Sprungurnar dýpka og verða sýnilegar

Sprungurnar í sambandi stjórnarflokkanna verða æ meira áberandi. Hvernig eiga þessir flokkar að starfa áfram saman ef landsfundur Sjálfstæðismanna hafnar því að hefja aðildarviðræður að ESB? Ef það gerist er ljóst að flokkarnir stefna ekki í sömu átt. Það var því eðlilegt að Ingibjörg Sólrún segði það á mannamáli í útvarpsþætti nú fyrir jól að undir slíkum kringumstæðum væri kominn tími á kosningar.

Nú hefur Geir stungið upp á því að þjóðin kjósi um hvort fara eigi í aðildarviðræður. Mér virðist sú uppástunga vera tilkomin til að flokkurinn geti lifað án þess að taka formlega afstöðu til málsins. Þá þarf Geir ekki heldur að gera upp hug sinn.

Þessi leið er að mínu viti arfavitlaus, það nægir að kjósa um inngöngu í ESB þegar þar að kemur. Ef endilega þarf að kjósa um hvort við eigum hefja aðildarviðræður þá er eins gott að kjósa nýtt þing og nýja ríkisstjórn sem hafi þá óskorað umboð til að hefja þessa vegferð............eða gera eitthvað allt annað ef úrslit kosninganna verði á þann veg.

Það er þá sjálfsögð krafa okkar kjósenda að fá að vita hvað þetta eitthvað allt annað sé. Það hefur Geir enn ekki sagt okkur hvaða aðrir valkostir séu í boði. Það er ekki valkostur að gera ekki neitt.

Nú ætlar Sjálfstæðisflokkurinn með vandlætingu að segja okkur að samstarfsflokkurinn hafi stillt sér upp við vegg.

Fyrirgefið, Sjálfstæðisflokkurinn stillir sér þar sjálfur. Fórnarlambshlutverkið fer þessum flokki illa, hann hefur stjórnað alltof miklu, alltof lengi. Samfylkingin hefur verið ósýnileg og sofandi lagt blessun sína yfir gerðir Sjálfstæðisflokksins. Eða spilað viljug með? Veit ekki hvort er verra.

Nú er mál að linni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband