Um ísbjörninn, ég verð að fá að vera með

Ég verð að fá að vera með í ísbjarnarumræðunni, bloggheimar loga og allir hafa skoðun.

Bangsinn sem kom hér um daginn olli miklu fjaðrafoki eins og frægt er orðið og margir beturvitrungar vissu sko alveg hvernig átti að lúlla svona dýri í svefn. Svo átti bara að fá einhverja vélsmiðjuna til að útbúa gám og húrra bangsa svo úr landi, hvert var aukaatriði. Fæstir hugsuðu málið til enda.  Besta innleggið átti samt Bylgja vinkona mín og ég leyfi mér að benda á það hér.

Kostulegt er að mun lægra ris er á þessum sömu beturvitrungum í dag. Dýralæknirinn á Blönduósi sem taldi fyrir nokkrum dögum að vel hefði verið hægt að koma deyfilyfi í björninn með byssu segir í dag að hægt væri að gera það með deyfilyfi gegnum æti en slíkt væri bara tilraunastarfssemi. Ekki getur það samræmst dýravernd að vera með slíkar tilraunir.

Er ekki betra að hugsa áður en við rísum upp og gagnrýnum aðgerðir eins og þær hvernig brugðist var við fyrri ísbirninum?

Getur náttúruvernd snúist um björgunaraðgerðir á einstökum dýrum? Ég held ekki, jafnvel þó dýrin séu tvö með nokkurra daga millibili.

Náttúruvernd hlýtur að snúast um miklu víðtækari atriði. Náttúruvernd snýst miklu frekar um:

  • hvernig við umgöngumst takmarkaðar auðlindir jarðar
  • takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda

Ísbirnir í sínu náttúrulega umhverfi deyja eðlilegum dauðdaga. Það að fara út fyrir búsvæði sitt er feigðarflan fyrir ísbirni og líklegra en ekki að það leiði til dauða. Vafalaust týna margir lífi á sundi í íshafinu, tilviljun ein réði að þessir tveir sem hingað komu þetta árið lifðu af. Ísbjarnarstofninn er í nákvæmlega sömu stöðu þó þeim sé bjargað með miklum tilkostnaði og margir leggi sig í hættu við þá aðgerð.

Talandi um tilkostnað þá er það dæmi um auglýsingamennsku þegar auðmenn bjóðast til að kosta tiltækið. Hvað ætli vegi þyngst hjá viðkomandi auðmönnum, umhyggja fyrir einstökum ísbirni, umhyggja fyrir ísbjarnarstofninum í heild eða tækifæri til að tengja nafn sitt á jákvæðan hátt við málefni sem fólk ber heitar tilfinningar til?

Sjálfsagt er að setja upp viðbragðsáætlun, gleymum hins vegar ekki að eftir skoðun á öllum möguleikum getur sú áætlun hljóðað upp á mjög einfalda aðgerð:

Skjóta strax.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð tilbreyting að einhver bloggi af skynsemi um bjössa. Bylgja kom mér í gott skap og ég hló upphátt að þessari færslu hjá Dr. Gunna: http://www.this.is/drgunni/gerast.html

Splatterinn í Húsdýragarðinum gerði næstum út af við mig og ég hló upphátt fyrir framan skjáinn.

Ásdís (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 11:37

2 identicon

Það læðist að manni illur grunur um að dönsku sérfræðingarnir séu kannski ekki svo miklir sérfræðingar í að handsama ísbirni. Er ekki eitthvað á huldu um hvort þeir hafi yfirleitt nokkurntíma staðið í svona aðgerðum? Var maður svo ekki að lesa að það væri ekki ljóst hvað yrði um dýrið eftir að það verður fangað? Kannski á að senda það á heimaslóðir og kannski í dýragarð... Má ég þá heldur biðja um að það fái skjótan dauðdaga.

Mig langar að bæta hér við ábendingu um frábæra bók sem tengist efninu. Æskuár mín á Grænlandi eftir rithöfundinn og landkönnuðinn Peter Freuchen (1886-1957). Hann skrifaði af mikilli næmni og skilningi um Grænland og grænlendinga. Dóttir hans og Navarana Mequpaluk hét Pipaluk Freuchen. Eftir hana er mín uppáhalds barnabók; Ívik bjarndýrsbani gefin út á íslensku 1955.

Ásdís (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 12:05

3 identicon

Þessar fréttir hafa því miður nær alveg farið fram hjá mér því ég hef setið á fundi í allan dag í Brussel. Hefði sko rokið norður með búrið mitt og reddað málunumb

Las um greyið á mbl.is áðan og sagði evrópskum "collegum" mínum frá frá hinni merkilegu frétt að 2 ísbirnir hafi gengið á land á Íslandi með stuttu millibili. Þeim fannst þetta engin frétt því þau héldu að ísbirnir væru daglegt brauð á Íslandi og fannst eiginilega merkilegast að ég skildi telja þetta fréttnæmt

Bylgja (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 21:32

4 identicon

Hér er eitthvað sagt af viti. Það er gott fyrir útblástursmálaráðherra að koma   á svæðið í einkaflugvél og svo kemur stór þota með búrið frá Danmörku . Björninn á Þverárfjalli var með slæma ormasýkingu og þessir birnir skíta í búfjárhaga. Geta ormarnir borist í búfé   hér á landi ? Auðvitað á að skjóta þessi stórhættulegu dýr strax og hægt er og ekki vera með einhverja stjörnustæla eins og núna. Í þessum skrifuðu orðum heyri ég að Karl Skírnisson dýralæknir segir að litlar líkur séu á að ormarnir berist í búfé. 

Olgeir Engilbertsson (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband