Eggjandi geggjað á Þverártindseggjum

Frá því í janúar hef ég stefnt að göngu á Þverártindseggjar. Þverártindseggjar ganga suðaustan úr Vatnajökli ofan við Kálfafellsdal í Suðursveit.

Það er mér nauðsynlegt að hafa eitthvað svona til að stefna að til að halda mér við efnið í líkamsræktinni, annars er hætta á að ég leggist í sófann.

Við lögðum af stað úr Reykjavík á föstudag strax eftir vinnu. Veðurspáin var ekki spennandi en ef aðeins væri lagt af stað þegar veðurstofan spáir heiðríkju er ég hrædd um að lítið væri um gönguferðir. Á leiðinni austur var rigning og oft þungt yfir. Fyrir austan Skaftafell skall á með hávaðaroki og það tók í bílinn. Á Breiðamerkursandi var slydda. Það er ekki hægt að segja að okkur hafi fundist tilhugsinin um fjallgöngu spennandi í þessu veðri.

Við lögðum að stað klukkan 7 á laugardagsmorgun og heldur var þungt yfir öllum fjöllum en veðrið var milt og nánast logn.

Ferðasagan verður sögð hér að neðan, að miklu leyti í myndmáli.

IMG_5441 

Við fengum íslenska fjallaleiðsögumenn til að leiða okkur upp og hjá þeim er hægt að leigja allan búnað, ísaxir, brodda, belti og línur.

IMG_5444

Gamla settið með soninn í upphafi göngu. Þetta er fjórða árið í röð sem við förum í svona vorgöngu. Hvannadalshnjúkur, Eyjafjallajökull, Hrútfjallstindar og nú Þverártindseggjar. Sindri er það illa smitaður að hann er kominn í sitt eigið ferðafélag og hyggur á Hvannadalshnjúk um næstu helgi.

IMG_5454

Það er ekki ofsögum sagt að uppgangan hafi verið brött.

IMG_5461

Eftir töluvert pjakk var komið að hádegi og tími til að nesta sig. Bara blíða en lítið skyggni.

IMG_5464

Það sést kannski ekki vel á þessari mynd en við fórum þarna um mjög bratta hlíð, einn missti fótfestu og tók að renna. Fyrir neðan var snarbrattur snjóskafl og þar fyrir neðan urð og klettar. Tekið skal fram að viðkomandi náði að stoppa sig.

IMG_5467

Kerlingin vígaleg með ísexina. Ekkert að veðri, skyggni lítið.

IMG_5468

Snjórinn var æði þungur og oft sukkum við í hné. Stundum gáfu sporin sig og við sukkum í klof. Það tók stundum á að losa sig.

IMG_5482

Svo komum við að breiðri sprungu og þrítugur hamarinn við endann. Leiðsögumaðurinn, Leifur, arkaði óhikað að sprungunni, rétt eins og ekkert væri sjálfsagðara.

IMG_5483

En Friðrika er þriggja barna móðir, hún stoppaði við, leit upp og sagði: "Hvað svo?"

Í sprungunni var snjóbrú sem við fórum yfir. Leifur sagði að það væri tímarofi á henni, það væri bara spurning hvort við yrðum nógu snögg upp og niður aftur áður en hún færi.

Þegar yfir kom var Leifur spurður hvort það væri ekki miklu betra þarna fyrir ofan.

"Þetta er allt krosssprungið" var svarið.

 

IMG_5497

Á toppnum. Ég vek athygli á hitabrúsanum lengst til hægri. Við rákum okkur í hann eftir myndatökuna og hann rann niður snarbratta hlíðina, beint í sprungu. Við munum ekki sjá hann aftur.

IMG_5512

Þegar við komum upp var ekkert útsýni, en það birti aðeins. Við sáum inn á Vatnajökul og þarna eru Esjufjöll. Þangað langar mig gríðarlega mikið, annað hvort á gönguskíðum að vori eða gangandi um haust því gróðurfar er þar mjög sérstakt inni á jöklinum.

IMG_5509

Þegar við lögðum af stað niður birti enn meir og hér sést að við svindluðum aðeins, þarna eru hinar raunverulegu eggjar og ef við hefðum séð aðeins betur þegar við vorum á leiðinni upp þá hefðum við farið upp í skarðið sem sést á þessari mynd. Við eigum semsagt fullt erindi þarna aftur.

IMG_5527

Skyggnið hélst þokkalegt um stund.

IMG_5528

Og þá var ekki leiðinlegt að horfa niður á tindana sem virtust ógnarháir neðan frá séð.

IMG_5529

Svo var bara að pjakka niður í átt að sprungunni aftur og vona að snjóbrúin héldi.

IMG_5533

Það sést kannski ekki á þessari mynd, en þetta er bara snjóbrú á sprungunni. Leifur var spurður eftir á:

"Hvað hefðum við gert við ef brúin hefði farið áður en allir voru komnir yfir?"

Svarið var: "Það var önnur brú þarna, hún var bar miklu verri". Hvar sú brú var veit ég ekki.

IMG_5537

Svo dimmdi aðeins aftur.

IMG_5542

En það rofaði líka í gegn og við sáum niður.

IMG_5547

Eggjandi geggjað.

IMG_5548

Á þessari mynd sést gönguleiðin, læt það vera gestaþraut að giska hvar, sýni það betur seinna því ég þarf að föndra við myndina til þess.

IMG_5550

Þessi mynd sýnir líka förin, þarna fór ég. Skýring bíður betri tíma.

IMG_5558

Þetta eru leiðsögumennirnir okkar, Guðjón, Dagný, Hjörleifur og Leifur. Hjörleifur og Leifur stofnuðu fyrirtækið Íslenskir fjallaleiðsögumenn og þetta lið er landslið fjallaleiðsögumanna. Fagmenn fram í fingurgóma og maður treystir þeim fullkomlega.

Leiðin sem við fórum er ekki hefðbundin leið hjá þeim. Held að þeim hafi þótt gaman af því að fara eitthvað annað en það allra venjubundnasta.

Ég mæli með þessari leið, en ekki nema í fylgd með þeim sem þekkja til og kunna á aðstæður sem þessar.

Næsta ár stefnum við á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Greinilega flott ferð hjá þér Kristjana.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 12.5.2008 kl. 10:30

2 identicon

Hæ Kristjana, fann bloggið þitt fyrir tilviljun í gærkvöldi.  Takk kærlega fyrir samveruna um helgina, þetta var mögnuð ferð og frábær ferðalýsing hjá þér :) 

Var sjálf að ljúka við ferðasögu á mínu bloggi :)

Soffía TKS (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 14:04

3 identicon

Vá, ótrúlegar myndir!  Þið eruð líka ótrúlega dugleg að geta þetta :)

Þorbjörg (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 09:18

4 identicon

Ég sé að við höfum báðar fengið nokkuð út úr helginni. Þú komst á toppinn með toppmönnum og ég fékk umbeðna vætu á plönturnar og fræin í sveitinni. Flottar myndir Kristjana og vekur alltaf hjá manni löngun að reima á sig gönguskóna ( ég fékk nýja í staðinn fyrir þessa gölluðu).

Ásdís (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband