17.3.2008 | 22:16
Frjáls
Ég var að ljúka við bókina "Frjáls" sem er í senn sjálfsævisaga Ayaan Hirsi Ali og ádeila á Islam. Þetta er saga merkilegrar og sterkrar konu, hún elst upp í Sómalíu, Saudi-Arabíu, Eþíopíu en að mestum hluta í Kenya. Hún flýr síðan til Hollands, aflar sér menntunar þar og er kosin á hollenska þingið árið 2003.
Ayaan er alin upp í Islam, móðir hennar er mjög trúuð og sjálf gengur hún í gegnum tímabil þar sem hún les Kóraninn stíft og er í félagsskap með bókstafstrúuðum. Í bókinni kemur einnig sterkt fram hversu gríðarlega sterk tök ættarsamfélagið hefur á hverjum einstaklingi og takmarkar frelsi hans til ákvarðana á eigin lífi. Mest á þetta við um konur en einnig eru karlar bundnir höftum þessa samfélags. Trúin gengur út á að fylgja því sem hinn alvitri guð, Allah, vill og vegvísir þess er í Kóraninum. Ef einstaklingurinn brýtur gegn vilja Allah er voðinn vís, ekkert framhaldslíf og það sem verra er, helvíti bíður.
Í Kóraninum er margt fjandsamlegt konum. Ayaan er mjög hugleikið að vekja athygli á því. Ef kona þýðist ekki eiginmann sinn er honum leyfilegt að beita hana ofbeldi. Kona í þessu samfélagi getur ekki risið gegn þessu, þá er hún að rísa gegn sínum Guði, einnig sinni fjölskyldu og öllu samfélaginu. Hennar bíður aðeins útskúfun. Kynmök fyrir hjónaband eru óhugsandi. Af líffræðilegum ástæðum er mun auðveldara að sanna kynmök upp á konur, sérstaklega ef hún verður barnshafandi. Slíkarar konu bíður aðeins útskúfun. Konur eru einnig taldar bera ábyrgð á að tæla karlmenn og því er ábyrgðin fyrst og fremst þeirra, jafnvel þó þeim sé nauðgað. Í Kóraninum er einnig lagt fyrir að konur skuli hylja sig að öllu leiti nema hendur og andlit.
Þessi atriði, ofbeldi eiginmanns, ábyrgð kvenna á kynferðislegu ofbeldi karla og það að þær þyrftu að hylja sig, var kveikjan að stuttmynd sem Ayaan gerði með kvikmyndagerðarmanninum Theo van Gough. Mynd þessi vakti mikla andspyrnu meðal bókstafstrúarmanna og var Theo drepinn.
Í bókinni varpar Ayaan fram hvassri gagnrýni á að umburðarlyndi vesturlanda gagnvart Islam hafi gengið alltof langt. Samfélög muslima víða á vesturlöndum viðhaldi kúgun kvenna, stúlkubörn séu unnvörpum umskorin á eldhúsborðum í Hollandi og heimilisofbeldi í þessum samfélögum sé látið óáreitt. Trúarskólar kenni ekki vestræn gildi og menningu og fáfræði þriðja heimsins viðhaldist í þessum samfélögum þó fólkið sé flutt til vesturlanda.
Ayaan segir að Islam skipti fólki í tvo flokka: Þá sem aðhyllast trúna og hina. "Hinir" séu allir slæmir og allt að því réttdræpir. Það að fremja heiðursmorð er Allah þóknanlegt, morðinginn bjargar heiðri fjölskyldunnar og hlýtur náð Allah. Slíkt er það eftirsóknarvert að refsing vestræns samfélags skiptir engu.
Ayaan er hvöss í gagnrýni sinni. Ef ég segði það sem hún segir væri ég vænd um kynþáttahyggju. Gagnrýnin á hins vegar rétt á sér, hvernig geta vestræn samfélög setið hjá og leyft kúgun kvenna í sínum samfélögum, bara vegna þess að trúarbrögð viðkomandi leyfa það?
Gallinn við svona hvassa gagnrýni er að hún getur hleypt upp miklu hatri á múslimskum innflytjendum. Það er þessum samfélögum heldur ekki til góðs.
Hvað sem því líður þá hvet ég alla til að lesa bókina Frjáls eftir Ayaan Hirsi Ali. Hún er auðlesin, hrífandi og áhugaverð.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bækur, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta. Ég ætla svo sannarlega að lesa þessa bók og er í raun búin að ætla mér það lengi.
Þessi kona er hetja í mínum augum og hafa fáir barist við eins sterk öfl og hún.
