Líffæraígræðslur

Ýmsir sjúkdómar eru þess eðlis að líffæraígræðsla er eina von sjúklings. Um getur verið að ræða hjarta, lungu, lifur eða nýru. Nýrnaígræðslur njóta töluverðrar sérstöður þar sem sjúklingur á möguleika á meðferð í blóðskilun eða kviðskilun og einnig er mögulegt fyrir sjúklinginn að fá nýtt nýra úr lifandi gjafa, oftast systkini eða foreldri. Stundum er þetta ekki valkostur fyrir sjúklinginn og er hann þá settur á biðlista eftir nýra úr látnum gjafa. Líffæraígræðslur hjarta, lungna og lifra eru bara mögulegar úr látnum gjöfum.

Fyrir þá sjúklinga sem um ræðir er þetta oft á tíðum lífgjöf, a.m.k. fær sjúklingurinn ef vel tekst til umtalsvert aukin lífsgæði.

Sífellt fleiri sjúklingar eru á biðlista eftir líffærum en framboðið er takmarkað. Eitt af því sem takmarkar framboð er að ættingjar látins mögulegs líffæragjafa treysta sér ekki við dánarbeð að heimila líffæratöku. Þetta er mjög skiljanlegt sjónarmið ef ættingjarnir vita ekki hug hins látna og umræða um þessi atriði hefur aldrei farið fram. Því er upplýst umræða innan fjölskyldna um líffæragjafir úr látnum einstaklingum mikilvæg þannig að fólk viti um hvað málið snýst og sé kunnugt um hug sinna nánustu.

Þetta er kannski ekki skemmtilegasta umræðuefnið við kvöldverðarborðið en eigi að síður mikilvægt að ræða svona mál og afla sér upplýsinga ef fólk veit ekki um hvað málið snýst. Það er líka mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sem kemur að þessum málum hvetji til þessarar umræðu og gefi á opinberum vettvangi upplýsingar sem gagnast fólki til að taka vitræna ákvörðun.

Ég hvet til þessarar umræðu og bendi fólki á að nálgast þetta einnig frá sjónarhóli þeirra sjúklinga sem þurfa á líffærum að halda. Hver væri okkar hugur til líffæraígræðslna ef við sjálf eða náinn ættingi væri á slíkum biðlista?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband