26.10.2008 | 22:33
Ógæfa íslenskra vinstri manna
Um langt árabil hefur ógæfa vinstri manna á Íslandi verið sú að leggja meiri áherslu á þau atriði sem þeir eru ósammála um en þau sem þeir geta sameinast um. Við erum nú með þrjá stjórnmálaflokka sem að meira eða minna leiti hafa það á stefnuskrá sinni að standa vörð um velferðarkerfið og auka jöfnuð þegnanna. Vegna sundrungar þessara afla hefur það verið hlutskipti þessara flokka að skiptast á að vera misnotuð hækja Sjálfstæðisflokksins.
Nú munu stuðningsmenn VG rísa upp á afturfæturna og vera mér ósammála. Vissulega er VG í þessu sambandi óspjölluð mey. En............ég minni hins vegar á að þegar Samfylkingin var stofnuð var uppi draumur um sameiningu félagshyggjuaflanna í stóran stjórnmálaflokk sem hefði burði til að hafa raunveruleg áhrif. Áður en formlega var farið að setja upp stefnuskrá klufu nokkrir aðilar sig út og stofnuðu VG. Ég minni einnig á að eftir seinustu kosningar útilokaði VG samstarf við Framsóknarflokk og seldi þar með Sjálfstæðisflokki sjálfdæmi um að velja sér hækju. VG getur því ekki skorast undan ábyrgð í þessu efni.
Ógæfa félagshyggjuaflanna á Íslandi er þyngri en tárum taki og bera þau að því leiti ábyrgð á hvernig komið er, þ.e. að hafa ekki sameinast um að standa saman um þau atriði sem þau eru sammála um og koma þannig í veg fyrir áratugalanga setu Sjálfstæðisflokksins að kjötkötlunum.
Þessi ógæfa vinstri manna kom enn fram um nýliðna helgi. Að sundra sárreiðum almenningi sem vildi koma saman til að mótmæla misnotkun á valdi, er ófyrirgefanlegt. Ég vil að vísu taka fram að hér er ég ekki að tala um nein stjórnmálaöfl heldur einstaklinga.
Á laugardag fyrir viku mætti ég á Austurvöll á mótmæli og fannst þau takast vel. Góðir ræðumenn og Hörður Torfa spilaði yfirvegað á undan og milli atriða. Fólk upplifði að það var ekki eitt með þær tilfinningar sem blunda í okkur öllum. Á þessum fundi var auglýst að aftur yrðu mótmæli á sama tíma kl 15.00 að viku liðinni. Ég hét sjálfri mér að gera það sem í mínu valdi stæði til að enn meiri fjöldi mætti þá. Ég fann fyrir stemningu fyrir þessum mótmælum og vissi strax um marga sem ætluðu að mæta, fólk sem venjulega tekur ekki þátt opinberum mótmælum en vildi nota þetta tækifæri til að sýna hug sinn.
Það vakti strax furðu mína að í öllum fréttatilkynningum um mótmæli seinasta laugardag var tekið fram að þau væru kl 16.00 eða öðrum tíma en tilkynnt var fyrir viku. Ég skannaði netið eins og ég gat og sannfærði mig um að þetta væri rétti tíminn, sendi út tölvupósta og birti færslu hér á síðunni minni.
Margir höfðu samband við mig og spurðu hvort þetta væri örugglega rétt, ég skannaði enn betur tilkynningar og fullyrti að svo væri.
Á laugardag kemur síðan í ljós að aðstandendur mótmælanna höfðu klofnað. Um var að ræða tvenn mótmæli. Hörður Torfa stóð fyrir sambærilegum mótmælum og fyrri laugardaginn kl 15.00 og Kolfinna Baldvinsdóttir stóð fyrir mótmælagöngu frá Austurvelli að ráðherrabústaðnum kl 16.00
Ég mætti fyrir misskilning í seinni mótmælin. Þau voru skólabókardæmi um hvernig ekki á að standa að svona löguðu. Lagt var af stað í gönguna það snemma að margir komu að auðum Austurvelli og þurftu að leita mótmælin uppi. Við ráðherrabústaðinn töluðu síðan Kolfinna, Arnþrúður Karlsdóttir, Ómar Ragnarsson og Jón Baldvin Hannibalsson. Þeirra frammistöðu verður best lýst með því að margir mótmælendur flýðu af hólmi.
