20.11.2007 | 18:12
Er þróun staðreynd eða skoðun
Er hægt að hafa mismunandi skoðun á staðreyndum raunvísindanna? Dæmi:
- 2+2=5.
- Jörðin er flöt.
- Sólin snýst í kringum jörðina.
Eru til mismunandi skoðanir á fullyrðingum sem þessum? Erum við tilbúin til að viðurkenna þessar fullyrðingar sem jafnréttháar skoðanir og það sem við teljum "vísindalega sannað"?
Hvaða hug berum við til menntakerfisins ef á vegi okkar verður fólk sem staðhæfir eitthvað af þeim atriðum sem ég taldi upp hér að ofan?
Þróun er í mínum huga staðreynd og hélt ég satt að segja að svo væri í huga flestra. Gilda einhver önnur viðhorf okkar á meðal gagnvart þeim raunvísindum en til þeirra sem ég taldi upp hér að ofan?
Hvernig kirkjan vill túlka sköpunarsöguna í ljósi þróunar er mér ekki ljóst. Ekki að það trufli mig eða mína sýn á lífið, heldur finnst mér ekki boðlegt að unglingar í upplýstu samfélagi nútímans líti á Adam og Evu sem sögupersónur í mannkynssögunni. Kristinfræði er kennd í grunnskólum á Íslandi, það er staðreynd. Í þessari kennslu er alls ekki alltaf ljóst hvenær er verið að kenna börnunum óstaðfestar sögusagnir með misvitrum boðskap (dæmi: sonarfórn Abrahams) eða staðreyndir mannkynssögunar.
Er það nema von að börnin geri sér ekki alltaf grein fyrir mörkunum þarna á milli fyrst það er ekki skýrt út fyrir þeim? Hver er tilgangurinn með svona kennslu?
Getur verið að upplýst nútíma samfélag telji það bara í lagi að hægt sé að hafa þá "skoðun" að sköpunarsagan eigi við rök að styðjast? Erum við virkilega svo hrædd við kirkjuna að við þorum ekki að andmæla þessu opinberlega?
Berum við meiri virðingu fyrir mismunandi "skoðunum" á staðreyndum raunvísindanna ef þær snúa að trúarlegum álitaefnum heldur en þeim atriðum sem talin voru upp í upphafi pistilsins?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Ef þér finnst darwinismi vera svona mikil staðreynd, að einfrömungar urðu að einstaklingum, hvaða rök og alvöru staðreyndir styðja þessa trú þína?
Er virkilega eitthvað að því að kenna hvað styður þróun og hvað passar ekki við þróun og leyfa nemendum að velja hvað þeir telji vera líklegast?
Mofi, 20.11.2007 kl. 18:34
Sæll Mofi
Ég geng skrefinu lengra en að finnast eða trúa að þróunar sé staðreynd. Í mínum huga er þróun staðreynd. Það rökstyð ég með:
Ég gæti haldið lengi áfram en geri ekki ráð fyrir að það breyti trú þinni á sköpunarsöguna.
Hvað er það sem passar ekki við þróun? Enn hefur ekki tekist að kveikja líf á rannsóknastofu en það nægir ekki til að hafna þróun.
Vissulega er margt í vísindum sem ekki er fullþekkt, það er nauðsynlegt að viðurkenna það. Ef við skýrum það með yfirnáttúrulegum skýringum, þá hættum við að spyrja spurninga og án þeirra er ekkert rannsakað, án rannsókna verða engar framfarir.
Í kennslu barna er eðlilegt að leggja á borð fyrir þau það sem sýnt hefur verið fram á með vísindalegum aðferðum en halda frá þeim því sem menn í fáfræði notuðu til að útskýra heim sem þeir skildu ekki hér áður fyrr.
Ekki ætlum við að láta börnin okkar velja hvort þeim finnist jörðin er flöt eða hnöttótt?
Kristjana Bjarnadóttir, 20.11.2007 kl. 21:22
Það er rétt að við finnum steingervinga en að það sem við finnum passi við þróun er engann veginn rétt. Þróun spáði fyrir því að við myndum sjá "einfaldar" lífverur fyrst og síðan verða smá saman flóknari og flóknari eða nær því sem við sjáum í dag þar sem við sjáum hvernig dýrin breyttust. Staðreyndin er aftur á móti sú að við finnum fyrst mikla fjölbreytni dýra án nokkurar þróunarsögu, dýr sem eru merkilega svipuð þeim sem eru til í dag.
Það er til nóg af tilvitnunum frá vísindamönnum þar sem fjallað er um þessa "staðreynd".
Að dýr aðlagðist aðstæðum er engin alvöru rök fyrir þróun. Við sjáum að þau hafa þetta í sér og sjáum það gerast merkilega hratt. Til dæmis þá hafa rannsóknir á finkunum frægu hans Darwins flakkað frá löngum goggum til styttri. Að sjá að fugl geti fengið lengri eða styttri gogg og draga þá ályktun að froskar breyttust í menn er vægast sagt að draga meiri ályktun en staðreyndirnar gefa til kynna. Við vitum að dýr hafa aðlögunarhæfileika en eina sem getur búið til eitthvað nýtt eru tilviljana kenndar stökkbreytingar og við höfum vægast sagt ekki séð neitt sem er sannfærandi um þeirra sköpunarmátt.
Þetta dæmi er svona svipað og maður sem horfir á stóra flókna vél og er að hugsa um hvað gæti hafa búið vélina til. Síðan sér hann stein lenda í henni og hún bilar og hann hrópar yfir sig "eureka", svona varð vélin til. Hérna er smá lestur ef þú telur mig ekki fara með rétt mál: Antibiotic Resistance of Bacteria: An Example of Evolution in Action?
Steingervingarnir er það fyrsta sem mér dettur í hug. Síðan þá er margt í náttúrunni sem er ekki hægt að útskýra að hafi gerst í litlum tilviljanakenndum skrefum því þú verður að hafa allt tilbúið á sama tíma. Málið er að ef tilviljun á að hafa tekið stórt stökk þá er enginn munur á því og kraftaverki. Svona óeinfaldanleg kerfi er sérstaklega augljós í minnstu einingum lífs og þannig dæmum fjölgar eftir því sem við rannsökum meira. Hérna er mitt uppáhalds dæmi um slíkt tæki: http://mofi.blog.is/blog/mofi/entry/279720/
Síðan er lífið svo greinilega hannað að hafna því er að hafna rökhyggju og vísindum á sama tíma. Ég reyndi að útskýra það hérna: http://mofi.blog.is/blog/mofi/entry/360555/
Ef það væri umdeilt þá teldi ég eðlilegt að þeim væru kennd þau rök sem væru með og þau sem væru á móti, allt annað væri fáfræði sama þótt að einhver er voðalega sannfærður um að hann hafi rétt fyrir sér. Hérna aftur á móti erum við að tala um eitthvað sem enginn var vitni að og þær staðreyndir sem styðja þróun eru mjög svo hæpnar svo ekki sé meira sagt. Þetta er síðan ákveðin trú sem er algjörlega á móti stórum hluta trúarbragða mannkyns og einhver mun móðgast þegar þetta er kennt sannleikur.
Mofi, 20.11.2007 kl. 22:57
Já þetta er stórskemmtilegt líf. Ég held ég reyni ekkert að hnika þér Mofi.
Ég held hins vegar að svona rökræður veki okkur hin svolítið upp með hvað er í gangi. Það er tilhneiging til að láta svona umræðu og skoðanir sem þessar sem vind um eyru þjóta. Ég óttast að það ýti undir fáfræði. Nýlega greiddi fulltrúi Íslendinga í Evrópuráði þingmanna atkvæði gegn ályktun um að vara við því að sköpunarkenningin verði kennd sem vísindagrein. Það er full ástæða til að vera varðbergi.
Kristjana Bjarnadóttir, 20.11.2007 kl. 23:25
Vonandi er ég að lesa vitlaust en telurðu að svona rökræður ýti undir fáfræði? Alltaf í vísindum þá hafa deilur aukið þekkingu, ef þróun er svona svakalega vel studd af staðreyndunum þá hefur hún gott af gagnrýni. Ef hún er aftur á móti ekki sönn þá er þörf á því að nota lygar til að verja hana, kenna hana sem sannleika og gera grín að öllum þeim sem dirfast að gagnrýna hana. Held að það sé alveg komið á hreint að hún er ekki sönn.
Þú getur ekki varið þína trú, þú getur ekki komið með alvöru rök fyrir henni en samt er nauðsynlegt að vera á varðbergi gagnvart þeim sem eru ósammála þinni trú. Ég held ég sjái alveg hvernig þú hugsar eða hugsar ekki.
Í fyrsta lagi þá eru rök á móti þróun, rök með ID því það eru ekki aðrir möguleikar sem við höfum að velja úr. Þeir gætu verið fleiri en við þá vitum ekki hverjir þeir eru. Síðan eru dæmi um flókna hönnun rök sem styðja ID, alveg eins og forritunarkóði eða bók er sönnun fyrir tilvist forritara eða tilvist rithöfundar þá er DNA sönnun fyrir tilvist einhvers sem bjó það til og setti upplýsingarnar á það.
Mofi, 21.11.2007 kl. 00:00
Kristjana, rök sem þú komst með til að styðja þessa þróunartrú þína voru algjört bull og í staðinn fyrir að horfast í augu við það þá velur þú að loka augunum. Auðvitað þitt val en endilega sýndu smá heiðarleika og viðurkenndu að þetta er þín trú þótt þú hafir engar sannanir til að styðja hana.
Mofi, 21.11.2007 kl. 00:01
Mofi: Það er alveg rétt hjá þér að þróunarkenningin verður að þola umræðu og gagnrýni. Hún gerir það enda er hún kennd sem vísindi út um allan heim. Ég vil leiðrétta þig með það að ég tel ekki að rökræðurnar valdi fáfræði, heldur að þeir sem aðhyllast þróunarkenninguna hundsi þessa umræðu og telji þróun svo sjálfsagða að það sé í lagi að kynna Adam og Evu fyrir börnunum okkar sem persónur mannkynssögunar, það tel ég að ýti undir fáfræði:
Ég skal líka játa að ég trúi að þróun hafi átt sér stað og eigi sér stað enn þann dag í dag. Ég trúi líka að jörðin sé hnöttótt. Ég hef rökstutt "trú" mína á þróun og ætla ekki að gera það aftur.
Ég tel að þessar umræður séu nauðsynlegar og er því ánægð með þitt innlegg.
Fyrir okkur sem erum "þróunartrúar" er hollt að vita af öðrum hugmyndum og gera okkur grein fyrir að þær eru mun algengari en okkur grunar. Hversu langt er réttlætanlegt að ganga í að viðurkenna þær, viðurkennum við frekar þessar hugmyndir og umberum þær frekar en að jörðin sé flöt af því að þetta snertir trúarhugmyndir fólks? Það var það sem ég vildi fá fólk til umhugsunar um með þessum pistli mínum.
Kristjana Bjarnadóttir, 21.11.2007 kl. 08:32
Kannski þá þeir sem aðhyllast darwinisma og hundsi þessar rökræður og vilja banna gagnrýni á hana eru þá líka að ýta undir fáfræði? Þótt ég trúi að Adam og Evu eru persónur í mannkynssögunni þá set ég það fram sem mína trú af því að ég treysti Biblíunni sem heimild um fortíðina. Að hafna henni sem sögulegri heimild án alvöru rannsóknar tel ég vera fáfræði.
Þegar við skoðum hvað stökkbreytingar hafa getað gert síðan við byrjuðum að rannsaka þær þá höfum við fengið góða hugmynd um hvað þær geta gert og með því besta sem þær hafa gert er smá breytingar á flóknum próteinum sem vanalega skemma þær. Svo trúin að þær geti sett saman flóknari tæki en allir vísindamenn í dag geta er vægast sagt að hafa mikla trú. Þú færðir rök fyrir þessari skoðun þinni en engin af þeim stóðust gagnrýni og steingervingarnir akkurat besta dæmið þar sem darwinismi passar ekki við staðreyndirnar. Ég vona að þú að minnsta kosti komist að þeirri niðurstöðu að það er ekki út í hött að efast um þessa sögu sem Darwin skáldaði upp.
Takk fyrir það, endilega komdu með fleiri rök fyrir þróun, mjög leitt að vita til þess að þú heldur kannski að það eru einhver önnur rök fyrir þessu sem eru sannfærandi. Ég vona líka að fólk hafi vaknað til umhugsunar um þessi mál því að mínu mati er darwinismi trú sem er skaðleg mannlegu samfélagi og alvöru vísindum.
Mofi, 21.11.2007 kl. 10:11
Hver skapaði þá Guð var hann alltaf til ? ef já, þá kemur upp spurningin hvað er alltaf og hvenær byrjaði það...
Fríða Eyland, 22.11.2007 kl. 00:12
Þróun er breyting lífvera í tíma. Þurfum við að þrasa um að það gerist? Ef svo þá tel ég að það þurfi að endurskoða ýmislegt af því sem fólki er kennt í skóla.
Þróun skýrir ekki hvernig lífið kviknaði. Það er annað mál sem mér vitanlega vísindunum hefur ekki tekist að útskýra. Menn geta gripið til yfirnáttúrulegra skýringa til þess ef menn vilja meðan ekkert sennilegra finnst. Það er hins vegar nauðsynlegt að vera tilbúin til að varpa þeim skýringum ef sennilegri skýringar finnast. Þar skilur á milli trúarbragða og vísinda, eðli vísinda er stöðug endurskoðun þekkingar, eðli trúarbragða er að ríghalda í gamlan bókstaf.
Kristjana Bjarnadóttir, 22.11.2007 kl. 08:39
OK spagettískrímslið, ég ernú ekki alveg að kaupa það...
Fríða Eyland, 25.11.2007 kl. 00:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.