Illa upplýst fjölskylda í krísu

Gagnvart almenningi hafa stjórnvöld svipað hlutverk og foreldrar hafa gangvart börnum. Setja reglur, sjá um að farið sé eftir þeim og ef á bjátar viljum við eiga skjól í aðgerðum og því umhverfi sem stjórnvöld / foreldrar skapa þegnum / börnum sínum.

Þegar upp koma erfið mál innan fjölskyldna er mikilvægt að börnin séu uppýst um erfiðleikana. Að það sé talað við þau eins og viti bornar manneskjur en þau ekki hundsuð. Að það sé útskýrt fyrir þeim í hverju vandamálið sé fólgið og hvaða leiðir foreldrarnir sjái til lausnar. Jafnvel ef foreldrarnir eru alveg ráðalausir þá sé betra að segja eins og er, að ekki sé búið að finna lausn en talið upp hvaða möguleikar séu í stöðunni.

Mikilvægast er að gefa upplýsingar og málin séu rædd.

Nú eru mikil vandræði í fjölskyldunni Ísland. Foreldrar okkar fara ekki eftir því sem að ofan greinir. Börnin eru ekki upplýst og óvissan nagar þau. Óvissan er verri en skelfilegar staðreyndir.

Í vikunni birti Lára Hanna bloggvinkona mín færslu þar sem hún rekur viðtöl við Sigurbjörgu Árnadóttur. Hún bjó í Finnlandi þegar kreppan skall þar á á tíunda áratug seinustu aldar. Ég hvet ykkur til að skoða þessa færslu en enn frekar skora ég á ykkur að hlusta á tónspilarann hjá Láru Hönnu en þar er að finna viðtöl við Sigurbjörgu í útvarpsþáttum sl. daga. Best fannst mér viðtalið í morgunútvarpi rásar 2 þann 5.11.08. Það er þarna í tónspilaranum og tekur ekki langan tíma.

Sigurbjörg er berorð. Skefur ekki utan af því sem hún telur að geti orðið veruleiki okkar næstu árin. Skelfileg sýn.

Það merkilega er að eftir að hafa hlustað á þessar skelfilegu lýsingar leið mér betur. Þegar maður er viðbúinn því versta þá er hægt að horfa fram á við. Það er hins vegar ómögulegt þegar maður er sleginn algerri blindu og óvissu.

Ráðamenn verða að gefa okkur upplýsingar, jafnvel þó sýnin sé hrikaleg.

Á mótmælafundinum á Austurvelli í dag flutti Sigurbjörg stórgóða ræðu. Fundurinn sjálfur fékk enga athygli fjölmiðla. Lætin sem voru urðu að mestu eftir að fundinum var lokið og flest fólkið sem var á fundinum varð ekki vart við lætin. Fólkið sem sótti fundinn var venjulegt fjölskyldufólk sem er misboðið.

Ég hvet ykkur til að skoða lýsingar Salvarar og Láru Hönnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband