7.10.2008 | 17:32
Á hliðarlínunni
Á heimili mínu, líkt og mörgum orðum, var fjármálakreppan rædd yfir kvöldmatnum. Við ræddum þetta í bæði víðu og þröngu samhengi, orsök og mögulegar afleiðingar. Ég benti unga fólkinu jafnframt á að þetta væri söguleg stund og við myndum alltaf muna eftir þessum degi, hvar við vorum stödd þegar forsætisráðherra flutti ræðuna sína kl 16.00. Síðan eftir einhver ár þegar lífið væri aftur komið í svipaðar skorður og fennt í þessa atburði þá væri þetta eins og hver önnur hindrun í lífinu.
Ég minnti á að afi þeirra og amma hefðu átt heimili í Vestmannaeyjum í gosinu og þannig hefði þetta verið fyrir þeim, það hefði verið verkefni sem tekist hefði verið á við og þannig væri þetta núna.
Sonurinn, björgunarsveitarmaðurinn, benti hins vegar á eftirfarandi: "En það er allt annað, þegar náttúruhamfarir verða þá fer maður bara í björgunarsveitargallann til að gera eitthvað, núna getur maður ekkert gert, maður horfir bara ráðþrota á."
"Já", sagði ég, "en við hin sem ekki erum í björgunarsveit, við getum ósköp lítið gert í náttúruhamförum".
"Jú, það er hægt að gefa pening í safnanir handa þeim sem misstu allt sitt þegar það verða náttúruhamfarir, það er ekki hægt núna".
Það er nefnilega nokkuð til í þessu, við stöndum svolítið á hliðarlínunni og bíðum hvað verður og höfum ekki tök á að grípa inn í með nokkrum hætti. Það er vond tilfinning.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það sem við GETUM gert er að tjá skoðanir okkar, leggja þær í púkk þjóðarsálarinnar, hrópað ef svo ber undir og þrýst á að undirrót ástandsins komi upp á yfirborðið, öll mistökin verði dregin fram í dagsljósið. Aðeins þannig getum við komið í veg fyrir að þetta gerist aftur.
Íslendingar verða að veita stjórnvöldum miklu, miklu meira aðhald - alltaf, alls staðar - og krefjast þess að fá réttar upplýsingar á mannamáli sem allir skilja. Ekki bara fleygja allri skynsemi og gagnrýni út um gluggann og fagna sukkinu því þá er réttlætanlegt að taka þátt í því.
Það þarf að eiga sér stað meiriháttar hugarfarsbreyting hjá þjóðinni.
Lára Hanna Einarsdóttir, 7.10.2008 kl. 20:00
Takk Lára fyrir að minna mig á þetta og telja í mig kjarkinn, ég held áfram ótrauð og ég veit þú gerir það líka, ákafar en nokkru sinni.
Kristjana Bjarnadóttir, 7.10.2008 kl. 20:43
Á fjögurra ára fresti fáum við tækifæri til að segja skoðun okkar á stjórnvöldum. Margir nýta sér ekki einu sinni þann rétt. Það verður gaman að sjá hvað fólk segir næst þegar það fær þetta tækifæri.
Erna Bjarnadóttir, 7.10.2008 kl. 23:35
Mikið er ég sammála kæra vinkona. Ég er í þeirri "skemmtilegu" aðstöðu að vera margábyrgur fyrir þessu. Sveitarfélag mitt í London er með peninga í Icesave, þýðir líklega að skattar sveitarfélagsins hækki til að geta haldið uppi þjónustu. Samgöngukerfið mitt (London Underground) er með peninga í Icesave, þýðir líklega að fargjöld muni hækka. Breska ríkið þarf hugsanlega að bjarga innistæðum Icesave, þýðir að ég sem hluti af breska ríkinu þarf að gera það líka. Sem Íslendingur þá er búið að veðsetja framtíð sonar míns og rústa eftirlaunum 66 ára gamallar móður minnar. Samt kvarta ég ekki, ég er í miklu betri stöðu en flestir. Ég er til í að borga hærri skatta, en vil frekar að þeir fari í að byggja upp samfélagið heldur en að greiða skuldir sem menn, sem fljúga enn á einkaþotum, stofnuðu til. Verst er þó að vera á hliðarlínunni, því auðvitað vill maður leggja sitt af mörkum til að bjarga því sem bjargað verður.
Guðmundur Auðunsson, 9.10.2008 kl. 13:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.