að mögulega náist í skottið á einhverjum sem bera ábyrgð á vafasömum viðskiptaháttum.

Ég horfði aftur á viðtalið við hana í Silfri Egils og það er algert skylduáhorf. Ég mæli með að áhorfendur hlusti ekki aðeins heldur lesi líka í svip hennar. Hún segir margt í viðtalinu en þar er líka margt ósagt. Veitið einnig athygli orðum hennar um að stjórnvöld í Þýskalandi og Bretlandi hafi stöðvað rannsóknir þrátt fyrir ótvíræð sönnunargögn um ólöglega gjörninga í viðskiptum. Stjórnkerfið og viðskiptalífið er samtvinnað og það er passað upp á að ekki sé gengið of nærri viðskiptajöfrunum. 

Það voru einnig mikil tíðindi að þriggja manna rannsóknanefnd um orsakir bankahrunsins óski eftir gögnum innan úr bönkunum um möguleg óeðlilega fyrirgreiðslu fjölmiðlamanna og stjórnmálamanna.

Kannski er von.

Það er tómt mál að tala um ró meðal íslensks almennings fyrr en þessi mál komast á hreint. Það má hins vegar búast við að þetta taki tíma og að gríðarlegir fjármunir hafi glatast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband