22.10.2008 | 20:03
Við megum ekki gleyma hvert öðru
Atburðir liðinna vikna eru okkur öllum ofarlega í huga. Þjóðin hefur verið rænd, steinsofandi um hábjartan dag með slökkt á öryggiskerfinu. Ég held meira að segja að útidyrahurðin hafi verið opin, ekki bara ólæst heldur galopin.
Það sem verra er, við vorum ekki bara rænd veraldlegum verðmætum, við vorum rænd sjálfsvirðingu og stolti. Við stöndum hnípin eftir og vitum ekki okkar rjúkandi ráð.
Við erum sorgmædd yfir þeim missi sem við höfum orðið fyrir.
Við erum öskureið við þá sem gerðu okkur þetta.
Og við erum hrædd því við vitum ekki hvað tekur við.
En við deilum öll þessum tilfinningum og við verðum að fá að tala um þær við þá sem okkur þykir vænt um. Við verðum líka að fá að tala ekki um þær, heldur bara ræða um hversdagslega hluti.
Nú er mikilvægt að rækta vini sína. Hringjast á, hittast fyrirvaralítið, kíkja óboðinn í kaffi og spjall.
Svilkona mín vakti mig upp með þetta. "Í vetur skulum við vera dugleg að hittast og bjóða hvert öðru oft í mat", sagði hún nýlega.
Þó það sé hægt að ræna sparifénu okkar, sjálfsvirðingu, bjartri framtíð barnanna og setja okkur í skuldafangelsi, þá er ekki hægt að ræna frá okkur vinum okkar og ættingjum.
Munum það og verum dugleg að rækta hvert annað.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:06 | Facebook
Athugasemdir
Sammála þessu, frænka. Sendi þér og þínum hér með góðar kveðjur þvert yfir landið.
Kveðja, Þorbjörg.
Þorbjörg (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 20:59
Mæltu kvenna heilust, Kristjana!
Lára Hanna Einarsdóttir, 22.10.2008 kl. 21:26
Ég skil ekkert í því afhverju hundarnir mínir geltu ekki þegar þessir ræningjar laumuðu sér inn tl mín
Góður pistill
Ragnheiður , 23.10.2008 kl. 10:10
Og ef veturinn verður eitthvað líkur þeim í fyrra getum við líka hlakkað til gönguskíðaferðanna okkar.
Ásdís (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 10:23
Takk fyrir að muna eftir mér. Var gaman að hitta þig. Gaman og re-freshing
Bylgja (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 20:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.