Ég má kaupa mér kynlíf eftir vinnu í Reykjavík en ekki í Helsinki!

Nú á nú aldeilis að taka á siðferði opinberra starfsmanna. Þessi kynlífskaup í útlöndum ganga nú ekki mikið lengur. Nú skulu barasta allir skrifa upp á plagg að þeim sé óheimilt að kaupa sér kynlíf erlendis! Sjá nánar frétt á mbl.is.

Þrír þingmenn hafa lagt fyrir þingsályktunartillögu sem banna kynlífskaup opinberra starfsmanna í vinnuferðum erlendis.

Nú er það svo að ég er opinber starfsmaður. Það kemur fyrir að ég þarf sem slíkur að fara til útlanda, nú seinast í seinustu viku og helgi var ég í Helsinki. Ég er bara svona að velta fyrir mér framkvæmdinni á þessu. Fyrir hverja ferð þarf ég að fylla út pappíra, helst með nokkrum fyrirvara og fá uppáskrift, þá fyrst get ég skipulagt ferðina.

Ég sé fyrir mér fylgiskjal með öllum þessum pappírum:

Ég undirrituð Kristjana Bjarnadóttir geri mér grein fyrir að tilgangur ferðar þessarar er ekki sá að kaupa kynlíf til einkanota.

Eða:

Mér er ljóst að mér sem opinberum starfsmanni er ekki heimilt að kaupa kynlíf til einkanota

Er það boðlegt að láta fólk skrifa undir svona pappíra í hvert skipti sem farið er á vegum ríkisins í vinnutengdar ferðir? Hvað er verið að gefa í skyn um hugsanagang minn svona dagsdaglega?

Er það mikið vandamál að opinberir starfsmenn séu að versla sér kynlíf í útlöndum? Ég bara viðurkenni hér opinberlega að mér hefur ekki einu sinni dottið það í hug, og þó svo, hvað kemur það öðrum við en mínum ektamaka? Ef ég rek erindi mitt sómasamlega ætti vinnuveitanda að vera sama.

Af hverju er mér frekar bannað að kaupa vændi í útlöndum þegar ég er þar í vinnuferðum en bara svona á venjulegu föstudagskvöldi hér heima á Íslandi? Ég er ekki í vinnunni í útlöndum eftir að erindi mínu er lokið, fæ a.m.k. ekki greitt fyrir það, alveg sama hvað erindið dregst, yfirvinna í svona ferðum er ekki greidd.

Ferðastu á almennu farrými, um helgar (í frítíma), vertu í útlöndum á laugardögum til að ná enn ódýrara fargjaldi, bannað að kaupa kynlíf.

Á hvaða forsendum getur vinnuveitandi minn skipt sér af hvernig ég eyði mínum frítíma erlendis?

Eru flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu ekki aðeins að fara framúr sjálfum sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Það er kannski nauðsynlegt að setja siðareglur, ég bara óttast upptalningu á því sem ekki má, er þá allt leyfilegt sem ekki er á listanum?

  • Það má ekki pissa bak við hurð
  • Það má ekki deyja áfengisdauða í opinberum veislum

Hvort er betra að þetta sé á listanum og ljóst að þetta sé ekki leyft, kannski gleymdist þá eitthvað annað sem einhverjum verður á að brjóta af sér.

Eða að þetta sé ekki á listanum og dónarnir komist því upp með þetta, allt sem ekki er bannað er leyft?

Hvar er "common sense"?

Kristjana Bjarnadóttir, 5.2.2008 kl. 20:25

2 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Kristjana, ég er þér sammála að þetta frumvarp er bull. Það væri nær að snúa sér að málum sem skipta máli heldur en að berjast við vindmillur. Vinnuveitanda kemur ekkert við hvað menn gera í frítíma sínum, svo lengi sem það kemur ekki illa niður á starfi þeirra. Þetta á líka við um ferðir erlendis. Félagar mínir í VG eiga að hætta svona vitleysismálum og snúa sér að einhverju sem skiptir máli. Vissulega er mansal meiriháttar mál og vissulega ætti enginn að nota sér neyð slíkra einstaklinga með kaupi á kynlífsþjóustu. En ríkið á ekki að fara að skipta sér af hvað menn geri í einkalífinu (svo lengi sem það er innan lagaramma viðkomandi svæðis).

Guðmundur Auðunsson, 6.2.2008 kl. 11:50

3 identicon

...keyptir ÞÚ eitthvað í Finnlandi??

Auðvitað er þetta fáránlegt og algerlega óframkvæmanlegt. Einhverra hluta vegna fer maður að hugsa hvað gangi á í ferðum á vegum Alþingis sem er jafn fáránlegt

Bylgja (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 15:01

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Bylgja, ég keypti ekkert en..............Þarna var karl sem var alveg til í að bjóða mér í mat og................ekki veit ég hvað hékk á spýtunni. Svona þér að segja lét ég ekki á það reyna.

Í þessari þingsályktunartillögu er ekkert fjallað um hvort starfsfólki sé heimilt að selja sig, bara að það megi ekki kaupa þessa þjónustu.

Ég má semsagt ekki kaupa kynlíf í Helsinki en ég má selja það skv þessum reglum.

Svo er náttúrulega spurningin: um hvaða starfsmenn er verið að ræða. Er verið að tala um venjulega jóna eins og mig, eða bara þegar opinberar sendinefndir fara á milli landa. Ef svo þá hlýtur maður að spyrja sig, er þetta meira vandamál í slíkum ferðum en þegar ég fer að skoða rannsóknastofu í Uppsala? 

Hvar eru mörkin? 

Kristjana Bjarnadóttir, 6.2.2008 kl. 16:40

5 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Alveg sammála ykkur góðir hálsar, má Kristjana semsagt kaupa sér kynlíf suður í Kópavogi eða hvar nú annars það fæst keypt. Jeg þakka nú bara fyrir að vinna í karlaveldinu hér í höllinni - hér myndi engum detta svona vitleysa í hug....

Erna Bjarnadóttir, 6.2.2008 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband