Nýtt Háskólasjúkrahús - Allir á hjóli

Í liðinni viku var kynnt fyrir starfsmönnum Landspítala áform um byggingu nýs Háskólasjúkrahúss. Ég ætla ekki að þreyta lesendur með endursögn af þeim fundi, aðeins að tiltaka það sem mér þótti sérkennilegast.

Farið var yfir staðarval sjúkrahússins í mörgum orðum. Hófst sú kynning með þeim orðum að staðsetningin milli Gömlu Hringbrautar og þeirrar nýju væri ekki bara "staðurinn" heldur "besti staðurinn". Lítum aðeins nánar á rökin fyrir þessu.

Nálægðin við Háskóla Íslands og einnig Háskóla Reykjavíkur þegar hann rís í Öskjuhlíðinni, er sögð skipta miklu máli. Hvað þýðir þetta samgöngulega séð? Jú, þetta eru þrír gríðarlega fjölmennir vinnustaðir. Höfuðborgarsvæðið er nokkurn veginn í laginu eins og trekt, þar sem Vesturbærinn og Seltjarnarnesið eru opið á trektinni. Rétt þar sem trektin byrjar að þrengjast þykir snjallt að byggja upp þessa gríðarstóru vinnustaði. Samgöngulega skil ég þetta ekki.

Lausn nefndarinnar um nýtt Háskólasjúkrahús liggur fyrir. Jú, gera aðgengi reiðjólafólks gott, góðar reiðhjólageymslur þar sem innangengt væri úr þeim inn í spítalann. Það skiptir auðvitað öllum máli fyrir reiðhjólafólk að geta gengið innandyra frá hjólageymslunni inn í spítalann! 

Þetta var kynnt á degi þegar töluverður snjór var á götum borgarinnar og meira að segja þeir vinnufélagar mínir sem eru harðastir í að hjóla í vinnuna skildu fáka sína eftir heima.

Þessi staðsetning spítalans gerir það að verkum að fjarlægð flestra starfsmanna frá heimili verður það mikil að það verður erfitt að fá þá til að hjóla í vinnuna.

Í kvöld sá ég útundan mér konu bisa við að koma reiðhjóli í bílinn sinn og þá áttaði ég mig á hvað nefndin átti raunverulega við. Það var auðvitað að  setja hjólið í skottið á bílnum og leggja bílnum í nágrenninu þar sem bílastæði fæst og hjóla þaðan beint inn í spítalann. Örugglega geta slíkir reiðhjólakappar mætt hreinir og stroknir í vinnuna eftir þennan hjólatúr í öllum veðrum.

(Leturgerð breytt  03.03.08)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hnaut líka um eitt annað í þessari frétt. Þetta mun verða hátæknisjúkrahús!! Hvað er þá spítalinn sem nú er starfræktur? lágtækni eða hvað? Og er ekki hátæknin tækin og starfsfólkið ? ekki húsið. Svo hefur verið í umræðunni að ekki tekst að manna stöður og legudeildir eru hálftómar því fáið vilja vinna þessi störf og biðlistar í aðgerðir af sömu ástæðum. Því er mér spurn. Ætli nýtt hús breyti þessu? Þarf ekki aðra hugsun? Ég tek undir með þér um staðsetninguna. Það hlýtur að vera til betri staður en að troða þessu húsabákni á frímerkisreit. Svo er ég viss um að á þessum fjölmennasta vinnustað landsins séu langflestir á bíl og það einn á hverjum bíl, eins og restin af þjóðinni.

Bryndís (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 09:16

2 identicon

Nei lausnin á þessu er auðvitað nýja íbúðahverfið í Vatnsmýrinni. Þar rís 10-15 þús. manna byggð og fólkið sem ætlar að vinna í Vatnsmýrinni getur sko vesgú flutt þangað líka. En bíddu við hvað á þá að gera við allt umfram húsnæðið sem nú þegar er búið að byggja víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og enginn getur keypt þvi bankarnir eru komnir á heljarþröm og hafa ekki efni á að lána nema gömlu okurlánin?

Þetta er ekki bölsýni, þetta er séð með raunsæisgleraugunum.

Hátæknisjúkrahús eða ekki hátæknisjúkrahús, vonandi batnar þjónustan við þegnana þó er ég ekki of bjartsýn á það.

Ásdís (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 11:39

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Já það er ýmislegt tengt þessari framkvæmd sem ég skil ekki. Nefni hér stutt nokkur atriði:

  1. staðsetning eins og áður er nefnt
  2. stærð, einn risastór vinnumarkaður fyrir heilbrigðisstarfsfólk, slíkt starfsfólk hefur litla möguleika á að skipta um vinnuveitanda. Launakjör starfsfólks Landspítala er í mörgum tilvikum lakari en sömu stétta á öðrum ríkisstofnunum. Ég veit að það gildir um hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara, náttúrufræðinga. Mögulega einnig fleiri stéttir. Í krafti stærðar og einokunar er hætt við að þessi láglaunastefna viðhaldist. Slíkt getur ekki verið heillavænlegt á hátæknisjúkrahúsi.
  3. Rekstarkostnaður, nógu illa gengur að reka Landspítalann í dag.
  4. Síðan síðast en ekki síst: Byggingakostnaður. Á Landspítalalóðinni eru í dag hús sem hefur verið byrjað á en einungis hluti kláraður. Ég nefni Læknagarð og K-byggingu. Getum við treyst því að þessi gríðarlega framkvæmd verði kláruð?

Til gamans set ég hér link á teikningu af nýum spítala. Vek athygli á að margar núverandi byggingar verða molaðar niður.

Kristjana Bjarnadóttir, 3.3.2008 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband