Gjafabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar

Það tíðkast að boða til gleðskapar við tímamót svo sem eins og tugafmæli. Sá sem heldur boðið gerir það í flestum tilvikum til að nota tækifærið til að hitta sjaldséða ættingja og vini, langar að fá það fólk sem næst sér stendur til að fagna við þetta tækifæri.

Boðsgestir vilja síður koma tómhentir, vilja sýna í verki hug sinn og gleðja veisluhaldarann með einhverjum hætti. Nú á dögum allsnægta er erfiðleikum háð að finna fyrir skynsamlegan pening eitthvað sem kemur viðkomandi vel, fólk gjarnan stofnar til samskota og er það vel. En stundum er maður ekki hluti af hóp þegar svona veisluboð rekur á fjörurnar.

Hjálparstofnun kirkjunnar býður upp á falleg gjafabréf. Á gjafabréfinu kemur fram til hvers upphæðin verður notuð. Hægt er að kaupa geit fyrir 3000 kr, geitinni verður ráðstafað til fátækrar fjölskyldu í Afríku, hægt er að leysa þrælabarn á Indlandi úr ánauð fyrir 5000 kr og einnig er hægt að leggja til mismunandi upphæðir til byggingar vatnsbrunna.

Það er ágæt hugmynd að eiga alltaf heima gjafabréf fyrir t.d. einni geit, þá er maður alltaf viðbúinn óvæntum boðum og er ég sannfærð um að geit í Afríku gleðji gamlar frænkur ekki minna en fertugasta slæðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú verð ég að vera ógeðslega neikvæð:

1 Það eru of margar geitur á mörgum svæðum í Afríku. Þær geta valdið gróðureyðingu og uppblæstri - ekki gott.

2 Að leysa þrælabarn á Indlandi er að taka þátt í verslun með fólk. Þrælahaldarinn græðir og er væntanlega fljótur að finna annað barn - vont.

3 Brunnur hljómar vel en virkar ekki vel. Rannsóknir sýna að barnadauði eykst sums staðar mikið nokkru eftir að brunnur er kominn. Ástæðan er sú að brunnurinn léttir störf kvennanna, frjósemin eykst og börnunum fjölgar en allt hitt vantar - í besta falli vafasamur greiði.

Ég er samt ekki á móti aðstoð í þróunarlöndum. Ég veit til dæmis ekki um neina ókosti við að reka skóla!

kveðja

Lilja 

Lilja (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 13:43

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæl Lilja, mikið finnst mér gaman að fá svona viðbrögð.

1. Varðandi geiturnar skal ég ekkert fullyrða um hvort þær muni stefna Afríku í auðn, þetta geitaverkefni snýr að því að hjálpa fólki til sjálfsþurftabúskapar og finnst mér það af hinu góða. Það er líka hægt að fá 2 hænur fyrir sama verð og geit ef fólk hefur áhyggjur af ofbeit.

2. Varðandi þrælabarnið, þá er þetta föst upphæð sem rennur í verkefni sem gengur út á að leysa þrælabörn úr ánauð og koma þeim út í lífið. Fyrir sum börn þarf lægri upphæð, önnur hærri. Verkefnið gegnur út á að koma þeim í skóla og kenna þeim eitthvað þannig að þau eigi sér von. Eftirfarandi er tekið af heimsíðu "Hjálparstarfs kirkjunnar" þar sem fjallað er um þetta verkefni:

"Samtökin voru sett á laggirnar til þess að auka menntun og efla sjálfsvitund dalíta og þeirra allra lægst settu í indversku þjóðfélagi. Stofnuð hafa verið verkalýðsfélög í hefðbundnum atvinnugreinum dalíta s.s. sykureyrskurðarmanna, þvottamanna og skóara. Stéttlausum er veitt lögfræðileg aðstoð í deilumálum við stjórnvöld t.d. þegar barist er fyrir breytingum á eignarhaldi lands. Ssamtökin reka forskóla til að búa börn stéttlausra undir nám ekki síður en aðkast og erfiðleika í almenna skólakerfinu. Samtökin reka umfangsmikið verkefni til að leysa þrælabörn úr ánauð og koma þeim í skóla. Náið er unnið með foreldrum, þeir fræddir um réttindi sín og barna sinna og þeim sýnt fram á mikilvægi þess að börnin þeirra ganga í skóla. SAM rekur kvöldskóla til að búa vinnandi börn undir það að hætta í vinnu og fara í skóla. SAM vinnur mikið upplýsingastarf þessu tengt til þess að geta herjað á stjórnvöld um aðgerðir gegn barnaþrælkun. Þegar börnin eru tilbúin til að setjast á skólabekk er skuld foreldra þeirra greidd, og börnin innrituð í almenna skóla."

3. Ég á bágt með að trúa að koma brunns í samfélag sé neikvæð vegna þess að fólkið í þorpinu fari bara að fjölga sér þegar konurnar þurfa ekki lengur að eyða orku sinni í vatnsburð. Ég kann ekki að útskýra aukinn barnadauða í kjölfar brunns, hef reyndar aldrei heyrt um að það væri vandamál. Get bara ekki trúað að það sé verra að fá brunninn, mögulega þarf að gera meira, kenna fólkinu en það á þá að vera partur af aðstoðinni, ekki ástæða til að sitja hjá.

Ég tel okkur ekki stætt að sitja hjá og leiða vandamál 3ja heimsins hjá okkur, vissulega má finna vankanta á mörgu sem gert hefur verið. Ég tel að þetta verkefni eigi rétt á sér, einnig barnahjálp ABC sem ég hef áður fjallað um en fékk líka gagnrýni á. Það verkefni gengur einmitt út á að reka skóla.

Kristjana Bjarnadóttir, 31.10.2007 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband