4.6.2008 | 21:06
Gallar í samræmdu prófi í náttúrufræði
Nú nýlega birti ég færslur (hér og hér) þar sem ég gagnrýni samræmt próf í náttúrufræði sem lagt var fyrir 10. bekk grunnskóla nú í vor. Í prófinu voru nokkrar meingallaðar spurningar, sumar beinlínis rangt hugsaðar og einnig margar spurningar sem voru alls ekki úr því efni sem var kennt. Ég álít þetta próf vanvirðingu við bæði nemendur og kennara sem hafa undanfarin ár lagt á sig mikla vinnu með það að markmiði að búa nemendur undir framhaldsskólanám.
Svör við prófspurningunum birtust á vef Námsmatsstofnunar í dag. Ég er að skoða þau og í stuttu máli þá hef ég athugasemdir við þau sem ég mun birta nú næstu daga.
Prófið sem lagt var fyrir í ár var að hluta til úr efni sem ekki var að finna í þeim kennslubókum sem notaðar voru í flestum skólum. Ég bendi á að þær kennslubækur sem notaðar voru í skólanum þar sem ég þekki best til voru samtals 7 og blaðsíðufjöldi þeirra var á bilinu 77-173 bls. Þætti mörgum nóg um slíkt námsefni í menntaskóla og jafnvel háskóla, hér erum við að tala um 15 ára grunnskólabörn.
Ég veit dæmi um börn sem alla tíð hafa staðið sig vel í náttúrufræði en komu illa út úr þessu prófi.
Til að komast inn á náttúrufræðibraut í framhaldsskólum er viðmiðið að nemandi hafi náð 5.0 í náttúrufræði. Í þessu prófi náðu 32% þeirra sem þreyttu prófið ekki þeirri einkunn. Þess ber að geta að aðeins 49% nemenda í öllum árganginum þreyttu þetta próf og má gera ráð fyrir að þar hafi verið um að ræða nemendur sem hafi haft það markmið að komast inn á náttúrufræðibraut og treystu sér til að ná tilskilinni einkunn.
Það er eðlileg krafa nemenda og foreldra að framhaldsskólar taki mið af því hversu prófið var illa samið og breyti þessari viðmiðun í ár. Að öðrum kosti eigum við það á hættu að margir úr þessum árgangi hætti við að læra raungreinar í framhaldsskóla og það væri mikill skaði.
Námsmatsstofnun ber mikla ábyrgð á því hvernig þessum börnum reiðir af. Það er óásættanlegt ef mörg börn upplifa sig vanmáttug gagnvart þessu fagi og hætta við frekara nám í raunvísindum.
Námsmatsstofnun skuldar nemendum, kennurum og foreldrum skýringar á því hvaða hugsun var lögð til grundvallar þessu prófi.
Er það markmið þessarar stofnunar að fækka þeim nemendum sem fara á náttúrufræðibrautir í framhaldsskóla?
Er það markmið þessarar stofnunar að brjóta niður sjálfsmynd nemenda?
Nemendur á suðvesturhorni stóðu sig best | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:20 | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála þér og vil reyndar taka svo djúpt í árina og segja að öll samræmdu prófin séu tímaskekkja.
Janus, 4.6.2008 kl. 21:26
Ég hef heyrt þetta sama um þetta próf og það hefur mikið verið talað um þetta í kring um mig.
Ég tók samræmdu prófin í fyrra og tók samfélagsfræðiprófið og það próf var alveg jafn mikið, afsakið orðbragðið, kjaftæði og náttúrufræðiprófið í ár! Ég skil ekki hvað Námsgagnastofnun hefur verið að pæla. Stofnunin fékk ótal kvartanir yfir samfélagsfræðiprófinu 2007, þurftu þeir þá að "bæta okkur það upp" með því að gera náttúrufræðiprófið í ár erfitt? Ég skil ekki alveg hernig það á að hjálpa okkur sem tókum þetta ótrúlega erfiða próf í fyrra.
Vildi bara aðeins fá að tjá mig,
Þórunn.
Þórunn (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 22:06
Sæl Kristjana.
Þakka þér kærlega fyrir frábæra umfjöllun um samræmda prófið í náttúrufræði. Það er alveg skelfilega illa samið og enda sýna niðurstöður úr prófinu mjög óeðlilega dreifingu einkunna og staðfesta að prófið hlýtur að hafa verið gallagripur.
Þar sem ég var starfandi líffræðikennari í framhaldsskóla til margra ára tel ég mig vita nokkuð um hvað málið snýst og þekki vel marga nemendur sem þreyttu prófið nú og er sammála um að margar spurningar eru gallaðar. Auðvtitað geta gallaðar spurningar komið á prófi, en svona margar í jafnmikilvægu prófi og þessu er mjög óeðlilegt.
En óháð því hversu illa tókst til með prófsamningu náttúrufræðiprófsins nú, þá var það tilfinning mín að eftir að nemendur fóru að taka samræmt próf í náttúrufræði þá hafi þekkingu þeirra í allavega líffræði alls ekki batnað. Það var kappkostað að komast yfir allt of mikið efni (skv. aðalnámskránni) á ómanneskjulega litlum tíma fyrir bæði nemendur og kennara grunnskólanna. Vegna pressu samræmdu prófana skiptir máli að komast yfir allt þetta efni - sem er svo prófað með krossaspurningum og þegar verst lætur slæmum krossaspurningum, eins og núna. Mikilvægast er því að læra utanbókar, en skilningur skiptir minna máli.
Því miður er það svo að eiginleg þekking og skilningur á náttúrufræði, sérstaklega hvað varðar mikilvæga þekkingu á náttúru og auðlindum Íslands fer að mínu mati aftur og ég gæti fjallað endalaust um hugsanlegar ástæður þess. En allavega er ljóst að samræmt próf eins og núna var lagt fyrir 10. bekk í náttúrufræði er ekki til þess fallið að ýta nemendum á þær brautir að læra allt það áhugaverða og mikilvæga sem felst í náttúrufræðinni. Takk fyrir að vekja athygli á málinu.
Kveðja, Rut K.
Rut Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 23:25
Janus, Þórunn og Rut, takk fyrir ykkar innlegg.
Ég veit að margir hafa verið að lesa færslurnar mínar og að margir eru mér sammála. Ég hef einnig fengið viðbrögð í tölvupósti (bubot.kristjana@gmail.com) og fagna því líka.
Ég held að það sé töluvert til í því sem Rut segir að of mikil áhersla sé lögð á að fara yfir mikið efni og það skilar sér illa í skilningi nemenda á efninu. Afleiðingin er léleg útkoma íslenskra ungmenna í PISA könunum í náttúrufræði.
Ég mun vonandi á morgun birta athugasemdir við svörin, það eru of margar spurningar sem beinlínis eru með röng svör skv svörum Námsmatsstofnunar.
Ég tek fram að minni eigin dóttur gekk frábærlega vel á þessu prófi. Athugasemdir mínar hafa ekkert með hennar frammistöðu að gera.
Kristjana Bjarnadóttir, 4.6.2008 kl. 23:58
Sæl Kristjana og þakka þér fyrir góða umfjöllun um prófið.
Ég er starfandi raungreinakennari í grunnskóla, í mínum skóla hefur verið val í 10. bekk í náttúrufræði í tvo tíma á viku + þrír skyldutímar og þeir hafa farið í valið sem hafa ætlað á náttúrfræðibraut. Í valinu hefur verið rifjað upp námsefni 8. 9. bekkja en tvær seinustu bækurnar kenndar í skyldutímunum. Núna er búið að fella samræmt próf niður í náttúrufræði og þá stendur maður frammi fyrir þeirri spurningu úr hvaða efni á að prófa næsta vor í skólaprófum, eiga skólaprófin að vera tvenns konar svo að framhaldskólarnir hafi viðmið en eftir hverju ætla framhaldskólarnir annars að fara þegar þeir velja inn á náttúrfræðibraut. Mér skilst að þeir sem á hana hafa farið hafi þurft að vera með 5 úr samræmdu prófi. Ég hringdi í Námsmatsstofnun og fékk þau svör að það væri búið að setja lög þar sem samræmt próf ínáttúrufræði væri fellt niður en engar reglugerðir og það væri eftir að setja svona 20, og enginn vissi neitt, einnig væru sumarfrí starfsfólks ráðuneytanna framundan svo að ekki væri líklegt að málin skýrðust neitt á næstunni. Það er því mjög bagalegt að vita ekki stefnuna í þessu áður en stundaskrá er gerð. Mér þætti líklegast að það væri prófað eftir aðalnámskrá og þar með úr öllu efninu, og þá eru 3 tímar á viku allt of lítið. Þetta er sem sagt í einhverju allsherjar klúðri, ég er einnig sammála því að námsefnið er þungt og of mikið, á móti kemur að það er búið að kenna suma þætti þess tvisvar sinnum, á yngsta stigi, miðstigi. Nýtt efni í náttúrufræði - Komdu og skoðaðu fyrir yngsta stig og Auðvitað efnið fyrir miðstig er góður undirbúningur fyrir unglingastigið.
Kveðja
Aðalheiður
Aðalheiður Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 8.6.2008 kl. 17:17
Sæl Aðalheiður
ég þakka fyrir viðbrögðin, það er ljóst að þarna eru ekki allir að vinna í takt.
Kristjana Bjarnadóttir, 9.6.2008 kl. 16:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.