17.10.2008 | 23:51
Hagfræði eigin fjár
Ég hitti nýlega nokkra hlaupafélaga mína. "Ástandið" barst í tal, skuldir heimila og ekki síður fyrirtækja. Við vorum sérstaklega tvö sem supum hveljur yfir þessari skuldsetningu. Þá barst í tal sú kenning að fyrirtæki í rekstri ætti ekki að hafa mikla eiginfjárstöðu, með öðrum orðum, það ætti að vera skuldsett.
Á mannamáli þýðir þetta að ef verðgildi fyrirtækisins fellur vegna utanaðkomandi atburða er eiginfjárstaðan fljótt orðin neikvæð.
Ég þekki ekki annan rekstur en heimilisrekstur. Í slíkum rekstri þýðir þetta að maður á ekki fyrir skuldum. Ég hefði haldið að það væri til mikils vinnandi að borga skuldir hratt niður, einnig skuldir af íbúðahúsnæði, annars er maður raunverulega að leigja húsnæðið af bankanum. Vextir er ekkert annað en leiga af peningum.
Bankaspekingar eru búnir að fylla okkur af þessum fræðum, ekki geyma of mikla peninga í fyrirtækinu þínu, jafnvel ekki húsnæðinu þínu. Þar rýrna peningarnir bara fullyrti einn hlaupafélaginn.
Ég stóð bara eftir og gapti. Hvernig má þetta vera, hugsaði ég.
Ég er komin að niðurstöðu, þetta stenst einfaldlega ekki, fólk var einfaldlega platað. Þeir sem munu koma best út úr komandi mánuðum og árum eru þeir sem raunverulega eiga eitthvað í fyrirtækjum og húsnæði sem skráð er á þá.
Hinir elta bara skottið á sér í klikkuðum vaxtaafborgunum eða missa af skottinu.
ps. Ég er alltaf að heyra sögur af fjármálum fólks. Innanum eru sögur af fólki sem hefur keyrt um á gömlum lúnum bílum, leyft sér lítinn munað seinustu ár en.....................borgað niður lán, er jafnvel með nánast skuldlaust húsnæði, ungt fólk, ekki sérstaklega tekjuhátt. Þetta er hægt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já þetta er hægt! Það er fjári erfitt ábyggilega en mögulegt.
Ég hallast nú að því að vera sammála þér. Fyrirtæki jafnt sem heimili hljóta að vera betur sett ef eiginfjárstaðan er sterk. Annað meikar engan sens.
Hrönn Sigurðardóttir, 18.10.2008 kl. 07:43
Ákvörðun um fjármögnun fyrirtækja er m.a. tekin í ljósi þess hvað lánsfé kostar á hverjum tíma. Þegar lánsfé er ódýrt - lesist yen á lágum vöxtum - er auðvitað gott að taka lán. Ávöxtunarkrafa eigin fjár tekur mið af valkostum við að nota það í annað og þegar hægt er að fá háa vexti á Icesave reiknum á Gurnsey og ódýrt lán á Íslandi er dæmið fljótreiknað.
Erna Bjarnadóttir, 18.10.2008 kl. 14:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.