Aðbúnaður barna á heimavistakólum

Nú hefur verið gerð skýrsla um Breiðavíkurheimilið og í ljós hefur komið að þarna var víða pottur brotinn. Í framhaldi af því hefur vaknað umræða um aðbúnað á öðrum heimilum fyrir börn á þessum tíma. Sjálfsagt er að kanna með hvaða hætti það hefur verið.

Upp hefur einnig komið spurningin hvernig aðbúnaður barna á heimavistaskólum var á þessum tíma. Þar sem ég hef birt minningarbrot frá dvöl minni í einum slíkum skóla langar mig að leggja orð í belg.

Ég vil taka það fram að ég minnist þess ekki að skólastjóri, kennarar eða annað starfsfólk hafi vísvitandi með einum eða öðrum hætti komið illa fram við nemendur. Auðvitað fannst okkur margar reglur einkennilegar og við fengum stundum refsingar eða tiltal þegar þær voru brotnar, það er eðlilegur hluti starfssemi svona staða.

Hitt er svo annað mál að tilhögun starfsseminnar var barn síns tíma og endurspeglaði viðhorf sem heyra sögunni til. Hér nefni ég nokkur dæmi:

Fyrstu árin sem skólinn starfaði voru börn allt niður í 7 ára gömul höfð á heimavist 2 vikur í einu, kennt á laugardögum en frí á sunnudögum. Börnin voru eigi að síður í skólanum. Vegir og samgöngur voru með allt öðrum hætti en nú er, en ég hefði samt haldið að hægt hefði verið að stytta þennan tíma niður í viku mun fyrr en gert var. Þegar það var gert voru börnin sótt á sunnudögum heim og keyrð í skólann til að skólastarf gæti hafist snemma á mánudagsmorgnum. Þetta fyrirkomulag var í nokkur ár, þar til farið var að sækja börnin á mánudagsmorgnum. Í dag finnst mér mjög sérkennilegt að ástæða þótti til að keyra börnin í skólann rétt eftir miðjan dag á sunnudögum til að skóli gæti hafist kl 8 á mánudögum. Líklega tók það 2 klst að keyra þau börn sem áttu um lengstan veg að fara.

Ég man ekki eftir að starfsfólk skólans hefði mikil afskipti af yngstu börnunum. Þau sáu um að búa um rúmin sín (setja lakið á rúmið þegar þau komu í skólann) og allar sínar helstu daglegu athafnir. Ef einhver skældi af heimþrá þá var það bara þannig og ekkert mikið verið að velta sér upp úr því. Enda ekkert við því að gera. Ef einhver var veikur þá var hann bara veikur á sínu herbergi og herbergisfélagarnir sáu oftast um að sækja mat. Ég man ekki til að boðið hafi verið upp á aðra umönnun.

Börn í þessum skóla voru ekki frábrugðin öðrum með það að einelti þreifst ágætlega. Ég minnist ekki neinna aðgerða af skólans hálfu til að bregðast við því eða sporna við því. Líklega er þar tíðarandanum um að kenna, það var ekki búið að finna upp þetta hugtak á þessum tíma.

Mötuneytið var sérstakur kapítuli. Gikksháttur var ekki liðinn, sá sem ekki borðaði matinn sinn var einfaldlega svangur. Ekki flókið. Fjölbreytni var í lágmarki og engu hnikað á matseðli þrátt fyrir hávær mótmæli foreldra og barna. Lapþunni og brimsalti hafragrauturinn er mér þar ofarlega í huga.

Á þessum tíma var ekki í sama mæli litið til þarfa, langana og tilfinninga barna eins og gert er í dag. Mötuneytismaturinn endurspeglaði mikla sparsemi og skipulag komutíma barna skapaðist af erfiðum samgöngum en sömuleiðis litlu hugmyndaflugi í að breyta því eftir hvort það var haust og vor eða snjóþungur vetur. Líklega þótti það ekki skipta öllu máli hvort börnin sváfu 4 eða 5 nætur í skólanum. Fyrir lítið barn sem leið illa í skólanum gat þetta hins vegar skipt máli. Umhyggja og andlegt atlæti starfsfólks endurspeglaði tíðarandann, það var ekki venjan að sýna of mikla tilfinningasemi og umhyggju.

Sjálfri leið mér mjög vel þarna, leiddist aldrei og hlakkaði alltaf til að fara. Það segir hins vegar ekkert um líðan hinna. Margir áttu erfitt með að sofna á kvöldin og stundum var skælt. Þeir sem áttu fáa vini eða urðu fyrir aðkasti áttu ekki sjö dagana sæla.

Mér er ekki kunnugt um neitt sem flokka mætti sem slæma meðferð á börnum eða að starfsfólk hafi á nokkurn hátt misboðið börnunum. Fyrirkomulag starfsseminnar endurspeglaði hins vegar tíðaranda sem hefur sem betur fer breyst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Af því að það er saumaklúbbur í vikunni ætla ég ekki að hafa þetta innlegg langt en mér finnst það "ódýrt" að afgreiða það sem aflaga fór og sannarlega var eitthvað sem aflaga fór, það kemur fram í þessum pistli, sem "tíðaranda". Foreldrar þurftu að berjast nánast blóðugri baráttu fyrir að fá reykskynjara og lykil í glerkassa inn á heimavistarganga sem voru læstir utanfrá frá 11 á kvöldin til 8 á morgnana. Annað dæmi er um barn sem strauk úr skólanum og skólinn lét foreldrana ekki vita. Það þjónar engur tilgangi að velta sér upp úr þessu en auðvitað á heldur ekki að afsaka það.

Erna Bjarnadóttir, 26.2.2008 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband