10.4.2008 | 20:47
Haftastefna og fjármálalæsi
Hér á árum áður ríkti haftastefna á Íslandi, innflutningur var takmarkaður, gjaldeyrir til að taka með til útlanda var takmarkaður, allt til að hamla því að við eyddum of miklu af dýrmætum gjaldeyri.
Á þessum tíma og enn lengur voru útlán banka takmörkuð og þurfti því að sannfæra misvitra bankastjóra um nauðsyn og skynsemi þeirra fjárfestinga sem fólk hugði á.
Það jaðrar við að ég vilji þessa tíma aftur, eða hluta af þessu. Undanfarin ár virðast ekki hafa verið nokkur takmörk hafa verið á vilja lánastofnana til að lána fólki fyrir óskynsamlegum fjárfestingum. Já, ég sagði óskynsamlega, set mig svo sannarlega í dómarasæti.
Í dag heyrði ég af ungum manni sem nýlega keypti 3 milljón króna bíl á 100% lánum. Nú er bíllinn klesstur. Ónýtur. Ekki veit ég hvernig tryggingar fara með svona tjón, ég veit að umferðarreglur voru brotnar. Vafalaust var sjálfsábyrgðin einhver.
Hvaða vit er í svona lánum? Það er ekki ólöglegt að vera fífl, það er heldur ekki ólöglegt að hafa fólk að fíflum, en mér finnst siðlaust hvernig bankar hafa ausið út neyslulánum.
Þetta heitir frelsi til að velja. Ef við notum það frelsi til að vera fífl þá er okkur það heimilt.
Ég óska eftir meiri kennslu í fjármálalæsi í íslenskum grunnskólum. Ég tel það muni reynast heilladrýgra veganesti út í lífið en vitneskjan um að DNA sé umritað í mRNA í kjarna frumunnar og sú uppskrift notuð til að búa til prótein í ríbósómum í umfrymi frumunnar. Ófáar svona langlokur læra blessuð börnin til samræmds próf í náttúrufræði en sömu börn hafa litla tilfinningu fyrir hvernig fara á með peninga.
Þegar aðgengi að lánsfé er eins og verið hefur undanfarin ár er ekki nema von að einhverjir misstígi sig. Raunhæf verkefni í fjármálum ætti að vera hluti af skyldunámi barnanna okkar, það er nefnilega ekki gefið að foreldrar séu færir um að veita þessa kennslu í öllum tilvikum. Það er heldur ekki víst að afkvæmin vilji láta foreldrana kenna sér þetta.
Hin leiðin er að taka upp skömmtunar og haftastefnu aftur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er einhver angi af þessu kenndur í lífsleikni. Það þarf samt að kenna þetta miklu betur. Tölurnar yfir ungt fólk sem fer illa fjárhagslega eru gríðarlega háar. Fólki eru afhent kreditkort og annað sem þau hafa ekki alveg skilning á.
Ragnheiður , 10.4.2008 kl. 21:34
Ég finn einhverja sammálatilfinningu, mjög sterka, þegar ég les þetta, Kristjana. Hvernig ætli geti staðið á því...
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.4.2008 kl. 01:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.