Gott sem þú segir og svo satt: "hvernig geta vestræn samfélög setið hjá og leyft kúgun kvenna í sínum samfélögum, bara vegna þess að trúarbrögð viðkomandi leyfa það? "
Halla Rut , 17.3.2008 kl. 22:43
Þessi bók er búin að bíða í bunkanum við náttborðið síðan Hirsi Ali var hér á landi í haust. Það hlýtur að fara að koma að henni bráðum. Gott ef ég set hana ekki bara fremst í biðröðina núna...
Lára Hanna Einarsdóttir, 19.3.2008 kl. 00:12
Góð ádrepa Kristjana og undirstrikar mikilvægi þess að menn geri sterkan greinarmun á því að gagnrýna skoðanir (jafnvel lífsskoðanir) og árásir á fólk vegna þess að það sé eyrarmerkt ákveðnum skoðunum. Trúarbrögð eru skoðanir og sjálfsagt að gangrýna þau sem slík í frjálsu samfélagi. Þar er gersamlega óþoldandi að trúarbragðafífl komist upp með allskonar óskuna í nafni "trúarbragða" eða "hefða". Þó vissulega beri að virða trúleysi þá ber samfélaginu skilda að fletta ofan af trúarbragðakreddum af hvaða uppruna sem þær væri. Trúarbrögð eiga einungis að fá að starfa innan ramma laga. Eitt uppáhalds dæmi mitt eru kvenímamar í Kína. Þar fær íslam að starfa innan ákveðinna marka, en er ekki leyfilegt að mismuna fólki vegna kynferðis. Því hafa risið upp þar kvenímamar og þykir þeim múslimum sem þar búa það alveg sjálfsagt. Þau ólust jú upp við að það væri sjálfsagt.
Hins vegar virðist mér menn oft blanda saman réttmætri gagnrýni á trúarbrögð við merkimiða sem ákveðnu fólki eru gefnir."Við verðum að halda þessum múslimum í burtu af því að íslam eru svo vond trúarbrögð", o.sv.fr. Slíkt er auðvitað fjarstæða og er í raun ákveðin útgáfa af rasisma. Nú vill svo til að ég þekki marga einstaklinga af múslimskum bakgrunni vel. Sumir þeirra eru trúlausir, aðrir trúa en á frjálslyndan hátt. Ég á meira sameiginlegt með þessum einstaklingum en mörgum Íslendingum. Upplýsingin hefur grafið undan valdi kirkjunnar á vesturlöndum. Það tók langa baráttu. Íslam þarf líka að ganga í genum slíka upplýsingu. Það tekur tíma.
Guðmundur Auðunsson, 19.3.2008 kl. 10:48
Ég las þessa bók á ensku fyrir jól. Þetta er afar áhugaverð bók en óskiljanlegt er afhverju titill hennar er "Frjáls". Á ensku heitir bókin "Infidel" eða "Heiðingi". Sá titill undirstrikar að höfundurinn er einmitt heiðingi í augum annarra sem eru fæddir múslimar og það sem meira er réttdræp fyrir að ganga af trúnni. Aayan Hirsi Ali er í stöðugri lífshættu fyrir skoðanir sínar en jafnframt einn áhrifamesti einstaklingur samtímans.
Erna Bjarnadóttir, 19.3.2008 kl. 13:15
Takk fyrir góðar athugasemdir.
Það er mikið til í því sem þú segir Mummi, Islam þarf að ganga í gegnum svipað ferli og kristni og kirkjan hefur gert á vesturlöndum. Kirkjan ríkti með ægivaldi yfir fólki hér áður. Það sem ég saknaði hvað helst í umfjöllun Ayaan var áhersla á þetta eða a.m.k. með hvaða hætti hún sér að bæta megi islamska menningu sérstaklega með réttindi kvenna í huga.
Þýðingar á titlum eru oft einkennilegar. Höfundur bókar velur titil bókarinnar með það í huga hvaða áhrifum hann vill ná fram. Því er ég sammála að þessi þýðing fer ekki saman við það sem höfundur vildi ná fram með vali á honum. Ég þekki ekki vel orðið Infidel, hvaða meiningu það hefur sem slíkt. Ég er hins vegar ekki viss um að við höfum íslenskt orð sem nær yfir þetta hugtak. Skv. minni máltilfinningu hefur heiðingi og heiðni vísan í frumstæð trúarbrögð og trúleysingi er klunnalegt orð sem ekki er nothæft sem titill á bók.
Kristjana Bjarnadóttir, 19.3.2008 kl. 16:06
Skársta þýðingin á "infidel" er líklega villutrúarmaður. Er vinsælt hjá ofsatrúarmönnum að nota þann merkimiða á alla þá sem ekki samþykkja eitthvað ákveðið dogma sem þeir telja heilagt.
Guðmundur Auðunsson, 20.3.2008 kl. 12:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.