22.4.2008 | 18:07
Velferðarríkið Ísland
Það er okkur hollt að velta fyrir okkur að þau lífsgæði sem við búum við í dag eru svo langt í frá að vera sjálfsagður hlutur. Við þurfum að staldra við og gera okkur grein fyrir hvernig það velferðarkerfi sem við búum við varð til, hvaða fórnir voru færðar til að koma því á fót. Einnig hvaða hugsun lá þar að baki.
Ég rakst áðan á bloggfærslu sem mér fannst athygli verð í þessu samhengi. Leyfi mér að birta valin kafla úr henni:
Árni (Tryggvason) er tveimur árum yngri en hún mamma mín og ég er hálfsextugur í ár. Má þá reikna út hverrar kynslóðar Íslendinga hann er. Hans jafnaldrar plús mínus 10 ár byggðu upp þetta samfélag eins og við þekkjum það. Menn og konur af hans kynslóð bjuggu til verkalýðsfélögin, tryggðu okkur endanlega samningsrétt og verkfallsrétt. Þau gáfu okkur almannatryggingar og félagslegt heilbrigðiskerfi. Þau fórnuðu skammtímahagsmunum í launabaráttu fyrir burðuga lífseyrissjóði sem aðrar og reisulegri þjóðir skilja ekkert í að þær hafi ekki fundið upp. Þau bjuggu til samfélag þar sem okkur þykir öllum sjálfsagt að ungt fólk geti menntað sig í æðri skólum óðháð efnahag foreldranna.
Munum að það fólk sem kom þessu kerfi á fórnaði jafnvel tímabundnum launahækkunum til að koma þessu kerfi á.
Það sem mér finnst vera kjarninn í þessum orðum á svo sannarlega erindi til okkar í dag. Þegar því velferðarkerfi sem við búum við í dag var komið á var sú grundvallarhugsun höfð að leiðarljósi að jafna aðstöðumun fólks, óháð efnahag.
Lífeyrissjóðakerfið okkar, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, allt ber það þessari hugsun vitni. Nú hafa heyrst hugmyndir um skólagjöld í Háskóla Íslands, Landspítalinn ohf, svona mætti áfram telja. Sífellt oftar heyrir maður því hvíslað að þeir sem geti borgað fyrir sig eigi að njóta þess.
Erum við tilbúin til að varpa fyrir róða þeirri hugsun sem liggur til grundvallar íslenska velferðarkerfinu?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Facebook
Athugasemdir
Gleðilegt sumar og takk fyrir bloggveturinn
Margrét St Hafsteinsdóttir, 24.4.2008 kl. 13:16
Enn talarðu eins og út úr mínum munni, þetta er með ólíkindum. Ég er svo innilega sammála þessum hugleiðingum, bæði þínum og Péturs. Þessi frálshyggjustefna og frumskógarlögmálið sem henni fylgir er á góðri leið með að leggja velferðarkerfið í rúst og það er fullkomin vanvirðing við baráttuna og fórnirnar sem færðar voru fyrir mjög skömmu síðan.
Gleðilegt sumar, annars...
Lára Hanna Einarsdóttir, 24.4.2008 kl. 13:37
Heimur versnandi fer. Mér finnst einmitt að við eigum að leggja allan okkar metnað í að hlú vel að eldra fólki, þeim sem skópu okkur þau lífsgæði sem við búum við í dag.
Anna Einarsdóttir, 24.4.2008 kl. 16:25
Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn
Solla Guðjóns, 24.4.2008 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.