Fréttir

Þegar við lesum, hlustum eða horfum á fréttir reynum við eftir bestu getu að móttaka innihaldið. Við leiðum hins vegar sjaldnast hugann að því að það hvernig fréttin er sögð, hvar í röðinni hún er í fréttatímanum eða á hvaða síðu hún er. Slíkt er í sjálfu sér ekki minni frétt en fréttin sjálf. Líka það að frétt í einum fjölmiðli telst ekki frétt í öðrum fjölmiðli.

Nokkur dæmi:

Mál Birnu Einarsdóttur bankastjóra Glitnis hefur verið til umfjöllunar í DV en lítið sem ekkert í öðrum fjölmiðlum (man ekki eftir frétt í öðrum fjölmiðlum en gæti hafa misst af).

Ég hef áður rakið mismun á fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla og erlendra fjölmiðla á fjölda þátttakenda í mótmælum í miðbæ Reykjavíkur, sjá hér og hér:

Þeir fjölmiðlar sem ég fylgdist með sögðu að það hefðu verið 500-600 manns þarna. Ég fullyrði að þarna voru miklu fleiri. Aftenposten í Noregi segir að 2000 manns hafi komið. Sama gerðist fyrir viku, íslensku fjölmiðlarnir sögðu að 500 manns hefðu mætt, Reuters að meira en 2000 manns hefðu mætt.

Á laugardaginn var gerðist það svo að mbl.is birti frétt um mótmæli á Austurvelli kl 14.28. Sú frétt hljóðaði svona:

Útifundur stendur nú yfir á Austurvelli, en mótmælendur eru líklega í kringum eitt þúsund talsins. Hörður Torfason ávarpaði lýðinn fyrir skemmstu og hvatti fólk til þess að mæta á Austurvöll á hverjum laugardegi héðan í frá, lýsa óánægju sinni og öskra, þar til mannabreytingar verða í ríkisstjórn og í Seðlabanka.

Nú rétt í þessu var Sturla Jónsson vörubílstjóri, sem gert hefur garðinn frægan í mótmælum á þessu ári, að stíga í pontu.

Það sem er merkilegt við þetta er að Austurvöllur var afar fámennur kl 14.28 ég veit það því ég var stödd þar á þessum tíma. Mótmælagangan lagði af stað frá Hlemmi kl 14.00 og kom á Austurvöll um kl 14.40. Hörður Torfason tók til máls rétt fyrir kl 15.00 og Sturla ekki fyrr en um og eftir 15.30. Fréttin á mbl.is birtist eins og áður sagði kl 14.28.

Í kvöld fannst mér fréttamat ríkissjónvarpsins einnig einkennilegt. Fyrsta frétt hjá útvarpinu kl 18.00 og einnig á Stöð 2 (hér og hér) var náttúrulega niðurfelling skulda æðstu stjórnenda Kaupþings.

Þetta er hins vegar þriðja frétt í kvöldfréttum sjónvarpsins og ekki mikið gert úr þessu sem svo sannarlega var heitasta mál manna á meðal í dag og raunverulega stórmál ef rétt er að skuldir upp á 50 milljarða hafi verið felldar niður. Frétt um að Norðmenn ætli að lána okkur 80 milljarða þótti sjónvarpinu merkilegri en þetta og frétt um að lánsumsókn okkar hjá IMF verði tekin fyrir á föstudag einnig. Hm.....

Á tímum þegar efast er um hlutleysi fjölmiðla er ástæða til að velta því fyrir sér hvernig fréttir eru sagðar, hvaða fréttir eru sagðar og ekki síst hvaða fréttir eru ekki sagðar.

Að lokum vil ég benda á brilljant færslu Bylgju vinkonu minnar, sjá hér. Þar er svo sannarlega frétt sem er þess virði að vera sögð nokkrum sinnum þessa dagana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband