25.11.2007 | 08:38
"More you buy, more you earn"
Í blöðum í gær var sagt frá því að stórar ferðatöskur væru uppseldar á Íslandi. Fólk verslar ferðatöskur og flykkist í innkaupaferðir til útlanda, Bandaríkin ku vera sérlega hagstæð. Þar kostar hver spjör helming af íslensku verði og í sérstökum "outlet" mörkuðum er munurinn enn meiri. Fólk telur margborga sig að taka leigubíl fyrir nokkra íslenska þúsundkalla á þessa outlet markaði til að versla enn meira. Sérstakar vogir eru á hótelum svo hægt sé að vigta öll herlegheitin áður en haldið er heim á leið. Margir taka unglinga með sér til að geta flutt enn eina ferðatöskuna með dýrmætum varningi til baka.
Vöruskortur á Íslandi hafði alveg farið framhjá mér þannig að líklega veldur verðmunur milli landanna ásókn í þessar verslunarferðir.
Ég kann illa hagfræði en í barnaskóla lærði ég að reikna. Ekki veit ég hvað flugmiði til Bandaríkjanna kostar, lausleg athugun á vef Icelandair gaf mér ca 65 þús að lágmarki, líklega er hann dýrari. Gisting í 2-3 nætur er tæplega undir 8 þús manninn. Miðað við 3 nætur erum við komin með 90 þús í ferðakostnað og gistingu, algert lágmark, ég hef ekki tiltekið annan ferðakostnað sem alltaf er til staðar þannig að óhætt er að reikna með lágmarkskostnaði kringum 100 þús. Ekki nefndi ég fæði, alls staðar þarf að borða en við vitum að það er dýrara á ferðalögum en heima hjá okkur. Ef við gerum ráð fyrir að helmingsmunur sé á öllum vörum þarf að versla fyrir a.m.k. 100 þús í Ameríku til að ferð fyrir einn borgi sig, miðað við helmings verðmun þar og hér. Þetta gera 200 þús kr verslunarferð hér heima. Athugið þetta er lágmarks verslun á mann til að ferðin borgi sig.
En þá kemur að grundvallarspurningunni: Er ekki nauðsynlegt að varan sem keypt er verði notuð til að hægt sé að tala um ágóða? Að við höfum virkilega þurft á þessu að halda? Get ég grætt á því að kaupa ódýra tösku þó ég eigi aðra vel nothæfa og þurfi á engan hátt á nýrri að halda?
"More you buy, more you earn" stóð á auglýsingaskilti í risamolli einhvers staðar í Ameríku.
Einhvern veginn finnst mér Íslendingar taka þessu of bókstaflega. Ég held að ágóðinn felist frekar í því að kaupa bara það sem maður þarf.
Þörfin er svo skilgreiningaratriði og ekki til umföllunar í dag.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:44 | Facebook
Athugasemdir
Ég skil alveg hvað þú ert að fara, en verðmunur á sumum vörum er slíkur að það hreinlega borgar sig að fara stundum í verslunarferðir. Til dæmis ef þú ætlar að versla fartölvu. Ég veit um tvo menn sem keyptu sambærilegar fartölvur, annar keypti sína tölvu í Reykjavík á 250.000 krónur og nokkrum mánuðum síðar keypti hinn sambærilega tölvu á 80.000 krónur í Bandaríkjunum. Munurinn 170.000 krónur.
Ég get nefnt fleiri dæmi. Ég keypti eitt sinn íþróttaskó í Bandaríkjunum á tæplega 4.000 krónur, fljótlega eftir að ég kom heim sá ég nákvæmlega eins skó á 16.000 krónur. Þú getur keypt Levi's gallabuxur í Bandaríkjunm á 2.000 krónur, ég held að þær kosti varla undir 15.000 krónum hér. Ef þú hefur einhver "dýr" áhugamál þá má spara mikið með því að versla í Bandaríkjunum. Til dæmis aukahluti í bíla og mótorhjól. Þá þekki ég einn áhugakvikmyndagerðarmann, hann fer reglulega erlendis til að kaupa aukahluti fyrir kvikmyndagerðina og stórsparar á því.
Aftur á móti er ég sammála þér að ég held að stór hluti af því fólki sem fer í verslunarferðir séu ekki að græða á ferðunum og ef eitthvað er þá erfrekar tap á ferðunum.
Mummi Guð, 25.11.2007 kl. 10:49
Halló Kristjana.
Ég var að koma frá Bandaríkjunum fyrir þremur vikum. 43.000 kostaði flug og gisting matur er mjög ódýr og einnig leigubílarnir. Bara smá dæmi ég keypti mér góða myndavél sem kostar hér heima á milli 60 og 70 þúsund ég borgaði 23 þús. fyrir hana úti. Ég veit um fólk sem hefur algjörlega misst stjórn á öllu og þurft að borga háar upphæðir í tollinum hér heima. Ég frétti af einni sem verslaði fyrir hálfa milljón á þremur dögum, þarna er eitthvað verulega mikið að. Kveðja Þórdís Jónasdóttir
Þórdís (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 16:57
Hæ, já ég keypti tvennar Levi's gallabuxur í Ameríku um daginn á 1800 kr stykki og flugmiðinn kostaði 45.000 kall til Minneapolis og til baka frá Boston. Engin spurning það þarf ekki að versla í mjög stórar töskur og jafnvel borga toll af hlutum sem munar miklu á í verði til að fá verulegan sparnað. Þannig er nú bara það. :)
Erna (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 09:17
Mikið rosalega er ég ánægð með þessi komment
Þú komst inn samviskubiti hjá mér Mér finnst nefnilega svo gaman að fara í búðir...................en hef yfirleitt enga "þörf" fyrir það sem ég kaupi en kaupi það nú samt.
Bylgja (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 10:14
Líklega hef ég ekki lagst í nógu góða "rannsóknavinnu" fyrir þennan pistil, flugið ódýrara og verðmunur meiri. Ég held samt þið hafið náð punktinum. Það er sjálfsagður hlutur að versla eitthvað smálegt sem maður með góðu móti getur talið sér trú um að mann vanti, það er þetta gengdarlausa hamstur sem Þórdís kemur inn á sem ég er að pota í. Mig grunar að það sé dáltið algengt. Svo er það spurningin hvort ánægjan af því að ferðast til annarra landa felist í því að skoða verslanir, það er það vafalaust hjá mörgum, ég verð bara þreytt við tilhugsunina.
Kristjana Bjarnadóttir, 26.11.2007 kl. 10:28
Sem betur fer Kristjana mín er mannfólkið margbreytilegt og hefur gaman af hinu og þessu, og alls ekki allir því sama. Samt er það þó þannig að allt er það jafn merkilegt, hvort sem kíkt er í búðir, kíkt á virkjanir, kíkt á söfn, kíkt á fornmynjar eða kíkt á tónleika. Ég var með henni systir minni í Bandaríkjahreppi og t.d. bara það að hafa farið saman þangað er mjög gaman.
Bryndís (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 12:56
Já ég er sammála þér Bryndís að góður félagsskapur á ferðalögum skiptir hér miklu máli. Ég fór t.d. í mjög ánægjulega búðaferð með þrem vinkonum í haust. Það var ekkert mál þó ekki hefðu allir úthald allan daginn í búðum það var svo margt annað að skoða.
Annars verð ég að bæta við umræðuna um verðmun. Ég eignaðist nefnilega digital SLR myndavél núna nýlega, semsagt með lausum linsum. Nú get ég notað á hana linsurnar af gömlu filmuvélinni minni. Vélin kostar hér með einni linsu 89.000 en í NY kostar hún um 45.000. Ég greiddi af henni skatta og skyldur og það voru kr. 10.000, kem samt út í plús.
Ásdís (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 15:09
Ég náði alveg punktinum og var bara að snúa út úr af einskærum prakkaraskap og móral . Játa það alveg hiklaust hér og nú að ég fell stundum fyrir þessu "The more I buy the more I earn".
Bylgja (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 15:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.