Þegar Kolfinna var spurð um klofning mótmælanna svaraði hún að hún vissi ekki til að búið væri að einkavæða mótmæli. HALLÓ Kolfinna, það varst þú sjálf sem stóðst fyrir því.
Mikil er ábyrgð Kolfinnu, loksins þegar Íslendingar skriðu út úr hýði sínu og voru tilbúnir til að láta sjá sig í skipulögðum mótmælum þá voru þetta einkamótmæli Kolfinnu og fjölskyldu, stolin frá Herði Torfasyni, illa skipulögð og ræðurnar voru upphrópanir án innihalds. Það verður erfitt að ná upp sömu stemningu fyrir mótmælum næsta laugardag, jafnvel þó Kolfinna haldi sig víðs fjarri.
Ég var eiginlega fjúkandi reið þegar ég sneri heim til mín í gær. Enn reiðari varð ég þegar ég heyrði fréttaflutning af mótmælunum. Þeir fjölmiðlar sem ég fylgdist með sögðu að það hefðu verið 500-600 manns þarna. Ég fullyrði að þarna voru miklu fleiri. Aftenposten í Noregi segir að 2000 manns hafi komið. Sama gerðist fyrir viku, íslensku fjölmiðlarnir sögðu að 500 manns hefðu mætt, Reuters að meira en 2000 manns hefðu mætt.
Hvað er í gangi hérna?
Það er enn full ástæða til að mótmæla, þetta misræmi í upplýsingum íslenskra og erlendra fjölmiðla sannfæra mig um það. Einnig minni ég á að við erum enn með sömu seðlabankastjórnina, það mætti stundum halda að við séum búin að gleyma því. Enn er ekki ljóst hversu mikið af Icesave skuldunum lendir á börnum okkar og barnabörnum og þrátt fyrir yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar á föstudag um að erlendir óháðir aðilar muni fara yfir hvernig þessi ósköp gátu gerst er ég enn ekki sannfærð um að svo verði. Til að ég sannfærist verður Geir að kveða fastar að orði.
En Kolfinna Baldvinsdóttir: Haltu þig fjarri miðbæ Reykjavíkur nk. laugardag. Annars fara mótmælin að snúast um að þú eigir að halda þig frá mótmælum.
Sameinuð stöndum vér, sundraðir föllum vér.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heyr, heyr
Sigrún Jónsdóttir, 26.10.2008 kl. 23:37
Hvenær útilokaði VG samstarf við Framsóknarflokkinn? Ég man allavega ekki eftir því.
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 08:20
Óli Gneisti:
Steingrímur J. sagði það skýrt í umræðuþætti daginn eftir kosningar.
Kristjana Bjarnadóttir, 27.10.2008 kl. 08:35
Ástæða þess að ég hef aldrei getað hugsað mér að kjósa VG er vegna þess að þeir komu í veg fyrir sameingu félagshyggjufólks á landinu á sínum tíma. Steingrímur vegna sinna eigin prímadonnustæla (þoldi ekki að tapa fyrir konu) eyðilagði einstakt tækifæri sem fólk hafði árum og áratugum saman unnið að, sameina félagshyggju fólk. Ég gef líka ekki mikið fyrir "feminsískar" hugsjónir þess manns!
Mér fannst ömurlegt að klappa fyrir Arnþrúði Karlsdóttur og fékk kjánhroll þegar kjáninn hún Kolfinna sagði að við mættum bara að mótmæla einhverju...
Þetta er dæmigert vinstri manna sundurleysi og er enn eitt vopnið í höndum hægrifrjálshyggjunnar! Sad but true
Bylgja (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 09:17
Úff, já það var eiginlega skelfilegt að verða vitni að þessu og mikið er ég sammála þér Kristjana um gæðamun á ræðumönnum þessa tvo laugardaga. Egótrippin KB og AK ættu að hugsa sinn gang ég nefni ekki hina, enginn þeirra var góður.
Ásdís (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.