Samræmt próf í náttúrufræði - svör - athugasemdir

Nú nýlega birti ég færslur þar sem ég gagnrýndi samræmt próf í náttúrufræði (hér og hér). Ég hef skoðað svör við spurningum í þessu prófi og hef ég athugasemdir sem snúa að svörum sem ég tel að séu annað hvort röng í útgefnum svörum námsmatsstofnunar eða að spurningin orki það mikils tvímælis að rétt hefði verið að fella hana út. Þessar athugasemdir snúa að 4 af 79 spurningum. Það eru 5% prófsins og jafngildir einkunn upp á 0,5. Það munar um minna í prófi sem þessu.

Hér að neðan birti ég spurningarnar og athugasemdir mínar ásamt "réttum" svörum skv námsmatsstofnun:

natt_32

Ef sett er upp reitatafla miðað við þær upplýsingar sem gefnar eru kemur í ljós að öll börnin verða arfblendin og þar sem lausir sneplar erfast með ríkjandi geni verða öll börnin með lausa snepla.

Þó öll þessi börn eignist maka sem er arfhreinn með víkjandi geni (fastir sneplar) er ekki hægt að fullyrða neitt um það að minnsta kosti helmingur barna þeirra verði með lausa snepla, aðeins er hægt að segja að helmingslíkur séu á að það gerist. Því getur svarmöguleiki I ekki verið réttur, rétt svar hlýtur því að vera H.

Hér er blandað saman líkum á að atburður gerist og vissu fyrir því að hann gerist. Á því er grundvallarmunur.

Námsmatsstofnun gefur upp að svarmöguleiki I sé sá rétti.

natt08_33 

Ég gerði athugasemd við þessa spurningu í bréfi sem ég sendi námsmatsstofnun. Á myndunum kemur ekkert fram sem gerist í jafnskiptingu en ekki í rýriskiptingu.

Myndirnar í prófspurningunni sýna það sem kallað er metafasi, anafasi og telofasi, þessir fasar eru bæði til í jafnskiptingu og rýriskiptingu, í rýriskiptingu koma þessir fasar fyrir tvisvar sinnum, seinna skiptið eru þeir eins og í jafnskiptingu. Kynfrumur myndast við rýriskiptingu og því eru K, L og M allt réttir svarmöguleikar.

Námsmatsstofnun gefur upp að K sé rétti svarmöguleikinn

natt_61

Skv svörum námsmatsstofnunar er fyrsti svarmöguleikinn réttur. Hann er að vísu auðkenndur með V í svörunum. Þetta er nær örugglega villa í svörunum og augljóslega er rétti svarmöguleikinn D. Það er hins vegar ótrúlega mikil handvömm að námsmatsstofnun birti svör með "klaufavillu".

natt08_69-70

Í bréfi mínu til námsmatsstofnunar gerði ég athugasemd við þessa spurningu.

Eftir mikla yfirlegu komst ég að því að til að spurningin gengi upp þyrftu efnin í upphafi að hafa verið tvö, bæði í föstu formi. Við 10°C færi annað efnið að bráðna og við 35°C gufar þetta sama efni upp. Eftir væri hitt efnið í föstu formi. Þetta er hins vegar mjög langsótt skýring og líklegast er að spurningin hafi ekki verið hugsuð til enda. (Sjá nánari pælingar varðandi þessa spurningu hér).

Námsmatsstofnun fellir út spurningu nr 70 en lætur spurningu nr 69 standa. Réttast hefði verið að fella báðar þessar spurningar út.

Námsmatsstofnun gefur upp að P sé réttur svarmöguleiki í spurningu 69.

Ég mun á næstu dögum skrifa námsmatsstofnun bréf með þessum athugasemdum. Umsóknarfrestur um skólavist í framhaldsskólum næsta vetur rennur út nú rétt eftir næstu helgi. Einkunnum verður því tæplega breytt en námsmatsstofnun hefur afrekað að gera lítið úr vinnu fjölda unglinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er með hreinum ólíkindum hvernig Námsmatsstofnun stendur að þessum hlutum og engu líkara en starfsfólk þar geri sér enga grein fyrir því hversu mikilvægur áfangi þessi próf eru á námsferlinum.

Eins og ég hef greint þér frá í pósti, þá tók dóttir mín samræmdu prófin úr tíunda bekk í vor.

Hún hefur alla tíð staðið sig með eindæmum vel í skóla, skorað hátt á öllum prófum og verið mjög jöfn í öllum fögum.  Skólaeinkunn hennar eftir veturinn er 8,0. Hún er því ein af þeim sem treystu sér fullkomlega til þess að fara í öll samræmdu prófin. Einkunnir hennar úr þeim.... ég ætla að láta mér nægja að segja að þær gefa nákvæmlega enga vísbendingu um stöðu hennar í raun og veru.

Ég er sammála því að framhaldsskólarnir verða að taka sig saman um að lækka lágmarkið inn á náttúrufræðibraut, bara til þess að ganga í takt við Námsmatsstofnun. 

Það er virkilega ljótt að vinna prófin með þeim hætti sem bent hefur verið á, ekki bara meingallaðar spurningar, heldur líka spurningar um hluti sem hreinlega eru ekki í námsefninu.

Þessar niðurstöður úr samræmdu prófunum eiga eftir að fylgja börnunum okkar það sem eftir er. Einkunnirnar munu alltaf verða til staðar í kerfinu til marks um þennan niðurlægjandi kafla á menntabrautinni.

Mundi (IP-tala skráð) 5.6.2008 kl. 20:16

2 Smámynd: Reynir Eyjólfsson

Já ég hef staðið mig vel í náttúrufræði og er með 8,5 í vetrareinkunn en fékk 5,5 á þessu prófi....er ekki viss um að ég komist inná náttúrufræðibraut þá...

Reynir Eyjólfsson, 6.6.2008 kl. 23:35

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir Mundi og Reynir, ég hef heyrt af fleiri svona dæmum.

Þessi dæmi og fleiri sýna að framhaldsskólar verða að taka tillit til skólaeinkunnar í náttúrfræði við inntöku nemenda. Ég hvet nemendur og foreldra til að hafa samband við námsráðgjafa skólanna og kanna málið, ég veit ekki hversu vel framhaldsskólar eru upplýstir um hve meingallað þetta próf var og því er nauðsynlegt að vekja athygli á þessu.

Það eru ekki margir sem hafa tíma, þekkingu og áhuga til að leggja þá vinnu sem þarf í að kryfja svona próf. Ég endurtek það sem ég hef sagt: Ég er með stúdentspróf af náttúrufræðibraut, BSc próf í líffræði og MSc próf í heilbrigðisvísindum með áherslu á erfðafræði og ónæmisfræði. Ég hef lesið allt námsefnið sem var fyrir þetta próf með tveggja ára millibili þegar ég hef hjálpað börnum mínum fyrir próf.

Kristjana Bjarnadóttir, 7.6.2008 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband