Dagbókarfærslur Matthíasar og bloggfærslur almúgans

Í umræðu manna á meðal heyrist stundum að bloggið sé ómerkilegur miðill, kjaftasögur nútímans. Vissulega er margt ritað og birt sem betur hefði verið ósagt látið, ýmislegt sem ekki á við rök að styðjast. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að blogg er þess eðlis og ber að lesa með slíkum fyrirvara.

Bloggið gerir okkur kleyft að birta samdægurs skoðanir okkar á mönnum og málefnum og erfiðara er fyrir t.d. stjórnmálamenn að þagga niður óæskilegar sögur. Miðillinn er algerlega óritskoðaður með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir.

Nú seinustu daga hafa verið birtar á netinu dagbókarfærslur fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins. Ekki ætla ég að leggja mat á sannleiksgildi þessara frásagna af tveggja manna tali, þær eru þó að mínu viti í besta falli upplifun annars aðilans. Það er þó ljóst að fyrir ekki meira en 10 árum höfðu ritstjórar þessa blaðs ótrúlegt vald yfir því um hvað umræðan í þjóðfélaginu snerist og bjuggu yfir upplýsingum langt umfram það sem eðlilegt var.

Ég held að með tilkomu netmiðla og bloggs sé slíkt óhugsandi í dag og er það vel. Bloggið gerir okkur sauðsvörtum almúganum kleyft að segja álit okkar á málefnum dagsins samdægurs, við þurfum engan að spyrja hvort skoðanir okkar séu einhverjum þóknanlegar. Mun erfiðara er að þagga niður umræðu sem almenningur vill halda á lofti og er það vel. Ritstjórar Morgunblaðsins hafa ekki lengur þau völd sem þeir virðast hafa haft og er það vel.

Getur verið að mest agnúist út í hugrenningar almúgans á blogginu, þeir sem gjarnan vildu sjá þá gömlu tíma aftur þegar Morgunblaðsritstjórarnir höfðu töglin og hagldirnar stjórnmálaumræðu samtímans?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Ég hef sökkt mér niður í skrif Matthíasar og skil ekki þetta fjaðrafok..Þetta er bráðskemmtilegt aflestrar og góður samtímaspegill.

Með reikning vegna forsetafrúar þá var hann einfaldlega ekki sendur á réttan stað og útfrá því spannst þessi misskilningur. Siglinganefnd TR átti að fá þetta sent en ekki ríkisstjórnin...og svo verður stormur svo löngu seinna, útaf engu.

Ragnheiður , 19.8.2008 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband