29.9.2008 | 21:30
Röskva
Röskva, samtök félagshyggjufólks í Háskóla Íslands, er 20 ára á þessu ári. Þessara tímamóta minntist Röskvufólk á Borginni sl. laugardagskvöld.
Í stefnuskrá Röskvu sem samþykkt var á stofnfundi hennar fyrir 20 árum kemur orðið félagshyggja 18 sinnum fyrir. Það segir meira en mörg orð um fyrir hvað þetta félags stendur.
Þegar við stofnuðum Röskvu trúðum við því að félagshyggjufólk næði betri árangri í baráttu sinni fyrir hugsjónum sínum með því að sameina krafta sína frekar en að vinna að þeim í mörgum minni fylkingum. Ég trúi því enn og mig dreymir enn um samvinnu félagshyggjufólks á landsvísu.
Á dögum eins og í dag þegar færa má rök fyrir að frjálshyggjan hafi beðið ákveðið skipbrot, okkar sameiginlegu sjóðir taka yfir það sem talið var glæst fley útrásarliðs, þá langar mig að horfa örlítið lengra, dreyma. Dreyma um að einhvern tíma verði kosið á ný í þessu landi, að þjóðin hafi lært eitthvað um fyrir hvað hægri menn standa og að það sé full ástæða til að nefna orðið félagshyggja 18 sinnum í einni stefnuskrá. Félagshyggja þýðir nefnilega að við viljum öll njóta þess þegar vel gengur og bera saman ábyrgð þegar illa gengur, ekki bara að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið.
Í fréttablaðinu á laugardaginn stóð: "Sjallar óvelkomnir á Borgina". Það gildir líka fyrir þá stjórn sem ég vil sjá í þessu landi.
Sjallar eru óvelkomnir í Röskvustjórn.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:32 | Facebook
Athugasemdir
Frábært kvöld. Þurfti ekki annað en að rölta með rauðan fána framhjá stjórnarráðinu og eitt stykki banki var þjóðnýttur!
Guðmundur Auðunsson, 1.10.2008 kl. 16:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.