6.12.2007 | 22:10
Minningabrot úr mötuneyti Laugagerðisskóla
Á þriðjudögum voru kjötbollur, kartöflur og brún sósa. Líklega var líka rabbabarasulta. Þetta var uppáhaldsmatur flestra. Sumir borðuðu óstjórnlega, stundum var kappát. Þetta var líklega sá matur sem krakkarnir borðuðu af því að þeim þótti hann góður, ekki bara til að fylla magann.
En svo kláruðust bollurnar, allt búið sögðu eldhúskonurnar þegar við báðum um meira. Samt voru alltaf upphitaðar bollur í brúnni sósu á þriðjudagskvöldum.
Skrýtið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Gamlar sögur | Facebook
Athugasemdir
Já þetta var fjölbreytt fæði, hrossakjöt einu sinni í viku, rassgarnarendar meranna stóðu út um munnvikin á okkur eftir hádegið þann daginn, þetta var oft í seigara lagi. Svo varð bylting þegar farið var að bjóða súrmjólk í morgunmat, ja hérna, liðið þurfti ekki lengur að engjast yfir lapþunnum hafragraut með rauðri lýsisperlu í miðjunni svona eins og kirsuber á rjómatertu eða þannig. En við lærðum þó að halda á hníf og gaffli þ.e.a.s þeir sem eru fæddir 1963 líklega og fyrr. Hinir fóru á mis við þá kennslu ef mig minnir rétt. En nú er öldin önnur, unga fólkið fitjar upp á nefið yfir kjötbollum og súrmjólk og heimtar pítsur og cocapuffs. Sei sei.
Erna Bjarnadóttir, 6.12.2007 kl. 22:31
Nei, nú verð ég að leiðrétta þig. Loksins !! Á þriðjudögum komum við með sultu í skólatöskunni að heiman. Það var nefnilega engin sulta í boðinu. Ég át einu sinni 13 bollur, þessi pínulitla stelpa.
Anna Einarsdóttir, 7.12.2007 kl. 00:20
Já Anna alveg rétt hjá þér! Við komum nefnilega með sultuna að heiman þó við hefðum sennilega haft betra af hundasúrum og skarfakáli, ekki var nú verið að moða í okkur salatið.
Annars hitti ég hana Rósu, okkar sérlega siðameistara sem erum árgerð ´63 og eldri, stundum í sundi. Alltaf jafn glæsileg kona.
Ef mig svo misminnir ekki þá var endanlega gerð bylting í morgunmatnum þegar einstaka daga var boðið uppá kornflex. Það var tilkynnt af þeim sem fyrstur fór niður og kom æðandi upp aftur og öskraði: Það er KORNFLEX!! Svo kom öll hjörðin reykspólandi niður stigann eins og meðal gnýjahjörð í afrískum dýralífsþætti, ætlaði sko ekki að missa af þessu góðgæti. Maður kann að meta lystisemdir fjölbreyttrar matreiðslu eftir þessa reynslu.
Ásdís (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 08:47
Já, ég man þegar ég byrjaði í Laugargerði og þurfti sjálf að hreinsa þverskorna ýsuna sem var búin að standa á borðunum allan tímann sem við stóðum í röðinni fyrir framan matsalinn og gengum svo náttúrulega hægt og rólega og stillt inn í röð. Engin læti, enginn að troðast! 7 ára gömul var ég ekki vön að þurfa að hreinsa fiskinn heima hjá mér, svo það gekk ekkert mjög vel. Enda var ýsan orðin ísköld þegar maður gat loksins farið að borða. Svo var Vals tómatsósa í litlum stálskálum, mér finnst Vals tómatsósa ekki góð. Í minningunni var þessi matur verstur.
Ég man þegar við fengum niðursoðna ávexti með rjóma í kvöldkaffinu um helgar... rjóminn var dísætur. Mér fannst það ekki gott :(
Ég man líka þegar var farið að bjóða upp á hakk og spaghettí fyrst. Þvílíkur munaður!
Ha, ha, ég man líka eftir kjötbolluátinu :)
Kv. Þorbjörg.
Þorbjörg (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 09:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.